08.01.1951
Sameinað þing: 29. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 283 í D-deild Alþingistíðinda. (4178)

130. mál, lánsfjárútvegun til iðnaðarins

Flm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Í þessari till., sem flutt er af mér og hv. þm. Mýr. (BÁ), er lagt til, að hæstv. ríkisstj. verði falið að taka til athugunar, hvernig auðveldast og hagkvæmast verði bætt úr lánsfjárþörf iðuaðarins framvegis. Sérstaklega verði það athugað, hvort það sé framkvæmanleg og heppileg lausn á þessu máli, að komið verði á fót sérstakri bankastofnun fyrir iðnaðinn, en frv. um það efni liggur nú fyrir Nd. Þyki hins vegar ekki tiltækilegt að koma upp slíkri stofnun eða það hagkvæm lausn á málinu, þá séu athugaðir möguleikar til fjármagnsútvegunar til aukinna lánveitinga handa iðnaðinum, sem yrði þá með þeim hætti, að stofnaðar væru í þessu skyni sérstakar lánadeildir hjá einhverjum af þeim bönkum, sem nú eru starfandi, og má minna á það í þessu sambandi, að til er nú sérstakur iðnlánasjóður, sem er geymdur í einum bankanum. Við leggjum því til, að till. um þetta verði lagðar fyrir næsta þing, en eins og ég hef getið um, liggur fyrir Nd. frv. um stofnun sérstaks banka fyrir iðnaðinn, en jafnvel flm. þess frv. gera ekki ráð fyrir, að afgreiðslu málsins verði lokið á þessu þingi. Við flm. þessarar till. teljum því heppilegt, að þetta verði athugað rækilega af ríkisstj. á milli þinga, eins og till. okkar gerir ráð fyrir. — Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð á þessu stigi málsins, en tel eðlilegt, að málinu sé vísað til síðari umr. og n., sem líklega ætti að vera hv. allshn., þó að það gæti eins vel átt heima í fjvn., en ég geri að till. minni, að því verði vísað til allshn.