29.11.1950
Sameinað þing: 19. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í D-deild Alþingistíðinda. (4370)

904. mál, viðskiptasamningar við Danmörku

Fyrirspyrjandi (Gísli Jónsson) :

Ég vil þakka ráðh. fyrir svörin. Ég lýsi vonbrigðum yfir því, að viðskiptasamningarnir skuli vera svo óhagstæðir sem lýst er. Ég get trúað því, að ekki hafi verið hægt að komast hjá að greiða þessar 18 millj., sem talað var um, en það er sannarlega mjög athyglisvert, að eiga skuli sér stað 17–18 millj. kr. innflutningur á móti 6 millj. kr. útflutningi af okkar hálfu, og vildi ég beina þeirri ósk til hæstv. ráðh., að hann gerði sitt ýtrasta til þess, að þetta yrði jafnað. Það er kapphlaup um það nú hjá öllum þjóðum að selja vörur til annarra landa og engin ástæða lengur að láta dönsku þjóðina kúga Íslendinga í viðskiptum, en hér virðist beinlínis vera farið inn á það ár eftir ár að flytja til landsins frá Danmörku mörgum sinnum meira en Danir kaupa af okkur. — Ég vildi því vænta þess, að hæstv. viðskmrh. beitti sér fyrir því, að þessi viðskipti yrðu löguð Íslendingum í hag í framtíðinni.