22.02.1951
Sameinað þing: 45. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 311 í D-deild Alþingistíðinda. (4264)

178. mál, rekstur gömlu togaranna

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Mér þykir rétt að ræða nokkuð þetta mál, úr því að forseti hefur tekið það ráð að hafa kvöldfund til þess að ræða stórmál. En ég verð að segja það, að ef ekki þarf meira en svona till. til þess að greiða vandann, þá er hann ekki vandleystur. Og hv. flm. þessarar till. þurfa ekki að halda það, að eigendur þessara skipa hafi ekki hugsað eins mikið um það, á hvern hátt þau mættu verða gerð út á sem hagkvæmastan hátt eins og þeir.

En úr því að þetta mál er komið hér fram á Alþingi, þá vil ég nota tækifærið til að spyrja forsvarsmenn þessa máls hér nokkurra spurninga í sambandi við það, því að ég geri ekki ráð fyrir öðru en því, að þeir hafi af sínu djúpsæi og góða skilningi á vandamálum stjórnmálanna gert sér nokkra grein fyrir því, á hvera hátt þeir hugsa sér að haga rekstri þessara skipa, því að varla munu þeir bera þetta mál hér fram til þess að sýnast, til þess eru þeir of ábyrgðarmiklir menn og þeirra flokkur, að þeir fari að gera slíkt í auglýsingaskyni.

Hér stendur í till.: „Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að hlutast til um það, að þeir af gömlu togurunum, sem sjófærir geta talizt, verði tafarlaust gerðir út til veiða.“ Hver er meiningin með þessu, að hlutast til um, að þeir verði gerðir út til veiða? Hv. 1. flm. hefur óskuð eftir því, að þessu máli verði vísað til fjvn. Ég fyrir mitt leyti þori ekki að ábyrgjast, að þetta mál verði afgr. þar í n., nema það liggi ljóst fyrir, við hvað er átt. Hvað felst í þessum orðum hv. flm.? Er ætlazt til þess, að ríkið taki að sér þann halla, sem kann að verða á rekstri þeirra? Mér skilst, að það muni ekki vera um annað að ræða, því að varla munu flm. gera ráð fyrir, að útgerðarmenn fari að hlaupa til, þú að ríkisstj. sendi þeim bónarbréf um að fara nú að gera togarana út. Það má gera ráð fyrir því, að ef till. yrði samþ. óbreytt, yrði ríkissjóður að greiða þann halla, sem á rekstri þeirra kynni að verða. Ef þetta er ekki réttur skilningur, þá þætti mér vænt um, ef hv. flm. vildi upplýsa þingið um það, á hvern hátt ríkisstj. á að hlutast til um, að togararnir verði reknir.

Í sambandi við rekstur togaranna vildi ég gjarnan ræða við flm. þessarar till. um það, því að þar er mikill vandi á ferðum. Þegar hinir nýju togarar voru keyptir til landsins, þá voru kjör manna á þeim miklu betri en á hinum gömlu, sem voru miklu minni og buðu auk þess sjómönnunum upp á miklu verri aðbúð. Það er nú sú venja, að allir þeir, sem vinna á þessum skipum, eru skráðir upp á hlut, miðað við brúttóafla. Eru það 3% hjá hinum hæst launuðu yfirmönnum skipsins, en ég held 0.25% hjá hinum lægst launuðu undirmönnum. Nú er það vitað, að meðalafli nýsköpunartogara gefur af sér um 5 millj. kr. á ári, því mun láta nærri, að þeir menn, sem eru ráðnir upp á 3%, hafi um 150 þús. kr. tekjur á ári. Ef maður nú athugar, hvað líklegt er, að gömlu togararnir geti gefið af sér, þá mun það láta nærri, að það verði ekki meira en 2 millj. brúttó á ári. Það er að segja, að þeir menn, sem þar mundu vinna, væru ekki nema hálfdrættingar á við þá, sem vinna á nýju togurunum, nema það verði tekið upp í samninga, að þeir, sem vinna á gömlu togurunum, hafi 3/5 hærri laun miðað við hlut. Að öðrum kosti er ekki hægt að sjá, að þeim sé ætlað að ganga frá borði með sömu laun. Og ég veit varla, hvort hv. flm. hafa gert sér það ljóst, hvílíkur vandi er hér á ferðum í sambandi við þetta mál. Ef það er meiningin að gera þessi skip út með halla, þá er hann tilfinnanlegur fyrir hvern, sem hann á að greiða. Af öllum þeim erfiðleikum, sem eru í sambandi við þetta mál, er þetta atriði erfiðast viðureignar.

Nú dettur mér ekki í hug að halda, að sömu verkalýðsfélögin og héldu nýju togurunum í sex mánaða verkfalli í sumar og þótti þá ekkert að því að sjá togarana bundna við hafnarbakkann og töldu þá ekkert að því, að nýjar verksmiðjur í landi stæðu tómar svo mánuðum skipti, verði fúsust til þess að semja um lægri kjör en eru á nýju togurunum og lægri en voru á þeim á síðasta sumri, því að auk þess að hafa verri laun og verri hvíld og verri vinnuskilyrði, hafa þeir meiri áhættu á sjónum, því að skipin eru ekki eins stór og sterkbyggð.

