29.11.1950
Sameinað þing: 19. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 340 í D-deild Alþingistíðinda. (4353)

901. mál, límvatn til áburðar

Landbrh. (Hermann Jónasson) :

Herra forseti. Ég hef hér í höndunum bréf frá Atvinnudeild háskólans, og mun ég lesa upp úr því, en vil áður taka fram, að beinar tilraunir í því skyni, sem hér um ræðir, hafa ekki verið gerðar á s. l. vori, enda telur atvinnudeildin, að það liggi ljóst fyrir, hvað sé áburðargildi límvatns, og því þurfi ekki að gera um það rannsóknir hér, en hins vegar kemur það fram í bréfinu, hvað sérfræðingur telur að hafi mesta þýðingu og krefjist helzt frekari rannsókna í þessum efnum, og segir svo í bréfinu, með leyfi hæstv. forseta:

„Límvatn er köfnunarefnisáburður. Það inniheldur ekki önnur áburðarefni, svo að teljandi sé, og þarf því að bera á með því fosforsýru- og kalíáburð.

Áburðartilraunir hafa ekki verið gerðar með límvatn hér á landi. Hins vegar hafa verið framkvæmdar áburðartilraunir með síldar- og fiskimjöl, og má m. a. af þeim álykta nokkuð um notagildi límvatns sem áburðar.

Áburðargildi límvatns er breytilegt, bæði eftir því, á hvaða tíma árs borið er á, og einnig er það háð veðráttu eftir að því er dreift.

Sé límvatn borið á að hausti eða fyrri hluta vetrar, má ganga út frá því, að nokkuð af köfnunarefninu skolist burt úr jarðveginum, áður en jurtirnar geta hagnýtt það. Slík útskolun er þó mjög háð því, hvort jörð er frosin eða þið, svo og úrkomu og jarðvegsskilyrðum. Sé límvatn borið á frosna jörð, verður varla komizt hjá töpum með yfirborðsrennsli, einkum í halla. Sé límvatnið borið á, eftir að gras er farið að lifna í rót, þá nýtist það verr, eða áburðargildi þess minnkar, því seinna sem það er borið á að sumrinu. Notagildi límvatns frá síldarverksmiðjum á Norðurlandi yrði þannig lélegt, nema límvatnið yrði geymt til næstkomandi vors.

Bezt nýtist límvatnið, sé það borið á seinni hluta vetrar eða snemma vors, í lengri eða skemmri tíma eftir veðráttu. Það mun varla fjarri sanni að ætla, að límvatn og fiskúrgangur, er til fellur á seinni hluta vetrarvertíðar fyrir þorsk, mundi nýtast bezt sem áburður, miðað við að þessi afgangsefni séu borin á um leið og þau safnast.

En er þá ekki hægt að geyma límvatnið og bera það á á hentugum tíma? Það hefur ekki verið reynt, en virðist hafa takmarkaða möguleika. Vegna of mikils kostnaðar, sem ekki skal rakinn hér, kemur varla til greina að eima vatnið úr límvatninu til þess að minnka geymslu- og dreifingarkostnað sem áburð. Það má hugsa sér að geyma límvatnið í loftþéttum tönkum án þess að bæta í það rotvarnarefnum, en vitað er, að við slík skilyrði tekur það á sig mjög daunilla lykt, svo að illvinnandi yrði við flutning og dreifingu þess. Þar með er þó væntanlega ekki útilokað að geyma límvatn til áburðar á þennan hátt. Rotvarnarefni eru hins vegar í fyrsta lagi of dýr, og kæmi raunar heldur ekki til greina að nota sum þeirra, svo sem brennisteinssýru, vegna skaðlegra áhrifa á jarðveginn.

Geymslukostnaður á límvatni yrði mjög verulegur. Hver rúmmetri í geymslutönkum kostar nú að minnsta kosti kr. 100.00. Ef áætlað er, að límvatnið innihaldi 1% af köfnunarefni, sem mun vart ýkja fjarri meðallagi, þyrfti um 10 smálestir eða 10 m3 á hvern hektara, svo að sæmilega sé borið á. Stofnkostnaður geymslutankanna yrði samkvæmt þessu kr. 1000.00 á hektara, eða geymslukostnaður á hvert kíló af köfnunarefni 1.00 kr., ef gert er ráð fyrir, að 10% af stofnfé þurfi að greiðast árlega sem vextir, afborganir og viðhald.

