28.02.1951
Sameinað þing: 48. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1521 í B-deild Alþingistíðinda. (419)

Almennar stjórnmálaumræður (eldhúsdagsumræður)

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson) :

Herra forseti. Háttvirtu áheyrendur. Ég vil hér fyrst taka það fram út af ræðu hv. 4. þm. Reykv. (HG), að hann fór mjög villur vegar, þar sem hann hélt því fram, að við ráðh. Framsfl. í ríkisstj. hefðum unnið sérstaklega að því að ákveða verðlag landbúnaðarafurða og það væri óeðlilega hátt í samanburði við kaupgjald. Hv. þm. veit vel, að verðlag landbúnaðarafurða er ákveðið eftir ákveðnum l. um þessi efni, með samráði við hagstofustjóra, og ég veit ekki annað en að flokksmenn hv. 4. þm. Reykv. hafi unnið í þeirri n., sem hefur þessi mál með höndum, og ekki gert þar neinn ágreining nema um smáatriði. Hann hlýtur því að vita, að hann fór þarna með tómar blekkingar.

Hv. 2. þm. Reykv. (EOl) kom hér fram með merkilegar upplýsingar, þar sem hann hélt því fram, að Marshallaðstoðin væri eingöngu að þakka kommúnistum, því að hún væri aðeins veitt til þess að berjast gegn þeim. Sé þetta rétt, má segja, að nokkuð gott megi af þeim hljóta, jafnvel þótt illir séu. — Þá áfelldist hv. 2. þm. Reykv. ríkisstj. mjög fyrir að hafa ekki náð samkomulagi við Austur-Þýzkaland samkvæmt tilboði hans um vöruskiptasamninga. Til þess að sýna sannleiksást hv. þm. vil ég taka þetta fram um sögu þessa máls. Tilboð Einars Olgeirssonar og viðtal við hann birtist í Þjóðviljanum 12. sept. 1950. Nokkru síðar lagði ríkisstj. til við Verzlunarráð Íslands og Samband íslenzkra samvinnufélaga, að þau tilnefndu menn til þess að fara ásamt fulltrúa eða fulltrúum frá útflytjendum til Austur-Þýzkalands til þess að reyna að athuga til hlítar, hvort möguleikar væru á viðskiptum milli Íslands og Austur-Þýzkalands.

Er þessir aðilar höfðu athugað málið, tilkynntu þeir, að þeir óskuðu þess, að fulltrúar þeirra í Póllandsnefndinni færu í ferð þessa, þegar þeir gætu losnað frá Póllandi. En þaðan gátu þeir ekki komizt fyrr en svo seint, að þeir komu eigi til Berlínar fyrr en 12. des. Fyrir útflytjendur var í ferð þessari dr. Magnús Z. Sigurðsson, er hafði verið hér heima rétt áður og átt viðtöl um mál þetta við ýmsa fulltrúa útflutningsins og einnig við ríkisstj.

Þessir menn voru í Berlín til 18. des., en gátu ekki fengið nein endanleg svör hjá viðkomandi aðilum þar, áður en þeir fóru. Var þeim lofað að svör eða till. yrðu sendar til dr. Magnúsar Z. Sigurðssonar til Prag fljótlega. En þrátt fyrir símskeyti, bréf og símtöl dr. Magnúsar til viðkomandi aðila í Austur-Berlín hefur enn ekki tekizt að fá nein svör, þrátt fyrir margs konar ítrekanir. Þannig er allur málflutningur kommúnista blekkingar einar, bundnar við það eitt að þjóna þeim mikla föður Stalin þar austur í Moskvu, en ekkert hugsað um, hvað rétt er eða satt.

Hv. 8. landsk. þm. (StJSt) átaldi ríkisstj. — og þó sérstaklega félmrh. — fyrir það, hvað ríkisstj. væri fjandsamleg almannatryggingunum og félagsmálalöggjöfinni. Honum væri hollt að minnast þess, að eins og nú er ástatt er ekki fært að auka tryggingarnar. Vitanlegt er, að bæði einstaklingar og sveitarfélög og bæjarfélög eiga fullt í fangi með að inna af höndum lögboðnar greiðslur til trygginganna, og sum bæjarfélög eru komin í skuldir við tryggingarnar og full greiðsluþrot hvað þetta snertir. Ýmsir Alþfl.-menn á Alþ. hafa lagzt á móti því, að leidd væru í l. ákvæði, er tryggt gætu innheimtu hjá bæjarfélögunum, en vitanlega er þó höfuðnauðsyn fyrir starfsemi trygginganna að geta innheimt sínar lögboðnu tekjur. Og hverjir eru nú meiri vinir trygginganna? Ég segi bara: Vei yður, þér hræsnarar! — Enn fremur má minna á það, að síðan núv. ríkisstj. tók við völdum hefur hún séð um það, að tryggingarnar hafa fengið framlag sitt úr ríkissjóði skilvíslega greitt, en á því mun hafa verið allmikill misbrestur áður og meira að segja þegar form. Alþfl. var félmrh. — Unnur ummæli hv. 8. landsk. þm. varðandi árásir á félagsmálalöggjöfina voru jafnómerk — aðeins órökstuddar fullyrðingar, sem enginn fótur er fyrir.

