22.02.1951
Sameinað þing: 44. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 326 í D-deild Alþingistíðinda. (4282)

179. mál, verndun fiskimiða fyrir Vestfjörðum

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Ég vildi taka undir það, sem síðasti ræðumaður, hv. 7. landsk. þm., sagði viðvíkjandi þeirri brtt., sem við flytjum hér báðir og er viðaukatill. við hina upphaflegu till. Þar kemur ekki til greina að reka sig á neina sáttmála eða samninga gagnvart öðrum þjóðum, en till. er í samræmi við þau alþjóðalög, international regulation, sem talin eru algild og mæla svo fyrir, að enginn fiskimaður megi leggja veiðarfæri sín í sjá ofan á veiðarfæri annars, sem er kominn á undan, eða leggja veiðarfæri sín í sjó skemmandi veiðarfæri annarra.

Eins og kunnugt er, hefur talsvert verið reynt að framkvæma friðun við Vestmannaeyjar um nokkurra ára skeið, og hefur ríkisvaldið lagt þar til styrka hjálparhönd með því að leyfa varðskipinu, sem einnig stundar slysavarnir, að gæta þessa svæðis. Mun árangurinn yfirleitt hafa verið góður. Reynslan, sem hefur fengizt þarna, er m. a. orsök þess, að ég hef flutt með hv. 7. landsk. þm. till. um, að svipað verði gert á öðrum stöðum, eftir því sem staðhættir leyfa. Þarf þetta ekki að reka sig á neina samninga af útlendra manna hálfu. — Vil ég nú nota tækifærið til að þakka Alþingi fyrir þann stuðning, sem Vestmannaeyjar hafa notið á þessu sviði með aðstoð varðskipa ríkisins. Það er víst og satt, að fá mál, er snerta sjávarútveginn, eru öllu þýðingarmeiri en þetta mál, friðun fiskimiðanna, og hefur mikið verið barizt fyrir því hér á Alþingi, og hafa margir hv. þm. staðið þar framarlega í flokki.

Ég er sannfærður um, að friðunarstefnan er nauðsynleg, þegar við getum útfært hana árekstralaust við aðrar þjóðir. Þessi grundvallarhugsun liggur einnig að baki lagasetningarinnar frá 1948, nr. 4, sem er að vísu byggð á verndun af vísindalegum ástæðum, en hlýtur einnig að grípa inn í hið praktíska í málinu. Sú löggjöf, sem góðu heilli var sett af Alþingi, heimilar ríkisstj. að hafa tilburði í þessum efnum og færa út landhelgina. Þegar ég sat í ráðuneyti Stefáns Jóh. Stefánssonar sem sjútvmrh., þá var byrjað í samráði við forsrh. að hefjast handa til þess að hagnýta þessa löggjöf í hagnýtum tilgangi. 1. okt. 1949 ritaði sjútvmrh. utanrrn. bréf til að benda á, að úr því að ráðstefna um friðun Faxaflóa hefði ekki átt sér stað um sumarið, aðallega vegna þess, að Englendingar gátu ekki tekið þátt í henni, liti ráðun. svo á, að rétt sé að segja upp samningnum við Englendinga frá 1901, sem vitnað hefur verið í. Það voru rök þessa bréfs, sem leiddu til þess, að ráðuneytið hugðist hefjast handa um notkun heimildar laga frá 1948. Þessu næst var hafizt handa um undirbúning reglugerðar í þessu skyni og leitað umsagnar Fiskifélags Íslands og fiskideildar háskólans. Fiskideild háskólans lagði á það sérstaka áherzlu, að þarna væru uppeldisstöðvar ungfiskjar og því sérstök ástæða til verndunar af þeim sökum. Þeir menn, sem ráðuneytið sótti helzt ráð til um samningu þessarar reglugerðar, voru þeir skrifstofustjóri Gunnlaugur Briem, Andersen þjóðréttarfræðingur og dr. Árni Friðriksson fiskifræðingur.

