06.12.1950
Sameinað þing: 23. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 338 í D-deild Alþingistíðinda. (4343)

94. mál, Keflavíkurflugvöllur

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Eins og Alþingi veit, er svo til ætlazt, að við þingmenn getum sett fyrirspurnir okkar hér fram til hæstv. stjórnar og rætt þær á þingræðislegum grundvelli. Það er aðallega til þess, að við getum gefið ríkisstj. tækifæri til að inna sín skyldustörf auðveldlegar af hendi. En ráðh. vilja ekki gefa upplýsingar viðvíkjandi þessu máli, af því að þeir óttast þann dóm, sem þeir fá. — Ég vil slá því föstu út af því, sem viðskmrh. sagði, að hann hefur brugðizt skyldu sinni í þessum efnum. Hann hefur látið undir höfuð leggjast að láta athuga það, sem hann átti að svara. Hann hefur metið meir hagsmuni erlendrar þjóðar, sem hann kannske er fjármálalega tengdari, en hagsmuni hinnar íslenzku þjóðar. Ráðherrar, sem áður hafa setið í ráðherrastólum, hafa svarað líkum fyrirspurnum.

Mér gefst síðar tækifæri til að geta rætt þetta við hann undir jöfnum kringumstæðum.