Ég hygg, að það þurfi að liggja fyrir meiri upplýsingar í þessu máli en koma fram í þessari grg., til þess að fjvn. geti gefið út nál. í þessu máli. Ég segi að minnsta kosti fyrir mig, að ég get engu lofað um það, að málið verði afgr. frá n., fyrr en fyrir liggja fyllri upplýsingar en hér eru. Ég vil vekja athygli á síðari málsgr. till., þar sem rætt er um framkvæmd á rekstri togaranna og segir svo: „Varðandi framtíðarrekstur gömlu togaranna skal ríkisstj. láta athuga, hvort hagkvæmt sé að láta setja olíukyndingu í umrædda togara, og ef svo telst til, skal hún hlutast til um, að veitt verði nauðsynleg leyfi til þeirra framkvæmda og enn fremur beita sér fyrir því, að bankarnir greiði fyrir framkvæmdinni með nauðsynlegum lánveitingum.“ Nú skulum við hugsa okkur, að rannsókn leiði í ljós, að þetta sé ekki heppilegt. Hvar stendur útgerðin þá? Hafa flm. þá hugsað sér, að þeir yrðu reknir með halla og með þeim erfiðleikum, sem því eru tilheyrandi, að þeir, sem á þessum skipum vinna, verði að vinna 12 stundir í sólarhring fyrir hálft kaup? Hvernig halda t. d. hv. flm., að það gangi að fá kyndara á þessa gömlu togara til að moka þar kolum, um leið og stéttarbræður þeirra á nýju togurunum þurfa ekki annað en að skrúfa frá krana og dæla inn olíu? Og það er sannarlega ekkert að undra, þó að menn vilji heldur vera á nýjum skipum en þeim gömlu, enda efast ég stórlega um, að það mundu fást menn til þess að fara á gömlu togarana. Þannig eru mörg ljón á þessari leið, sem vert er að vekja athygli hv. flm. á.

Setjum nú svo, að hægt verði að gera þetta. Þá vitum við það, að enginn tekur það, sem þarf til þess að setja olíukyndingu í togara, út úr skúffu hjá sér. Það mætti segja mér, að það tæki ekki minna en 12–18 mánuði að fá þau efni, sem til þess þarf, afgreidd. Mér er fullkunnugt um það, hve erfitt er að fá vélar í skip núna. Og ég fullvissa hv. flm. um það, að það mun taka 12–18 mánuði að fá efnið eitt, sem til þessa þarf.

Hv. 1. flm. talaði um það, að líklegt væri, að þessi breyting mundi kosta um 200–500 þús. á hvert skip. Þetta mun nú sennilega fara eftir því, hvað til þess er vandað. Það mun vera hægt að flaustra svo olíukyndingu í skip, að það þurfi ekki að kosta meira. Ég get nú upplýst hv. þm. um það, að ég leitaði mjög eftir því 1946 að fá setta olíukyndingu þannig í skip. Þá fékk ég tilboð um þetta, sem gerði ráð fyrir því, að það mundi kosta um 13–14 þús. £, og þetta hefur hækkað að minnsta kosti um 30% síðan. En þetta eru ekki einu erfiðleikarnir í sambandi við þetta í hinum nýju skipum er öllu svo saman þjappað, að segja má, að varla sé nokkur tomma látin ónotuð. Það mundi verða óhjákvæmilegt að setja inn nokkrar nýjar vélar, ef að því yrði horfið að setja olíukyndingu í gömlu togarana, og þar að auki yrði óhjákvæmilegt að snúa katlinum við, snúa því aftur, sem nú snýr fram. Þá er annað í sambandi við olíukyndingu í gömlum skipum, en það er, að hafa verður bil á milli vélarúms og súðar skipsins, svo að unnt sé að skipta um plötur, bönd og annað. Þetta er nauðsynlegt í svo gömlum skipum, þar sem annars væri of mikil áhætta á sliti og bilunum. Það er því útilokað, að þessi olíukynding verði sett í skipin í hasti, því að það þarf að minnsta kosti 12.–18 mánaða afgreiðslufrest fyrir þeim efnum og tækjum, sem til þess þarf.

Ég hygg, að það sé eitt það mesta glappaskot, sem útgerðarmenn hafa gert, að þeir fóru að halda við þessum gömlu skipum 1946, þegar fengin voru 30 ný og öflugri skip til landsins, en viðhald hinna hefur kostað of fjár. En þetta var gert til þess að halda við atvinnu í landinu og tryggja þeim öryggi, sem á skipunum áttu að starfa. Það fé, sem í þetta hefur farið, er útgerðarmönnum glatað að fullu og torvelt að gera skipin út eins og nú er komið málum.

Hv. flm. viðurkenndi, að útilokað væri að gera gömlu togarana út á ísfisk í samkeppni við nýju togarana, en hann taldi, að hægt væri að láta þá leggja upp í verksmiðjuna við Faxagarð. — Ég vil benda honum á, að þegar í sumar var verið að deila um kjör á nýju togurunum, var það tilætlunin, að þeir legðu upp í verksmiðjur hér í landi. Heldur hv. flm., að það yrði eitthvað hægara fyrir gömlu skipin að keppa við þá þar? Nú og hitt, að auðvelt sé að selja þá framleiðslu til Ameríku, þá leyfi ég mér nú að efast um það, að það sé nóg að bera svona till. hér fram á Alþingi til þess. Það er vitað mál, að við getum ekki framleitt nógu ódýran fisk fyrir Ameríkumarkaðinn, þannig að við getum selt okkar fisk í samkeppni við aðrar þjóðir. Það er þó síður en svo, að ég álíti, að sjómenn eða verkamenn fái of mikið í sinn hlut. en staðreyndirnar eru fyrir hendi í þessum efnum, sem benda ekki til, að gömlu togararnir geti unnið mikið fyrir Ameríkumarkað. Hefur það verið athugað ýtarlega, hvort hægt sé að afla fiskjar á gömlu togurunum t. d. á sama verði og fiskjar á mótorbátum og hvort ríkissjóður eigi að taka á sig hallann af þessari útgerð, eins og hann hefur gert undanfarið hvað snertir rekstur vélbátanna? Ef það er ætlun hv. flm. að haga þessu þannig, væri æskilegt að vita það, áður en þessari umr. lýkur.