Hv. 6. landsk. þm. (HV) talaði hér í ræðu sinni í fyrradag um ýmis atriði, sem ég hafði ætlað mér að minnast á, en get þó ekki gert tímans vegna nema að litlu leyti. M. a. gerði hv. þm. að umtalsefni kostnaðinn við utanríkisþjónustuna. Framsfl. hefur á undanförnum þingum borið fram frv. um fækkun sendiherra í því skyni að draga úr þessum kostnaði. En þau frv. hafa ekki náð fram að ganga, vegna þess að flokkur hv. 6. landsk. þm., Alþfl., hefur ásamt Sjálfstfl. beitt sér gegn þeim og fellt þau.

Þessum almennu stjórnmálaumr. hér í útvarpinu er nú að ljúka. Það eru útvarpshlustendur, þjóðin sjálf, sem dæmir þann málflutning, sem um hönd hefur verið hafður þessi tvö kvöld.

Stjórnarandstæðingar hófu þessar umr. með gemsi miklu og órökstuddum árásum og fúkyrðum á ríkisstj. Mátti ekki í milli sjá, hvorir fóru með meiri blekkingar og órökstuddar fullyrðingar, ræðumenn Alþfl. eða kommúnistafl. Þó mun hv. 6. landsk. þm. (HV) hafa slegið met í því kapphlaupi, sem fulltrúar þessara tveggja flokka í framsöguræðum sínum víðhöfðu um gönuhlaup í málflutningi sínum og að forðast að ræða málin með rökum, heldur viðhafa stóryrði ein og blekkingavaðal. Hv. 6. landsk. þm. hafði háværar hótanir í frammi, þóttist ráða fyrir öllum verkalýð landsins og skipaði honum, eins og hann væri einræðisherra, fyrir verkum. Hv. þm. hefur áreiðanlega fundizt, þegar hann viðhafði mest gífuryrði, að hann væri dálítill Stalín eða Hitler, sem hefði líf allra þegna sinna í hendi sér og þyrfti ekki að segja annað en: „Verði minn vilji.“ En hv. 6. landsk. þm. mun reka sig á það, hafi hann ekki áttað sig á því áður, að íslenzkir verkamenn eru engir sauðir, sem láta hugsunarlaust siga sér í verkföll, heldur hugsandi, sjálfstæðir menn, sem sjálfir taka sínar ákvarðanir að gerhugsuðu máli.

Útvarpsumr. þessar hafa því snúizt þannig við í höndum stjórnarandstæðinga, að sú sókn, sem þeir hófu á ríkisstj. og stuðningsflokka hennar, hefur snúizt svo við, að í síðari hluta umr. hefur verið um vörn eina að ræða af þeirra hálfu. Skal það rökstutt með örfáum orðum:

1. Hv. stjórnarandstæðingar hafa algerlega gefizt upp við að benda á nokkra færa leið til viðréttingar útflutningsatvinnuvegum þjóðarinnar, ef ekki hefði verið gerð sú breyting á skráðu gengi hinnar íslenzku krónu, sem fyrir ári síðan var framkvæmd með gengisskráningarlögunum. Hinar máttlausu tilraunir hv. 3. landsk. þm. (GÞG), að í stað gengisfellingarinnar hefði átt að taka áframhaldandi ábyrgð á verði útflutningsframleiðslunnar og leggja á stórkostlega nýja skatta og tolla til þess að greiða uppbætur, — upphæðir, er numið hefðu hundruðum milljóna króna, — hafa algerlega mistekizt, enda auðheyrt, að hv. þm. trúir ekki á þann málstað, enda allt of glöggur og fróður til þess að láta þannig blekkjast.

2. Í framhaldi af þessu og sem afleiðing þeirra ráðstafana, er hér hafa verið nefndar, er svo það, að gjaldeyrisástand bankanna gagnvart útlöndum hefur batnað síðustu mánuðina og greiðslujöfnuður hefur náðst á ríkisreikningnum árið 1950 — og raunverulega verið greitt nokkuð niður af skuldum ríkissjóðs. Stjórnarandstæðingar vilja naumast viðurkenna þessar staðreyndir og virðast lítt gleðjast yfir þeim.

3. Þá hefur það komið fram í þessum umr., að leið sú, er ríkisstj. hefur valið til aðstoðar rekstri vélbátaflotans á vertíðinni nú, er bæði hentug og líkleg til þess að ná þeim árangri, sem til er ætlazt, en það er, að útgerðarmenn og hlutarsjómenn fái sæmilegt verð fyrir aflann. Eins og margbúið er að taka fram, er svo til ætlazt, að gjaldeyrishlunnindi þau, sem bátaútvegurinn fær, verði aðeins veitt þetta ár. Sérstaklega var sjálfsagt að velja þessa aðferð fram yfir ábyrgðar- og uppbótarleiðina gömlu, þar sem tryggt er jafnhliða, að hægt er að stórauka innflutning af flestum helztu nauðsynjavörum og það svo, að takast megi að safna verulegum vörubirgðum, en það er eina vörn gegn því að fyrirbyggja okur og svartamarkaðsbrask.

