08.01.1951
Sameinað þing: 29. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í D-deild Alþingistíðinda. (4182)

130. mál, lánsfjárútvegun til iðnaðarins

Flm. (Skúli Guðmundsson) :

Herra forseti. Ég vildi aðeins víkja að einu atriði í ræðu hv. þm. Hafnf. Hann taldi einkennilegt, að því skyldi haldið fram í grg. till., að það væri vitað, að frv. um iðnbankann næði ekki fram að ganga á þessu þingi, og spurði, hví þetta hefði verið sett í grg. Þetta á nú að því er ég bezt veit ekki að þurfa að koma honum einkennilega fyrir sjónir, því að það mun hafa komið fram í umr. hjá flm. sjálfum, að þeir gerðu ekki ráð fyrir, að frv. næði fullnaðarafgreiðslu á þessu þingi. Hvort einhver breyt. kann að hafa orðið á skoðunum þeirra yfir jólahátíðina skal ég ekki segja. Hitt er víst, að orð féllu þannig í iðnn., að við gerðum ráð fyrir, að frv. hlyti ekki fullnaðarafgreiðslu á þessu þingi. Þó að það sé rétt, sem hv. þm. Hafnf. tók fram, að e. t. v. sé ekki viðeigandi að ræða það frv. mikið hér, þá vil ég samt benda á, að það verður að teljast eðlilegt, enda þótt frv. sé undirbúið af forustumönnum iðnaðarmálanna, að ríkisstj. fái það mál til athugunar, þar sem ríkinu eru í því sambandi lagðar ýmsar skyldur á herðar og kemur til kasta ríkissjóðs að leggja þar fé til.