19.01.1951
Sameinað þing: 31. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í D-deild Alþingistíðinda. (4208)

149. mál, atvinnulífið í Flatey á Breiðafirði

Flm. (Hannibal Valdimarsson) :

Herra forseti. Ég er að sjálfsögðu þakklátur hv. þm. Barð. fyrir upplýsingar í sambandi við þetta mál, bæði um sjálfan sig, Flatey og Flateyinga. Þess var náttúrlega ekki að vænta, að ég fléttaði ævisögubroti hv. þm. inn í þetta mál, enda bezt, að það komi frá fyrstu hendi.

En málið er nú einfaldlega um atvinnuástandið í Flatey og hvað bezt. sé að gera því til úrbótar. Eða hvort á að fara þá leið og taka undir þær skoðanir, að þarna sé ekki lífvænlegt að búa, og flytja fólkið burt.

Það er rétt, sem hv. þm. Barð. sagði hér áðan, að ætlunin hefði verið að byggja minna frystihús. En Flateyingar fengu ekki að ráða því, af því að þeir voru hvattir til þess að byggja stærra frystihús, þegar þeir komu hingað suður til þess að ráðgast um málið, m. a. á þeirri forsendu, að frystihús þau, sem byggð hefðu verið, væru of lítil og þyrfti að stækka þau, og væri þess vegna betra að byggja þau nægilega stór í byrjun. Einnig var það nú svo, að bygging hússins dróst vegna skorts á efni, og verðið hækkaði og komst byggingin upp í 1.4–1.5 millj. kr., í stað þess að það var áætlað 600 þús. kr. — Ég skal ekki fjölyrða um þetta mál, en vil segja, að það er dýrt að fullgera slíkt mannvirki sem frystihúsið er, dýrara að láta það standa ófullgert, en dýrast að undirbúa ekki atvinnureksturinn svo, að það geti komið að fullum notum. — Hvað hafnarmannvirkin snertir, þá eru þau viðhlítandi, — bryggjan er svo góð, að togarar og önnur álíka skip geta hæglega lagzt við hana; hafnarskilyrði fyrir vélbáta eru einnig ágæt, og ekki er lengra á miðin frá Flatey en víða annars staðar, einkum ef aflinn er á svo nefndum Fláka; og þótt aflinn hafi brugðizt þarna undanfarin 2 ár, er varla hægt að gera ráð fyrir því, að það sé varanlegt ástand, því að sjórinn hefur verið stundaður þaðan með ágætum um margra alda skeið. — En það þarf að hjálpa nauðstöddu fólki þarna til þess að fá vinnulaun sín greidd. Og enn fremur þarf að undirbúa atvinnurekstur hraðfrystihússins með bráðabirgðahjálp til þess að koma 3 bátum á flot, og nú hefur hv. þm. Barð. upplýst það, að veitt hafi verið lán í þessu skyni.

Ég hef enga tilhneigingu í þá átt að draga fjöður yfir þátt hv. þm. Barð. hvað framkvæmdum í þessu héraði viðkemur, og geng meira að segja út frá því sem gefnu, að hann með sinn áhuga hafi átt drjúgan þátt í því að aðstoða sína hreppsnefndarmenn og oddvita í ýmsum hinum mest aðkallandi málum. En hafi Alþýðublaðið sagt eitthvað ljótt um þennan ágæta þm., þá finnst mér eðlilegt, að hann svaraði því í Morgunblaðinu heldur en að bera sig illa hér í sölum Alþingis.

Viðvíkjandi læknisbústaðnum í Flatey, þá er það ágætt, að hann verði byggður, og mun ég ekki standa á móti því, og ef álitið er lífvænlegt að búa þarna, er einmitt ágætt, að skotið verði fótunum undir fleira en ég hef minnzt á. En fyrst hv. þm. er svona afbrýðisamur út af því, að hann var ekki fyrri til að flytja þessa till., þá gæti ég nú trúað því, að hann yrði afbrýðisamur, ef ég flytti líka till. um að byggja læknisbústað þarna í Flatey. Annars gæti hann nú sjálfur flutt till. um læknisbústaðinn — eða ég flytti hana eftir beiðni hans!

Till. á þskj. 478 hefur nú verið betur skýrð af hv. þm. Barð. með ágripi af ævisögu hans og fer nú í n., sem við eigum báðir sæti í, svo að henni verður líklega ekki í kot vísað; síðan fer hún til ríkisstj., og mun hún líklega ekki láta undir höfuð leggjast að framkvæma hana, þegar hún er með þetta allt að bakhjarli.