4. Atriði, sem greinilega hefur komið fram í þessum umræðum, er það grip stjórnarandstæðinga, að allar ráðstafanir ríkisstj. þetta s.l. ár hefðu valdið og stefndu til vaxandi atvinnuleysis. Þetta hefur svo algerlega snúizt við í þessum umræðum, að nú má öllum vera ljóst, að ef aðgerðarleysi það og hræðsla, sem komið hefur fram í öllu skrafi hv. ræðumanna Alþfl., hefði fengið að ráða, — þ. e., siglt hefði verið áfram uppbóta- og ábyrgðarleiðina varðandi erfiðleika bátaútvegsins, — þá væri komið hér miklu geigvænlegra atvinnuleysi en nú er. Einmitt ráðstafanir ríkisstj., gengisfelling fyrir því nær ári og þær ráðstafanir, sem nú er verið að framkvæma, hafa unnið gegn atvinnuleysinu. Það er úrræðaleysi stjórnarandstæðinga og ótti við að ráðast gegn erfiðleikunum, sem veldur þessari algerlega neikvæðu afstöðu þeirra og gerir það að verkum, að fólk tekur lítið mark á rausi þeirra. — Svo álíta þessir menn, að það eitt nægi að heimta kaup greitt samkvæmt mánaðarlegri vísitölu, þótt allir hugsandi menn viti, að slíkt er stórhættulegt fyrir allt atvinnu- og fjármálalíf þjóðarinnar og leiðir beint til aukins atvinnuleysis og kæmi skjótt fram sem færri vinnustundir, þótt einhver kauphækkun fengist.

Þessi atriði, sem hér hafa verið nefnd, virðast mér einkenna þessar útvarpsumræður mest, en margt fleira mætti til tína, ef tími leyfði. Árásir stjórnarandstæðinga hafa verið marghraktar og þeir gefizt algerlega upp við að benda á neinar færar leiðir, aðrar en þær, sem farnar voru.

Hitt skal svo viðurkennt, að margháttaðir erfiðleikar blasa við fram undan. Það var ekki blómlegt um að litast, þegar núv. ríkisstj. tók við fyrir tæpu ári. Hrynjandi atvinnuvegir, sem voru að stöðvast, févana og hálfgjaldþrota ríkissjóður. Þótt nokkuð hafi lagazt á þessu ári, þá er þó engum eins ljóst og ríkisstj., hve erfitt og vandasamt verk er fram undan. Þess vegna vill hún athuga allar skynsamlegar tillögur, sem fram koma og til viðréttingar gætu orðið, hvaðan sem þær koma. Hitt hefur svo vakið furðu mína, hve lítið hefur örlað á slíkum nýjum tillögum frá stjórnarandstæðingum. Það getur naumast af öðru stafað en því, að ekki sé auðvelt að benda á önnur úrræði til umbóta en tekin hafa verið.

Stjórnarandstaðan hér á Alþingi hefur, svo sem venjulegt er, komið fram sem ákærandi. Þótt málsókn hennar hafi léttvæg verið, hefur það alls ekki stafað af viljaleysi, það munuð þið hafa heyrt. Óhætt mun ykkur, hlustendur, að treysta því, að hún hefur ekkert undan dregið af því, er hún hafði yfir að ráða. Hún hefur lýst óánægju í ýmsum efnum. En hver er að fullu ánægður? Hver vildi ekki t. d., að þjóðin hefði ekki þurft á stuðningi annarra þjóða að halda?

En ef stjórnarandstaðan hefur ekki fram að leggja tillögur til þess að bæta úr því, sem er óánægjuefni, þá eru aðfinnslur hennar aðeins viðurkenning á því, að gert hefur verið það, sem eftir atvikum hefur verið hægt að gera.

Ég er síðastur ræðumanna hér í kvöld og mun nú senn láta máli mínu lokið. En um leið og ég lýk máli mínu, leyfi ég mér að skora á alla útvarpshlustendur að sleppa öllum flokkslegum hleypidómum, en vega og meta sem góðir, þjóðhollir Íslendingar rök þau, er fram hafa verið lögð í þessum umræðum. Gerið ykkur rökstutt álit um vandamál þau, sem þjóð okkar hefur að höndum borið síðustu ár, og dæmið sem hlutlausir dómarar eiga að gera. Ríkisstj. kvíðir ekki dómi slíkra dómenda.

Ég vil svo í nafni allra þeirra, er tekið hafa þátt í þessum útvarpsumræðum, þakka þeim, er hlýtt hafa, og þótt margt hafi á milli borið, þá veit ég, að fyrir hönd okkar allra get ég sagt: Hamingjan veri með íslenzku þjóðinni.