22.02.1951
Sameinað þing: 44. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í D-deild Alþingistíðinda. (4279)

179. mál, verndun fiskimiða fyrir Vestfjörðum

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti.

Þetta mál, sem hér hefur verið rætt, er eitt mesta áhuga- og hugðarmál íslenzku þjóðarinnar, og því eðlilegt, að mikils áhuga gæti hjá mönnum á að hraða framkvæmdum í því. En við sjáum, að málið er nokkuð komið inn á hreppasjónarmið með þeim till., sem hér hafa komið fram. Það er fulltrúar hinna einstöku byggðarlaga, sem reyna að vekja athygli á sínum sveitum og draga fram málstað þeirra. Ég hygg, að slíkt sjónarmið í þessu máli stoði lítið, heldur verður að hafa þá aðferð, sem líklegust er til að hrinda málinu fram, og gæta þess vel að fara ekki þannig að, að öllu verði hrint út af fyrirhugaðri braut. Það er síður en svo, að það sé ætlun mín að fara nú að draga úr áhuga manna fyrir framgangi þessa máls. En það er rétt, að það komi hér fram, við hverja er að etja í þessu efni, og það mun samhljóða álit þeirra manna, sem hafa kynnt sér og undirbúið þetta mál, að þangað til Íslendingar eru lausir við samninginn við Stóra-Bretland, stoðaði ekki að stækka hið friðaða svæði meira en orðið er, vegna þess að það komi ekki að gagni. Það er ekki hægt að banna Bretum að veiða á þessum svæðum á því tímabili, sem eftir er af samningstímanum, og þar af leiðandi væri gagnslaust að setja um þetta fyrirmæli. Þau mundu aðeins verða til ruglings og óþæginda. Enn fremur er það vitað, að Bretastjórn mun undir öllum kringumstæðum verða treg til að gera hagstæða samninga við okkur í þessu efni. Ekki vegna þess, að hún vilji hnekkja okkar hlut, heldur vegna þeirrar meginreglu hennar í þessum málum, að halda því fast fram sem alþjóðareglu, að landhelgi skuli vera 3 sjómílur. Nú stendur þannig á, að fyrir alþjóðadómstóli liggur nú deilumál á milli Breta og Norðmanna, sem snertir þetta atriði, og hef ég ekki trú á, að það verði unnt að hefja raunverulega samninga við Breta um þetta efni, fyrr en dómur hefur fallið í því máli, ef menn þá telja rétt að reyna slíka samninga. Það er þó ekki víst, að sá dómur hafi nokkra úrslitaþýðingu fyrir okkur, og er ekki hægt að gera sér grein fyrir því, fyrr en dómsniðurstaðan er kunn, en líklegt er, að hann muni bæta möguleika okkar til að ná árangri í aðgerðum í þessum efnum. En sá réttur, sem við teljum okkur hafa til að stækka a. m. k. fiskveiðalandhelgina, er ekki viðurkenndur af öllum, og er því mjög mikilsvert að sjá, hvernig þessi dómur verður áður en lengra er haldið. Ég vildi vekja athygli á þessu tvennu: annars vegar samningnum við Breta, sem fellur úr gildi í haust, og hins vegar þessu deilumáli á milli Norðmanna og Englendinga, og geri ég þetta ekki til þess að draga úr áhuga manna á þessu máli. Alþ. verður óhjákvæmilega að miða sínar ályktunartillögur til ríkisstj. við þessar tvær staðreyndir. Ég átti þess ekki kost nema að litlu leyti að fylgjast með umræðunum um þetta mál hér í deildinni í gær, en mér virðist þó vera ástæða til að minna á þessi höfuðatriði, að hér er ekki um einhlítt innanlandsmál að ræða. Með þessum formála legg ég til, að málinu verði vísað til utanrmn. — Ég skal ekkert segja um, hvort rétt sé að samþ. þessa till. eða ekki. Það þarf íhugunar, vegna þess að það þarf að athuga betur, hvernig á að vinna að þessu. Legg ég því til, að málinu sé vísað til utanrmn.