28.02.1951
Sameinað þing: 48. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1514 í B-deild Alþingistíðinda. (417)

Almennar stjórnmálaumræður (eldhúsdagsumræður)

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Góðir tilheyrendur. Út af ræðu Bjarna Benediktssonar vil ég segja þetta: Þá, sem ameríska auðvaldið ætlar að tortíma, brjálar það fyrst með ósannindum og kommúnistaæsingum eins og þeim, sem Bjarni Benediktsson þá var með. Það mun nú hins vegar ganga seint að brjála Íslendinga, þó að Hitler tækist það með Þjóðverja.

Bjarni Benediktsson notaði hér í umr. áðan falsaða tilvitnun í ræðu Brynjólfs Bjarnasonar frá 1941, tilvitnun, sem tvisvar áður er búið að reka ofan í hann hér í útvarpi frá Alþingi. Þá ræðu getur hver hlustandi lesið orðrétta í þingtíðindunum frá aukaþinginu 1941. Engu að síður dirfist ráðherrann að nota hina fölsuðu tilvitnun í þriðja sinn.

Hann slær hér líka um sig með Lenintilvitnunum, sem líka er búið að sanna hér í útvarpi að eru falsaðar. Engu að síður ber þessi vísvitandi ósannindamaður það á sósíalista, að þeir beiti fyrir sig lyginni, og segir Lenin hafa kennt það. Ráðh. fer bókavillt. Kenningarnar, sem hann fer eftir, um að endurtaka lygina nógu oft og nógu óskammfeilið, er að finna í biblíu Bjarna Benediktssonar, „Mein Kampf“, eftir Adolf Hitler.

Það er skiljanlegt, að utanrrh. sé taugaóstyrkur, þegar hann talar um efnahagssamvinnu Marshalllandanna. Hann sér afleiðingarnar af utanríkispólitík sinni blasa við á fiskimiðunum kringum allt land. Það eru Marshalllöndin, sem nú gera út hundruð togara til að ræna fiskimið okkar Íslendinga og eyðileggja markaði okkar. Það eru Marshall-togararnir ensku og þýzku, sem nema nú björgina frá fiskimönnum Íslands, hin ríku Marshall-lönd, auðugustu nýlenduríki heims, sem ræna lambi fátæka mannsins, eyðileggja fiskimiðin, dýrmætustu fjárhagslegu eign Íslendinga. Það er þokkaleg efnahagssamvinna þetta, samvinna við ræningjana, sem eru að rýja Ísland.

Keflavíkur- og Cocacola-ráðherrarnir töluðu hér mikið um það, hve hátt kaup væri slæmt fyrir launþega. Má ég spyrja þessa herra: Er það slæmt fyrir hina amerísku starfsmenn á Keflavíkurflugvelli að fá 8000 kr. mánaðarkaup (500 dollara) fyrir sömu vinnu og íslenzkir starfsmenn fá 3000 kr.? Eða er þetta jafnréttið, sem Íslendingar eiga von á undir áframhaldandi amerískri leppstjórn? Þessir fulltrúar ameríska auðvaldsins eru að reyna að fá íslenzka verkamenn til að vera undirþjóð í eigin landi. Yfirþjóðin á hins vegar að búa við margfalt betri kjör en Íslendingar í sínu eigin landi. Þess vegna prédika þessir ráðherrar þýlyndið svo heiftarlega.

Eysteinn Jónsson réðst hér á nýsköpunarstjórnina að vanda. Já, hvernig skyldi það hafa gengið fyrir þjóðina að lifa núna á gömlu togurunum eingöngu, sem nú liggja fyrir akkeri vegna ræfilsskapar ríkisstj.? En á þeim hefði þjóðin nú átt að lifa, ef pólitík Eysteins hefði ráðið 1944. Þá hefðu engir nýsköpunartogarar verið til, ekki þan atvinnutæki, sem þjóðin bókstaflega lifir á.

