22.02.1951
Sameinað þing: 44. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 324 í D-deild Alþingistíðinda. (4281)

179. mál, verndun fiskimiða fyrir Vestfjörðum

Finnbogi R. Valdimarsson:

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. þm. Vestm. borið fram brtt., sem er á þskj. 697, og er hún, eins og sjá má, viðaukatill. við þáltill., þannig að hana má samþ., hvernig sem orðalag till. verður. Að mínu áliti er þessi till. einnig framkvæmanleg, hvort sem ríkisstj. telur hægt að framkvæma það, sem felst í aðaltill., eða ekki. Ég tel ekki þörf fyrir mig að ræða um nauðsyn aukinnar verndunar á fiskimiðunum. Hv. till.menn hafa gert það, og hef ég engu við að bæta. Það er einróma álit sjómanna, að aðstaða bátaflotans hafi versnað vegna ágengni stærri skipa. Hér við Faxaflóa geta sjómenn varla komið línuveiðarfærunum í sjó, eru þau alveg í hers höndum, því að þegar þeir koma þeim í sjó, geta þeir búizt við stórfelldu veiðarfæratjóni.

Margir halda því fram, að mikill togveiðifloti varni fiskigöngunum að komast upp á grunnin. En þótt allir séu sammála um þörf á aukinni vernd miðanna, greinir menn á um leiðirnar til þess. Aðalatriði þessa máls er. hvernig framtíðaryfirráðaréttur Íslendinga yfir miðunum verður tryggður. Fiskimiðunum er þörf, að þeim verði tryggð slík vernd, meðan beðið er eftir að fá yfirráðarétt Íslendinga yfirlýstan. Ég verð að segja, þótt ég sé ekki hrakspár, að ég get ekki annað en búizt við, að það taki langan tíma að fá þennan yfirráðarétt okkar viðurkenndan á alþjóðavettvangi. Hæstv. utanrrh. hefur lýst því, hvaða annmarkar eru á, að hægt sé að setja reglugerð á grundvelli laganna frá 1948 nú þegar. Voru þær ástæður augljósar. Það er eðlilegt, að menn krefjist þess, að lögunum frá 1948 verði framfylgt. Vil ég benda á, að fyrsta sporið var stigið 22. apríl 1950, með lögum um verndun fiskimiða fyrir Norðurlandi. Við verðum að líta á málið eins og það er, og vil ég benda á, að það er öðru máli að gegna um síldveiðisvæðið en togveiðisvæðið. Eru það tveir flokkar þjóða, sem við Íslendingar eigum við að etja í þessum málum. Annar flokkurinn eru þær þjóðir, sem stunda veiðar fyrir Norðurlandi. Þær þjóðir sækja yfirleitt sjálfar mest á eigin mið, fremur en á mið annarra þjóða. Í samræmi við það hefur skilningur þeirra verið svipaður og okkar á afstöðu okkar. Því hefur verið haldið fram, að þjóðirnar geti sjálfar ákveðið yfirráðaréttinn. En hinn flokkur þjóða, sem er á togveiðisvæðinu, er flokkur þeirra þjóða, sem sækja aðallega á mið annarra þjóða og hafa sótt meiri auð á íslenzku miðin en Íslendingar sjálfir. Eru þetta þjóðir í Vestur-Evrópu, og af þeirra hálfu er von á mikilli andstöðu gegn okkar kröfum. Þessar þjóðir hafa að vísu verið miklar viðskiptaþjóðir okkar, en veita okkur samt ekki fullnægjandi markað fyrir fisk okkar og því síður sem þeim helzt uppi að sækja afla hingað á Íslandsmið.

Í hinum flokknum eru þjóðir í Austur-Evrópu, t. d. Rússar, Pólverjar og Svíar, sem sækja mest á eigin mið og hafa svipaðan skilning á þjóðréttarmálunum og við. Þessar þjóðir hafa sýnt, að þær geta veitt okkur markaðsmöguleika, og þar tel ég vera eðlilega framtíðarmarkaði fyrir íslenzkar afurðir. En andstaða Breta verður mjög öflug, og verður réttur okkar ekki auðsóttur í hendur þeirra, hvor leiðin sem farin verður, leiðin á grundvelli laganna frá 1948 eða samningaleiðin. En í lögunum frá 1948 er yfirlýsing um vilja okkar og stefnu í þessum málum. Það verður að koma til framkvæmda að veita fiskimiðunum vernd.

Nú er ljóst, að samningurinn frá 1901 stendur í vegi fyrir framkvæmd slíkrar reglugerðar. Auk þess, ef bíða yrði eftir úrskurði þessa máls, sem er fyrir alþjóðadómstóli, held ég, að það verði enn um skeið nokkur tími, sem íslenzkir sjómenn þurfa að bíða aukinnar verndunar á miðunum. Þessi hugsun, að reyna að bæta verndun miðanna, vakir fyrir mér og hv. þm. Vestm. með till. okkar.

Í samningnum frá 1901 eru ákvæði, sem eiga að tryggja, að brezkir togarar sýni íslenzkum sjómönnum tillitssemi og spilli ekki veiðarfærunum. Má vitna til þessara ákvæða. Ef skipstjórum á brezkum togurum er kunnugt um, hvar línusvæðin liggja, er þeim skylt að virða það og mega ekki fara þar inn. Þessi svæði þarf að sýna á kortinu og tilkynna, svo að erlendum mönnum sé ljóst, hvar þau eru. Ákvæði þessa samnings hafa fengið lagasamþykki á Alþingi og einnig tilskipanir frá 1902 eða 1903. Mætti framkvæma þessar aðgerðir bæði með því að vitna til brezka samningsins og einnig með því að leyfa að framkvæma lögin frá 1948. Þyrfti að athuga gaumgæfilega, hvort ekki mætti leiða til skjótra aðgerða á grundvelli laganna frá 1948, jafnvel þótt framkvæmd þeirra færi fyrir alþjóðadómstól. Hygg ég, að ekki væri erfiðara að verja þar rýmkun landhelginnar, ef farið er eftir einhliða leið. Ég ætla, að ef þetta mál færi til utanrmn., verði þetta atriði gaumgæfilega athugað. — Þetta er það, sem ég og hv. þm. Vestm. leggjum mesta áherzlu á, þar sem of langt er fyrir Íslendinga að bíða eftir að sjá rétt sinn, sem þeir eiga og þurfa að fá, viðurkenndan. Ef engar ráðstafanir eru gerðar í þessu máli á meðan, getur orðið of langt að bíða, að komið verði á þeirri nauðsynlegu vernd, sem allir eru sammála um, að beri að veita bátaflotanum.