19.01.1951
Sameinað þing: 31. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 289 í D-deild Alþingistíðinda. (4190)

135. mál, friðun Faxaflóa

Flm. (Pétur Ottesen):

Já, ég hef leyft mér að bera fram þessa þáltill. með tilliti til þess, hve geipilega mikla þýðingu það hefur fyrir fiskveiðar landsmanna, að komið verði á aukinni friðun í Faxaflóa frá því sem nú er. Eins og kunnugt er, hafa farið fram ýtarlegar rannsóknir hér í Faxaflóa bæði af innlendum og erlendum hafrannsóknaskipum, og hefur í þessu efni verið fullkomið samstarf milli erlendra og innlendra fræðimanna á þessu sviði. Þeir, sem auk Íslendinga hafa tekið þátt í þessum rannsóknum, eru bæði Norðmenn og Danir og einnig Skotar, og þessar rannsóknir hafa leitt það í ljós, að Faxaflói er ákaflega þýðingarmikil klakstöð og hefur hina stórkostlegustu þýðingu fyrir fiskveiðar hvarvetna við strendur þessa lands. Og það hefur verið sameiginlegt álit allra þessara fræðimanna, að brýna nauðsyn bæri til þess að auka friðun Faxaflóa. Auk þess er alkunna, að fiskveiðar eru stundaðar hér í Faxaflóa á tímabilinu frá því um áramót og til maíloka af mönnum víðs vegar úr verstöðvum þessa lands, fyrir utan þann aragrúa heimabáta, sem stunda þar veiðar, þar sem, eins og kunnugt er, mikill meiri hluti þjóðarinnar býr hér við Faxaflóa. Ég lét gera athugun á því, hvað margir bátar voru hér að veiðum á síðustu vertíð, og kom í ljós, að það voru á annað hundrað báta, sem stunduðu veiðar frá verstöðvum við Faxaflóa. Botnvörpu- og dragnótaveiðar Íslendinga hafa aukizt mjög hin síðari ár, en auk þess sækir mesti sægur erlendra botnvörpuskipa á miðin hér, enda hafa fiskimiðin gengið mjög til þurrðar, og horfir nú til hreinnar auðnar, ef ekki verður tekið í taumana. Það er þess vegna afar þýðingarmikið, að komið verði á þeirri friðun á Faxaflóa, eins og lagt er til að gert verði, með samþykkt þessarar þáltill., en línan hér er dregin þannig, að meginhluti bátamiðanna, þ. e. þeirra miða, sem bátar sækja hér á á vertíðinni, mundi vera innan þeirra takmarka, sem hér eru sett, þannig að friðunin mundi þjóna þeim tveimur sjónarmiðum í senn: að vernda fiskistofninn, ungviðið, og jafnframt stuðla að því, að Íslendingar sætu einir að veiðum á höfuðstöðvum þorskveiðanna hér við Faxaflóa. Nú háttar svo til, að samkv. l. frá 1948 þá hefur ríkisstj. heimild til að gera slík takmörk sem í þáltill. þessari felast að því er snertir landhelgina í kringum strendur landsins. Það hafa þegar verið gerðar slíkar ráðstafanir gagnvart Norðurlandssvæðinu, frá Horni til Langaness, og þær ráðstafanir hafa orðið alveg raunhæfar síðan þær voru gerðar, þannig að þessi veiðisvæði hafa ekki verið stunduð af erlendum mönnum innan þessara takmarka. Nú gildir slík ráðstöfun ekki gegn Englendingum, sem við erum samningsbundnir við, fyrr en sá samningur er útrunninn, sem mun vera úr miðju þessu ári, en eftir því, sem mér er bezt kunnugt, þá hafa enskir skipstjórar fyrir Norðurlandi virt þær reglur, sem við höfum sett um veiðar þar, og ekki reynt að brjóta þær. Nú veit ég ekki, hve langt verður þangað til slík friðun nær fram með allri strandlengjunni, en ég vona, að það verði sem fyrst, en það er höfuðnauðsyn hvað snertir Faxaflóa, eins og ég hef gert hér grein fyrir. Ég vona því, að þessi till. mín nái samþykki Alþ., og að hæstv. ríkisstj. flýti fyrir, að slíkar ráðstafanir verði gerðar gagnvart Faxaflóa, og að það kæmi til nota nú á þessari vertíð. — Ég óska svo eftir, að málinu verði vísað til hv. allshn. að þessari umr. lokinni.