31.01.1951
Sameinað þing: 34. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í D-deild Alþingistíðinda. (4152)

113. mál, niðurgreiðsla á olíu til rafstöðva

Flm. (Lúðvík Jósefsson) :

Herra forseti. Þessi till., sem ég flyt hér á þskj. 207, er þess efnis, að Alþ. álykti að fela ríkisstj. að greiða niður olíu til rafstöðva. Eins og þm. er kunnugt, þá háttar svo til sums staðar á landinu, að raforkan er framleidd með dieselvélaafli. Sérstaklega er þetta gert í þorpunum á Austurlandi og Vestfjörðum og nokkrum fleiri stöðum. Þetta er á þeim svæðum á landinu, þar sem ekki hefur þótt tiltækilegt að ráðast í stórar vatnsvirkjanir, þar sem aðstaðan hefur verið þannig, að ekki hefur þótt kleift að hefja slíkar stórframkvæmdir, eða þær framkvæmdir hafa að minnsta kosti verið látnar bíða og aðrar framkvæmdir teknar á undan. — Þau raforkuver í landinu, sem stærst eru í þessum hópi, eru rafveiturnar í Vestmannaeyjum, Neskaupstað og á Patreksfirði, en auk þess eru allmörg þorp, sem hér eiga hlut að máli og hafa lengst af búið við ónóga raforku og framleitt rafmagn við óhagstæð skilyrði og raforkan því orðið mjög dýr hjá þeim, og hafa allir þessir staðir orðið aðnjótandi miklu minni stuðnings frá hálfu ríkisins en þeir staðir, sem lengra eru á veg komnir í raforkumálum. Einkum hefur mikið borið á því hin síðari ár, eftir að ríkissjóður er í mörgum tilfellum farinn að verða stór eignaraðili að orkuverum eða beinlínis farinn að koma upp orkuveitum og reka rafveitur á allstórum svæðum, eins og nú á sér stað. En þessar stöðvar t. d. á Austfjörðum og Vestfjörðum, sem hafa látið sér nægja dieselstöðvar, hafa þurft að sjá fyrir sér sjálfar í þessum efnum og orðið að búa við langtum dýrara rafmagn en aðrir. En svo þegar l. um gengisbreytinguna voru samþ. á s. l. ári, má segja, að hafi keyrt um þverbak hjá þessum stöðvum, því að stærsti liðurinn í rekstri þessara rafveitna var vitanlega olía, og við gengislækkunina hækkaði olíuverð gífurlega mikið, og nú mun láta nærri, að olían sé um það bil í helmingi hærra verði en fyrir gengisbreytinguna. Það mun því vera svo, að alls staðar þar, sem rafveitur eru reknar á þennan hátt, hafi raforkan orðið miklu dýrari síðan gengislækkunarl. voru samþ. og hrekkur ekki einu sinni til. Verður ekki séð fyrir endann á því, hvernig þær geti komið rekstri sínum þannig fyrir, að tekjur geti komið á móti gjöldum. Nú er það því ósk þessara aðila, að ríkisvaldið létti þarna nokkuð undir og verði við því að greiða niður verð á olíunni til þessara almenningsrafveitna, sem nemi verðhækkuninni vegna gengisbreytingarinnar. Á þann hátt gætu þessar rafveitur fengið raforkuna á sambærilegu verði við aðrar rafveitur í landinu, þó að það yrði alltaf nokkru hærra, en það yrði ekki þvílíkur gífurlegur munur á verðinu hjá þeim og hinum, sem hafa vatnsvirkjanir, eins og nú, eftir að gengisbreytingarl. voru samþ.

Það kann nú að vera, að einhverjum finnist við fyrstu athugun hér vera farið inn á nokkuð hættulega braut, að greiða niður olíuverðið til þessara aðila. En ég vil benda á, að till. er glögglega afmörkuð við það að greiða einungis niður olíuverð til dieselrafstöðva, sem reknar eru til almenningsþarfa, en hér er ekki blandað inn í á neinn hátt smærri rafveitum, sem einstaklingar kunna að reka, því að það yrði erfitt að fóta sig á því, en í þessu tilfelli held ég, að ef niðurgreiðslan yrði miðuð við raforkustöðvar til almennings þarfa, þá mætti halda sig við það fasta form, og hygg ég, að þá væri ekki með þessu farið inn á hættulega braut.

Ég vil geta þess í þessu sambandi, að þeir staðir, sem þarna eiga mest undir, hafa síðan þessi till. kom fram sent Alþ. samþykktir sínar hér að lútandi, t. d. Vestmannaeyjar, Eskifjörður, Neskaupstaður og Fáskrúðsfjörður, þar sem eindregið er skorað á Alþ. að verða við þessari beiðni, að halda á þennan hátt niðri þeirri gífurlegu verðhækkun, sem hefur orðið til rafveitna.

Ég skal nú, til þess að greiða fyrir þessu máli og þar sem áliðið er þings, ekki hafa fleiri orð um þetta að sinni, en vildi vænta þess, að sú n., sem fær málið til athugunar, vildi greiða fyrir því á allan hátt, svo að það gæti fengið afgreiðslu á þessu þingi. — Að lokinni þessari umr. vildi ég leggja til, að málinu yrði vísað til fjvn.