Þar sem ekki liggja fyrir samanburðartilraunir með límvatn og tilbúinn áburð, svo sem fyrr var getið, er erfitt að áætla um áburðargildið, og mundi raunar svo vera, þó að tilraunir hefðu verið framkvæmdar í eitt ár, vegna áhrifa veðráttunnar á árangurinn. Þess má t. d. geta, að köfnunarefni í tilbúnum áburði hefur gefið frá 35 til 130% meiri vaxtarauka en köfnunarefni í síldar- og fiskimjöli.

Sé límvatn borið á á hentugum tíma, er það væntanlega nokkru hraðvirkara en síldarmjöl, sem dreift er í grasrótina. Þó er ekki sennilegt, að hið fyrrnefnda sé jafnvirkt og tilbúinn áburður, miðað við sama magn af köfnunarefni. Að svo stöddu máli er tæplega hægt að meta límvatnið meir en svo, að á móti 75 kg af köfnunarefni í tilbúnum áburði, sem er sæmilegur skammtur á einn ha, mun þurfa 100 kg af köfnunarefni í límvatni eða 10 smálestir af 1% límvatni.

Dreifingarkostnaður. — Það fer ekki fjarri því, að eitt kg af köfnunarefni í tilbúnum áburði komið á tún muni kosta kr. 5.00 á næsta vori, eða kr. 375.00 á hektara, ef 75 kg af köfnunarefni eru borin á. Samkvæmt þessu og ofangreindu mætti tonnið af límvatni, dreifðu á túnið, ekki kosta meir en kr. 37.50. Nú þyrftu fiskimjölsverksmiðjur að fá eitthvað fyrir að safna límvatninu og afgreiða það. Sé verðið við verksmiðjuna áætlað kr. 4.50 á tonn, þá er spurningin, hve langt sé hægt að flytja límvatnið, ef greiddar eru kr. 100.00 fyrir hleðslu, flutning og dreifingu á hverjum 3 smálestum af límvatni. Ef bera ætti á að sumrinu, á haustin eða fyrri hluta vetrar, þegar notagildi límvatnsins er minna, yrði flutningsgjaldið að vera minna, eða það yrði ekki hægt að flytja límvatnið eins langa leið, ef það ætti að vera nokkurn veginn samkeppnisfært við tilbúinn áburð.

Benda má á, að það getur verið erfiðleikum háð að nota mjög stórar bifreiðar við dreifingu límvatnsins, þar eð hætt er við, að þær mundu spora túnin á vorin.

Rannsóknarverkefni. — Af framanskráðu er ljóst, að nota má límvatn með góðum árangri hið allra næst framleiðslustaðnum. Það, sem helzt þyrfti að athuga og rannsaka nánar í sambandi við notkun límvatns sem áburðar, virðist vera sem hér segir:

1. Að athuga flutnings- og dreifingarkostnað og þar með áætla, hve langt megi flytja límvatnið með hliðsjón af líkum reikningsgrundvelli og þeim, er að ofan greinir.

2. Fá upplýsingar um það magn af límvatni, sem til, fellur í hinum ýmsu verstöðvum, og tún stærð ræktunarlanda í nágrenni þeirra.

3. Gera dreifingartímatilraun og samanburð á límvatni og tilbúnum áburði í grennd við fiskimjölsverksmiðjur. Það er óþægilegt að framkvæma slíkar tilraunir á tilraunastöðvum, sem er fjarri verstöðvum. Samanburðartilraunir með límvatn eru nokkuð umfangsmiklar og dýrar, einkum þar sem köfnunarefnisinnihald límvatnsins er að sjálfsögðu breytilegt. Það virðist eðlilegt að athuga allgaumgæfilega atriði þau, sem nefnd eru undir liðum 1. og 2., áður en lagt er í kostnað vegna áburðartilrauna með límvatn.“

Af þessu er ljóst, að það eru tvö verkefni, sem hægt hefði verið að vinna að í sumar, þ. e. að rannsaka flutningskostnað og reikna út, hvers virði límvatnið verður, komið á þann stað, þar sem það á að bera á, og í öðru lagi, hve mikið af túnum er í nánd við þá staði, þar sem límvatnið fellur til. Það má vitanlega segja, að þetta yfirlit hefði átt að gera á s. l. vori, eins og hv. fyrirspyrjandi talaði um. En sannleikurinn er nú sá, að það er svo um þennan mann, sem sinnir þessum störfum, dr. Björn Jóhannesson, að hann kemst ekki yfir að framkvæma þær rannsóknir og tilraunir, sem eru aðkallandi á því sviði, sem hann fæst við, og ekki einu sinni helminginn af þeim, vegna ónógs vinnukrafts við tilraunirnar.

Ef þessar upplýsingar þykja ekki nægar, þá er vitanlega nú á næsta vori hægt að gera þessar tilraunir. En þá þarf jafnframt að ætla fé til þeirra á fjárl.