22.02.1951
Sameinað þing: 45. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 317 í D-deild Alþingistíðinda. (4267)

178. mál, rekstur gömlu togaranna

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa yfir undrun minni á þeirri andstöðu, sem hv. þm. Barð. hefur tekið til þessarar till., og þeim ummælum, sem hann hefur látið falla í sambandi við þetta mál. Ég hélt, að hann þekkti það vel til rekstrar gömlu togaranna, að það yrði honum fagnaðarefni, að reynt yrði að auka möguleika þessara skipa til útgerðar, svo að þau gætu hafið rekstur að nýju á sama hátt og þau áður gerðu, en mér finnst, að hann taki þannig á málinu nú, að hann telji allar leiðir í því ófærar.

Eitt af þeim rökum, sem hv. þm. Barð. færði gegn till., var það, að það væri orðinn svo mikill mismunur á rekstri gömlu og nýju togaranna, að þar yrði um ósambærileg launakjör að ræða, og þess vegna yrði ekki hægt að fá fólk á gömlu skipin nema með því að yfirborga þeim mannskap, sem réðist á gömlu skipin. Það er að vísu rétt hjá honum, að möguleikar nýju og gömlu togaranna eru misjafnir, en eins og málum hagar hér nú, þá getum við samt reiknað með, að hægt verði að fá fólk á gömlu skipin þrátt fyrir þennan mismun, ef þau verða gerð út, enda hefur það sýnt sig, að ekki hefur vantað mannskap á þá af gömlu togurunum, sem enn eru gerðir út. Það hefur alltaf verið þannig, að hlutur á togurunum er mjög misjafn; sum skip skila tvöföldum aflahlut á móts við það, sem önnur skila, og eins og nú árar, er enginn vafi á, að hægt verður að fá fólk á gömlu skipin, þótt aflahlutur á þeim væri nokkuð lægri en á þeim nýju.

Þá hélt hv. þm. Barð. því fram, að það yrði svo mikill halli af rekstri gömlu togaranna, ef til útgerðar þeirra kæmi, en leit ekkert á þá hlið málsins, að hún útvegaði fjölda manna atvinnu og leysti vanda margra verksmiðja, sem annars standa auðar, og leysti vanda eigenda þessara skipa, sem nú aðeins hækka tap sitt með hverjum mánuðinum, sem líður. Um þetta er það að segja, að ég er viss um — og ég hygg, að þannig líti margir eigendur gömlu togaranna á, — að kostnaður við framkvæmd þessarar útgerðar þurfi ekki að kosta ríkissjóð svo neinu nemi. Ég er viss um það, að ef gömlu togurunum væri boðið upp á sömu gjaldeyrishlunnindi og vélbátaflotanum, mundu þeir renna af stað og þar með auka við gjaldeyristekjur okkar, sem ekki veitir af.

Ég býst við, að hv. flm. þessarar till. hafi hugsað sér það orðalag, sem hv. þm. Barð. gerði hér nokkuð að umtalsefni, þar sem segir: „skorar á ríkisstj. að hlutast til um“, — orðalag till., að skora á ríkisstj., að hún hlutist til um það að koma togurunum á veiðar, þýðir auðvitað það, að ríkisstj. leiti fyrir sér á þann hagkvæmasta hátt, sem hún telur, hvernig hægt er að koma skipunum af stað.

Í sambandi við gjaldeyrinn vil ég geta þess, að þar getur ekki verið um tap að ræða fyrir ríkissjóð; þótt skipin eyði sjálf auðvitað miklum gjaldeyri, þá munu þau afla enn meiri gjaldeyris og leggja inn í þjóðarbúið. — Það getur engan veginn staðizt, að það muni kosta meira að framleiða fisk á gömlu togurunum en vélbátunum. Auk þess væri ósköp auðvelt að sannprófa þetta með því að bjóða togurunum upp á sömu kjör og vélbátaflotanum. En það hefur ekki þótt fært að gera, og þess vegna hafa þeir legið hingað til.

Þá vil ég segja þetta um það atriði, sem hv. þm. minntist á, að þessu máli mundi ekki vera hreyft í fjvn. vegna þess, að það vanti upplýsingar um útgerðarkostnað skipanna. Ég er nú viss um það, að hv. þm. Barð. kann svo vel skil á þessum málum eða að hann þurfi a. m. k. ekki að leita langt til þess að fá fullnægjandi vitneskju um þetta atriði, t. d. hvað viðvíkur kyndingarkostnaði og yfirleitt öllum rekstri skipsins. — Ég ætla, að ef hv. fjvn. vildi sýna máli þessu fullan skilning, þá ætti hún vel að geta afgr. þetta mál inn í þingið á skömmum tíma. — Það er alvarlegt mál, að búið er að leggja milljónir kr. í að byggja verksmiðjur, sem ekkert hafa fengið til að vinna úr, — og hér ber að leggja eitthvað á sig til að fá þetta lagfært. Þegar svo bætist nú við vaxandi atvinnuleysi, þá ber ekki að horfa upp á það, þótt grípa þurfi til hallarekstrar, ef málin snúast þannig. — Ég mun nú ekki hafa fleiri orð um þetta, en vil segja það, að ég álit, að hægt sé að hefja rekstur hinna gömlu skipa fyrir verksmiðjur og á þann hátt þurfi það ekki að kosta ríkissjóð neitt, ef skipin fá sömu fríðindi og bátaflotinn. Með rekstri skipanna og verksmiðjanna mundi gjaldeyrisöflunin verða meiri, og ég get ekki séð, að neinn muni tapa á þessu. Vænti ég svo, að hv. þm. Barð. ljái þessu máli lið og greiði fyrir því.