08.01.1951
Sameinað þing: 29. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 284 í D-deild Alþingistíðinda. (4179)

130. mál, lánsfjárútvegun til iðnaðarins

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Það mun hafa verið fyrir 2 árum að ég ætla, að Landssamband iðnaðarmanna og Fél. ísl. iðnrekenda hófu athugun á því, á hvern hátt lánsfjárþörf iðnaðarins yrði bezt leyst. Síðan var unnið að þessu máli og samið frv. um Iðnbanka Íslands. Báðir þessir aðilar voru frv. samþykkir, og iðnþing það, sem saman kom s. l. haust, féllst einnig á það. Þessir aðilar hafa svo farið fram á það við iðnn., að hún flytti þetta frv., en ekki varð samkomulag um málið innan n. Meiri hl. lagði til, að n. yrði við óskum iðnaðarmanna og flytti frv. óbreytt, en minni hl., hv. þm. V-Húnv. og hv. þm. Mýr., flm. þessarar till., vildu ekki taka þátt í flutningi frv., en fluttu í þess stað till. þá, sem hér er nú til umr. Ég mun ekki ræða till. efnislega á þessu stigi málsins, en frv. hefur ekki enn komið til umr. í Nd., þó að það hafi tvisvar eða þrisvar verið þar á dagskrá. Ég hef ekkert við það að athuga, að þessi till. fari til n., en ég tel eðlilegt, að n. afgreiði hana ekki fyrr en séð verður, hvaða undirtektir frv. fær í Nd. Ég vildi vekja athygli á þessu og vil undirstrika, að iðnaðurinn þarf aukið lánsfé, bæði sem stofnfé og til rekstrar, en fulltrúar iðnaðarmanna og iðnrekenda telja, að enginn banki telji sér sérstaklega skylt að annast slíkar lánveitingar til iðnaðarins, þannig að iðnaðurinn þurfi sérstakan banka eða sérstaka deild við einhvern bankanna. Ég ræði þetta svo ekki frekar, en vildi líta þetta koma fram.