29.11.1950
Sameinað þing: 19. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í D-deild Alþingistíðinda. (4377)

905. mál, sama kaup karla og kvenna

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson) :

Það er aðeins út af því, sem fyrirspyrjandi sagði, að rn. hefði sýnt tómlæti í þessu máli. Það vil ég ekki viðurkenna, og ber mér þó ekki fyrir það að svara, því að það, sem hv. 4. þm. Reykv. minntist á, skeði áður en ég kom í rn. En ég tel alls ekki, að rn. eigi neina sök á þessu, því að það sendi umræddan lista 10. marz, en alþjóðavinnumálaþingið er haldið fyrst í júlímánuði, má ég segja, og það er vissulega nógur tími til undirbúnings þessa máls. Og ég vil segja, að það liggi ekki mikil alvara á bak við í þessu máli, ef þessir aðilar hafa ekki getað notað þann tíma til að taka ákvarðanir og senda rn. bréf um það efni. Tíminn var vissulega nógur, og tel ég ekki ástæðu til að ásaka rn. í þessum efnum, heldur tel ég sökina liggja hjá þeim kvenfélagasamtökum, sem aldrei birtu svör við bréfi rn. Ég tel því, að ummæli hv. þm. hafi ekki við rök að styðjast.