Þeir unnu aðallega að undirbúningi þessarar reglugerðar um útfærslu landhelginnar, sem getin var út á grundvelli þessara laga. Þegar ég fór úr ráðherrastóli, var reglugerðin að fullu útbúin, en ekki undirrituð, vegna þess að hæstv. utanrrh. hafði ekki látið í té sitt síðasta samþykki, sem þó kom á sínum tíma, og endanlega var reglugerðin undirrituð af hæstv. núverandi atvmrh. Það þótti sjálfsagt þá strax, ef lögin á annað borð yrðu notuð, að þá yrði að gera það svo varlega, að það nyti samþykkis nágrannaþjóða okkar. Ef það gæti ekki lukkazt á þann hátt, væri lítil von að hreyfa við takmörkum landhelginnar yfirleitt. Það var búizt við mótmælum vegna laganna, eins og líka kom á daginn, en þau mótmæli voru ekki alvarleg, og yfirleitt hafa þeir útlendingar, sem þarna áttu hlut að máli, en það voru einkum Norðmenn og Svíar, sætt sig við þessa ráðabreytni íslenzkra stjórnarvalda. Þannig hefur þetta mál, hvað útlendingum viðkemur, gengið hávaðalaust, en ég vil ekki segja það sama, ef færð verður út landhelgislínan á svipaðan hátt áfram, en það er það markmið, sem þessi þjóð hlýtur að stefna að, og hefur hv. Alþingi sýnt alveg ótvírætt sinn vilja í þessu máli. Það verður að taka upp áróður fyrir þessu máli, og hver Íslendingur, sem leið á á erlendum vettvangi, þar sem það á við og hægt er að koma því að, verður að koma inn skilningi á nauðsyn verndunar fiskimiða landsins og rétti Íslendinga til landgrunnsins. Nú hefur enn áunnizt nokkuð í þessu máli. Á nýloknu fiskiþingi hefur verið haldið vel á okkar málum og sjónarmið Íslendinga skýrð. Þar áttu þeir hlut að máli Gunnlaugur Briem, Davíð Ólafsson og Andersen þjóðréttarfræðingur. Þetta þarf að gera til þess að undirbúa þann nauðsynlega jarðveg fyrir útvíkkun landhelginnar. Ég get sagt frá því hér til fróðleiks, að á Evrópuþinginu í Strassborg í sumar gafst okkur íslenzku fulltrúunum alveg óvænt tækifæri til þess að koma að sjónarmiðum okkar Íslendinga í þessu máli í sambandi við till. Breta varðandi fiskveiðar í Norðursjó, vegna þess að þeir við tillöguflutninginn vitnuðu sérstaklega til Íslands. Við íslenzku þingfulltrúarnir ákváðum að bregðast vel við þessari tillögu Breta, en okkur gafst jafnframt tækifæri til að koma að íslenzkum sjónarmiðum í landhelgismálum yfirleitt, og notuðum við það alveg fyllilega. Við bentum á, bæði í n. og á fundi þingsins, að Ísland teldi sig hafa rétt til landgrunnsins kringum Ísland; Ísland teldi sig hafa rétt til að varðveita klakstöðvar og fiskimið á landgrunni síns lands. Þetta var þungamiðjan í okkar rökum, en um leið var á það bent, hvaða þýðingu fiskveiðarnar hefðu fyrir landið og hvaða þýðingu þær hefðu fyrir Breta og hvaða þýðingu þær hefðu haft á stríðsárunum fyrir þá. Að aðalefni voru okkar rök undirbúin af Andersen þjóðréttarfræðingi, því svo vildi til, að hann var á ferðinni þarna rétt um það leyti, sem hilla sást undir þessa till. Breta, og gat lagt okkur í hendur það, sem á þurfti að halda. — Ég vildi í sambandi við þessar umræður skýra frá þessu til að benda á nauðsyn þess, að Íslendingar noti hvert hæfilegt tækifæri til þess að útbreiða skilning sinn á þessum málum og koma öðrum þjóðum í skilning um rétt sinn til landgrunns síns eigin lands.

Ég mun svo ekki teygja þessar umr. frekar, ég vildi aðeins hreyfa þessu máli, en vil þó bæta því við, að ég tel eðlilegast að gera sem gagngerðastar ráðstafanir til þess að hrinda þessu máli áleiðis. Ég var búinn að benda á hina sjálfsögðu leið, sem felst í brtt. okkar hv. 7. landsk.

Hæstv. utanrrh. hefur óskað eftir því, að málið færi til hv. utanrmn. Það er sjálfsagt að taka undir þá ósk, en ég tel, að það væri nokkuð sýnilegt, ef málið færi til þeirrar n., að þá ætti að herða á því, að n. snerist sem fyrst til athugunar um, hvort hægt sé að ganga eitt fet fram. Til þess þarf vitaskuld aðstoðar sérfræðinga og e. t. v. pólitískrar aðstoðar þeirra ríkja, sem okkur eru vinveitt, til þess að koma þessu hagsmunamáli okkar í gegn.

Með þessum forsendum tel ég rétt að taka undir ósk hæstv. ráðh. um, að málið fari til hv. utanrmn.