29.11.1950
Sameinað þing: 19. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í D-deild Alþingistíðinda. (4376)

905. mál, sama kaup karla og kvenna

Fyrirspyrjandi (Soffía Ingvarsdóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir greinilegar og góðar upplýsingar, en því miður kemur í ljós, að það hefur ekki verið mikil árvekni í þessu máli. Það er nú upplýst, að ríkisstj. hefur ekki sent spurningalista til vinnumálastofnunarinnar fyrr en undir vor 1950, og einmitt þá mun það hafa legið nokkurn veginn ljóst fyrir, að þá yrði of lítill tími til að undirbúa þessi svör formlega fyrir alþjóðavinnumálaþingið, sem átti að vera síðastliðið vor, 1950. En ég er ánægð með það, að hægt er að taka þetta mál upp að nýju, og treysti félmrn. til að ítreka við þessa aðila, sem rn. leitaði samstarfs við í þessu máli, að draga ekki að svara þessum þýðingarmiklu spurningum, og ríkisstj. geri svo að lokum sitt til þess að stuðla að því, að þetta réttlætismál, sama kaup fyrir sömu vinnu, nái fram að ganga hér á landi. — Svo þakka ég fyrir.