29.11.1950
Sameinað þing: 19. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í D-deild Alþingistíðinda. (4374)

905. mál, sama kaup karla og kvenna

Fyrirspyrjandi (Soffía Ingvarsdóttir) :

Herra forseti. Út af þessari fyrirspurn minni vildi ég segja fáein orð til skýringar. Í öllum menningarlöndum er fyrir löngu hafin barátta fyrir því réttlætismáli, að konur fái sama kaup og karlar fyrir sömu vinnu. Í fyrstu fengu þessar raddir ekki mikinn hljómgrunn, því að menn þekktu ekki annað en að konur ynnu erfiðisvinnu, — t. d. eins og hér hjá okkur, bæru á móti karlmanni allan daginn, — fyrir helmingi minna kaup en þeir. En augu fleiri og fleiri opnuðust fyrir þessu ævagamla óréttlæti, og þá tók að miða í rétta átt. Og nú er svo komið, að þetta mál er komið á góðan rekspöl, þó að hvergi nærri sé það komið í rétt horf. Og þetta mál er ekki lengur aðeins baráttumál kvenréttindakvenna, heldur mál allra frjálslyndra manna, mál verkalýðssamtaka og fjölda annarra í hverju landi fyrir sig. En með starfsemi Sameinuðu þjóðanna má segja að alheimshreyfing sé komin á þessi mál. Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hefur, eins og kunnugt er, tekið þetta upp á stefnuskrá sína sem hreint mannréttindamál. Í áframhaldi af því er það veigamikla atriði, að Alþjóðavinnumálastofnunin í Genf vill beita sér fyrir að koma á fullum jöfnuði í kaupgreiðslum karla og kvenna. Alþjóðavinnumálastofnunin skrifaði öllum ríkisstjórnum innan Sameinuðu þjóðanna sumarið 1949 og sendi þeim ýmsar fyrirspurnir varðandi þessi mál, sem átti að svara fyrir alþjóðavinnumálaþingið 1960. Spurnarskjalið er nánast tillögur eða uppástungur um, hvernig bezt sé að koma á til framkvæmda jöfnuði í kaupgreiðslum til karla og kvenna. Meginspurningin er sú, hvort viðkomandi ríkisstjórnir telji æskilegt, að alþjóðavinnumálaþingið samþykki alþjóðareglur um sömu laun fyrir sömu vinnu. Þá eru í þessum plöggum lagðar fyrir ýmsar spurningar, er lúta að því, hvernig hvert ríki fyrir sig telji að hagkvæmast verði að vinna að því að koma þessu jafnréttismáli í framkvæmd í einstökum atriðum, þ. á m. hvort eigi mundi tiltækilegast, að reglan yrði fyrst tekin upp í þeim starfsfyrirtækjum, sem hið opinbera rekur, og löggjafarvaldið síðan beitti sér fyrir því, að þessi regla kæmi einnig til framkvæmda í öllum einkarekstri.

Hvergi hefur — það ég til veit — verið skýrt opinberlega frá því, t. d. hér á Alþ., hvort íslenzka ríkisstj. hefur fengið þetta bréf Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, og því síður, hverju hún hefur svarað því, en það er stórt atriði, hvort hún t. d. telur æskilegt, að alþjóðavinnumálaþingið samþykki alþjóðlegar reglur um sömu laun fyrir sömu vinnu. En þetta er ein aðalspurningin. Og óhætt er að segja, að íslenzkar konur vilja mega treysta því, að íslenzka ríkisstj. á hverjum tíma vilji nota hvert tækifæri til að vinna í anda Sameinuðu þjóðanna að því, að konur fái sama kaup og karlar fyrir sömu vinnu.