29.11.1950
Sameinað þing: 19. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 346 í D-deild Alþingistíðinda. (4363)

903. mál, dýpkunarskipið Grettir

Fyrirspyrjandi (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Í lok síðasta Alþ. bar ég fram till. til þál. á þskj. 759 um sparnað á útgerðarkostnaði dýpkunarskipsins Grettis. Vegna þess, hve þáltill. kom seint fram á þinginu, gafst ekki tími til að ræða málið og afgr. það þá efnislega á Alþ. Það var upplýst í grg. till., að þá væru á skipinu 14 skipverjar, sem hefðu fengið á sjöunda hundrað þús. kr. í vinnulaun á árinu, eða sem svarar rúml. 43 þús. kr. hver maður að meðaltali, og það þótt skipið hefði legið í höfn verulegan tíma af árinu. Af þessu eru skipstjóralaun nærri 86 þús. kr., laun I. vélstjóra um 50 þús. kr., matsveins yfir 40 þús. kr., og háseta um og yfir 40 þús. kr., allt auk margvíslegra hlunninda, svo sem trygginga, orlofs, fæðis, sjúkrasamlagsgjalda o. fl., og fæðiskostnaður á mann var 15 kr. Er þetta tekið beint úr reikningum, sem lágu fyrir fjvn. á sínum tíma. — Nú vil ég spyrja hæstv. ráðh., hvort nokkuð hafi verið gert til þess að draga úr þessum kostnaði, þótt hins vegar ekki hafi verið mælt svo fyrir af Alþ., vegna þess að þáltill. var ekki afgreidd fyrir það, hve seint hún kom fram.