09.02.1951
Sameinað þing: 40. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í D-deild Alþingistíðinda. (4234)

166. mál, atvinnuvandræði Bílddælinga

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Það væri ef til vill ástæða fyrir mig til að ræða þessa till. allýtarlega, en ég mun samt sem áður ekki þreyta hv. þm. með langri ræðu um þetta mál nú. Það hafa komið hér fram nú á skömmum tíma tvær till. varðandi atvinnulíf Barðstrendinga. Önnur till. var frá hv. 6. landsk., um að bjarga Flateyingum frá hungurdauða að því er mér skildist. Og svo er þessi till. frá þeim hv. 2. þm. Reykv. og hv. 6. þm. Reykv. Þannig hafa tveir þingflokkanna tekið þessi mál að sér, og þætti mér því eðlilegt, að þriðji flokkurinn, Framsfl., kæmi með þriðju till. varðandi þetta efni, og þá væntanlega til að bjarga þeim, sem eftir eru af sýslubúum. Hitt er svo annað mál, að ég held, að hv. flm. hefðu átt að kynna sér betur ástand og horfur á staðnum heldur en fram kemur í bæði 1. og 2. tölulið till. Í 1. tölul. er skorað á ríkisstj. að aðstoða við, að einn vélbátur, 50–100 smálesta, fáist til þorpsins og verði gerður út þaðan. Og má ætla, að það eigi að vera aðalhjálpin í sambandi við það að koma atvinnuástandinu í þorpinu í viðunandi horf. Þetta var borið fram í hreinasta þekkingarleysi á ástandinu í þorpinu, því að þar er ekki þörf fyrir fleiri báta, heldur að þeir bátar, sem þar eru nú, geti starfað, en þeir þurftu að hverfa frá því að leggja upp afla sinn á Bíldudal á síðasta ári, þar sem frystihúsið, sem rekið er af íbúunum, gat ekki greitt þeim fyrir fiskinn. Húsið, sem er síðan rétt fyrir síðasta stríð, gat ekki greitt vikum og mánuðum saman fyrir fiskinn, og það hefði ekkert bætt úr, jafnvel þó að ríkissjóður hefði gefið þangað bát, ef ekki hefði verið bætt úr því, að frystihúsið hefði getað greitt fyrir afla bátanna strax og getað staðið undir rekstrarkostnaði sínum, en það er ekki búið að bæta úr því enn. Oddvitinn á Bíldudal var hér um hríð í fyrra, og var þá reynt að bæta úr ástandinu á staðnum og var það gert í samráði við mig, og ber að þakka Útvegsbankanum fyrir, að þá tókst að bæta nokkuð úr ástandinu í bili, en nú hefur aftur sótt í sama horfið. Nú er oddvitinn staddur hér aftur, og hefur fjmrn. gefið góð orð um að nota heimild í fjárl. til að reyna að hjálpa þar eins og á öðrum þeim stöðum, sem svipað er ástatt um. Ég hef bent á þetta til að sýna, af hve lítilli þekkingu á aðstæðum á Bíldudal till. er borin fram.

Sama má segja um 2. tölul. till., en þar er farið fram á að aðstoða við útvegun fjár og tækja til að bæta afköst hraðfrystihússins, koma upp hagkvæmri fiskimjölsvinnslu og skapa skilyrði til fisksöltunar. Ég hygg, að fáir staðir hafi betri skilyrði til fiskverkunar en Bíldudalur og enginn betri skilyrði til vinnslu fiskimjöls, þar sem þar er ágæt fiskimjölsverksmiðja síðan 1938 og nýbúið að verja 100 þús. kr. til endurbóta á henni, en þegar ekkert er gert út á staðnum og þar af leiðandi enginn fiskúrgangur til að vinna úr, þá sé ég ekki, að það hefði neitt að segja að setja aðra fiskimjölsverksmiðju við hliðina á þessari, en þetta hafa hv. flm. sýnilega ekki gert sér ljóst.