Stefán Jóhann sagði, að Sósfl. væri samsærissamtök, stjórnað frá Moskvu. En hvað þetta var frumlegt, aldrei hefur það heyrzt fyrr. Þá vitið þið það, Íslendingar, að nýsköpun atvinnulífsins var gerð af Rússum og nýsköpunartogararnir keyptir samkvæmt skipun frá Moskvu. Ósköp lítur þessi maður smáum augum á úrræði Íslendinga. Það er ekki að undra, þó að Alþfl. ógnuðu skýjaborgirnar hér á árunum. Þeir hafa líklega séð Moskvu í skýjunum þá.

Stefán Jóh. Stefánsson sagði enn fremur, að það hefði verið þokkalegt ástand á Íslandi núna, ef ótætis sósíalistunum hefði tekizt að eyðileggja fyrir afturhaldinu, að þjóðin fengi Marshallaðstoðina, og Eysteinn tók undir. Mínir Marshallherrar! Út á hvað haldið þið, að þið fáið Marshallgjafirnar, meiri gjafir að tiltölu en ameríska auðvaldið gefur nokkurri annarri þjóð í heiminum? Þið fáið þær út á styrkleika okkar sósíalista hér á Íslandi. Þessi litli flokkur íslenzkrar alþýðu er þyrnir í augum hins volduga ameríska auðvalds, af því að okkar flokkur er gagnvart ameríska heimsveldinu fulltrúi þess bezta, sem þjóð var á til, ástar hennar á sjálfstæði sínu, vilja hennar til að berjast fyrir frelsi sínu og farsæld, og af því að bak við hann stendur þjóð, sem á sex alda nýlendukúgun að baki sér og ætlar sér aldrei að verða nýlenda á ný. Ameríska auðvaldið veit, að ofbeldi dugir ekki við okkar þjóð. Þess vegna reynir það að stinga henni svefnþorn með gýligjöfum Marshalls. Þríflokkarnir hafa fengið hana til þess að taka við gjöfunum, en hvort þeim tekst að svæfa hana með þeim, er annað mál. Ísland hefur þegið gjafakorn fyrr, en hljómur orðsins brennur enn á hverri íslenzkri tungu.

Vaxandi fylgi Sósfl., eins og kosningarnar nú seinast í Iðju og vanmegna bræði Marshallflokkanna yfir því, er bezta sönnunin fyrir því, að íslenzka þjóðin lætur ekki stinga sér svefnþorn.

Ólafur Thors sagði í ræðu sinni í fyrrakvöld, að við sósíalistar hefðum nú hindrað, að stj. gæti nú náð verzlunarsamningum við ríkisstjórnir Austur-Evrópulandanna og að við ætluðum að sitja að slíkum samningum sjálfir og þess vegna heimtuðum við frjálsa verzlun, og Bjarni Benediktsson reyndi að endurtaka þetta á sinn þokkalega hátt. Ég skal hér með gefa Ólafi Thors tækifæri til þess að láta þjóðina ganga úr skugga um, hvor okkar hafi á réttu að standa í þessu máli. Ég hef barizt fyrir því, að rýmkað verði á verzlunarhöftunum, bæði útflutnings- og innflutningshöftunum, af því að ég hef verið sannfærður um, að íslenzka ríkisstj. hefur verið næstum áhugalaus, svo að ekki sé sterkara að orði kveðið, um ný viðskiptasambönd í Austur-Evrópu, önnur en samböndin við Pólland og Tékkóslóvakíu, sem hún hefur ekki þorað að slíta, síðan ég hnýtti þau bönd ásamt Pétri Benediktssyni í umboði nýsköpunarstjórnarinnar 1945. Ég veit, að ríkisstj. reynir eftir mætti að hindra ný viðskiptasambönd þar austur á bóginn, og að það er á henni, sem stendur um slík viðskiptasambönd. En haldi Ólafur Thors, að við sósíalistar séum svo áhrifaríkir hjá stjórnum Austur-Evrópulandanna sem í yfirlýsingu hans fólst, og vilji hann koma á sem mestum viðskiptum við þau lönd, þannig, að ríkisstj. hafi samningana, þá geri ég honum hér með það tilboð, að ég skal fara sjálfur, eða ef hann vill frekar aðra menn úr Sósfl., þá reyna að fá þá í sendinefnd ríkisstj. til t. d. Austur-Þýzkalands og Ungverjalands til þess að reyna að koma á sem mestum viðskiptum við þau lönd. Ríkisstj. veit, að nú hefur staðið til í á mánuði að gera viðskiptasamning við Austur-Þýzkaland, sem ég hef átt frumkvæðið að að boðinn var, en ríkisstj. hefur ekkert viljað gera. Neiti hann þessu boði, þá er það vegna þess, að ríkisstj. óttast, að það muni ganga eins vel og 1945, þegar Austur-Evrópa opnaðist fyrir íslenzkum afurðum með þeim afleiðingum, að verðlag íslenzkra útflutningsvara stórhækkaði og nýr markaður opnaðist fyrir 15 þús. tonn af freðfiski.

Alþýðu Íslands vil ég segja þetta: Það er engin ástæða til að vita, þótt við búum við illt stjórnarfar og þess vegna atvinnuleysi og kaupkúgun. Slíkt er sjálfskaparviti, sem íslenzk alþýða getur bætt úr við næstu kosningar. Það, sem alþýðu Íslands vantar, er úrslitaáhrifin á ríkisstj. landsins. Allt hitt, sem þarf til þess, að þjóðinni geti liðið vel, höfum við, eða getum tryggt okkur, ef aðeins heiðarleg, sjálfstæð stjórn fer með völdin í landinu.

Við Íslendingar erum þrátt fyrir alla óráðsíu Framsóknar í atvinnulífinu síðustu árin ríkari en nokkru sinni fyrr. Við höfum tækin til að vinna með, veiðiskipa- og flutningaflotann og hvers konar verksmiðjur, þakkað veri nýsköpunarstjórninni, beztu stjórninni. sem setið hefur að völdum á Íslandi, eins og Ólafur Thors tók réttilega fram í fyrrakvöld, enda vil ég bæta við, einu stjórninni. sem starfað hefur á þjóðlegum grundvelli síðan lýðveldið var stofnað, því að allar hinar hafa ofurselt sig erlendu valdboði.

Við höfum afl þeirra hluta, sem gera skal, vinnuaflið, meira, betra og faglærðara vinnuafl en nokkur fyrri kynslóð Íslendinga hafði yfir að ráða. Og þetta vinnuafl vilja valdhafar landsins nú dæma til atvinnuleysis. Við höfum markaðina, næga markaði fyrir allt, sem Ísland getur framleitt, ef þjóðin aðeins fær að nota þá í friði fyrir einokunarhöfðingjum Reykjavíkur og afskiptum amerískra auðhringa. Við getum fengið hækkandi verð fyrir afurðir okkar, ef við aðeins fáum að selja þær frjálst, og það gífurlega hækkandi verð fyrir sumar. Þessu leyna núverandi valdhafar þjóðina, til þess að geta selt beztu afurðirnar undir fáanlegu verði til þeirra einokunarhringa erlendra, sem heimta að fá að velja úr íslenzkum afurðum allt, sem þeir helzt kjósa, og reyna þá eftir mætti að halda niðri verði á því, sem þeir þannig einoka.

Alþýða Íslands! Við eigum volduga og sterka fjandmenn við að etja í þeirri baráttu, sem fram undan er, fyrir atvinnu og réttlátu kaupi við forríka einokunarhöfðingja íhalds og framsóknar og við amerískt auðvald, bakhjarl þeirra. Ríkisvaldið, bankarnir og útflutningseinokunin eru tæki í höndum þeirra, sem þeir nú hóta að beita vægðarlaust gegn alþýðunni. En vita skulu höfðingjar Íslands það, að íslenzk alþýða er líka sterk, og ef hún stendur einhuga, er hún ósigrandi. Það er hennar góði málstaður, málstaður smælingjanna, málstaður fjöldans, málstaður hinna vinnandi, skapandi stétta, sem gerir hana sterkari öllum auð, öllum Marshallmútum, allri kúgun. Við þurfum aðeins að undirbúa okkar réttlátu baráttu vel, af fyrirhyggju og festu, af einhug og einlægni, og um fram allt skapa heiðarlega, markvissa forustu í því stríði hins góða. Þá er sigur vís. — Góða nótt.