Ég hefði haft löngun til að ræða atvinnumál Bílddælinga hér nokkuð, en ég mun sleppa því að sinni, en því var lýst yfir í einu af dagblöðum bæjarins, Tímanum, 1945, að þá fyrst mundi Bílddælingum líða vel, þegar búið væri að reka Gísla Jónsson burt af staðnum. Það varð að samkomulagi fyrir nokkru, að ég drægi mig út úr atvinnulífinu á Bíldudal, þó að ég eigi þar enn niðursuðuverksmiðju, sem hefur gefið talsvert mikla atvinnu, sem þó hefur verið sagt um að væri hneyksli að ég ræki, og er furðulegt, að ekki skuli koma hér fram till. um það. En nú er reynslan fengin, og hún hefur sýnt, að það hefur ekki orðið til slíkrar blessunar sem við var búizt, að ég drægi mig út úr atvinnulífinu á staðnum. En það, hvernig farið hefur, stafar m. a. af því, að verzlun og atvinnulíf hafa verið slitin í sundur. Kaupfélagið hefur tekið við allri verzlun með fullu samkomulagi við alla aðila, m. a. við mig, og ég dró mig til baka, en ég benti þá á þá hættu, sem af því mundi stafa að slíta sundur verzlun og atvinnulíf á staðnum, en því var ekki fylgt. Við lögðum árlega mikið í atvinnufyrirtæki jafnhliða verzluninni. Síðan 1907 hafði starfað á Bíldudal öflugur sparisjóður, sem stóð undir atvinnulífinu, en síðan kaupfélagið setti á stofn hjá sér innlánadeild, hefur hún dregið til sín allt fjármagnið með því að greiða ½% hærri vexti en sparisjóðurinn, en hún hefur síðan sent peningana hingað suður, þar sem þeir hafa verið lagðir í ýmislegt, sem er atvinnulífi Bílddælinga óviðkomandi, og með því móti dregið fé út úr atvinnulífinu á staðnum. En stærsta áfallið fyrir Bíldudal var það samt sem áður, þegar Þyrill sigldi á bryggjuna á síðastliðnum vetri og þurrkaði hana út á augabragði, og það er ekki einu sinni svo vel, að útgerð skipsins hafi viðurkennt sök sína, heldur standa nú yfir málaferli út af þessu. Menn geta séð, hvernig áhrif það muni hafa á atvinnulíf á staðnum, þegar allt samband við sjóinn er svo gott sem þurrkað út á einni nóttu og ekki er hægt að hafa samband við land, nema fyrir smábáta. Á síðast liðnu hausti komu tilboð um, að togarar legðu þar upp afla sinn, og einn togari, Garðar Þorsteinsson, kom þangað með afla, og var ætlunin að bera aflann í land, en eins og allir sjá, var slíkt ómögulegt, og var horfið frá slíku og kom ekkert skip þangað meir með afla, en ef bryggjan hefði verið í lagi, þá eru líkur til, að þorpið hefði setið að karfavinnslunni engu síður en önnur þorp. Það hefur tekið mig og hreppsnefndina á Bíldudal nær ár að undirbúa endurbyggingu bryggjunnar, og nú er svo komið, að efnið er komið á staðinn. Alþ. hefur séð þörfina, og er ég því þakklátur fyrir það, en því miður verður verkinu líklega ekki lokið fyrr en á miðju vori, og fyrr en því er lokið er ekkert hægt að gera til að bæta úr því vandræðaástandi, sem ríkir á Bíldudal, því að staðurinn er útilokaður frá þjóðvegakerfinu og því aðeins um að ræða samgöngur á sjó, og geta allir séð, hve erfiðleikarnir eru miklir, þegar ekki er hægt að lenda nema á smábátum. — Ég vildi aðeins, að þetta kæmi fram í sambandi við umr. um þessa þáltill. Till. þessi verður að sjálfsögðu tekin fyrir í fjvn. og eins till. um atvinnuástandið í Flatey, og ég skal lofa hv. flm. því, að þessar till. skulu ekki verða kæfðar í nefndinni af mínum völdum.