02.02.1951
Sameinað þing: 36. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1555 í B-deild Alþingistíðinda. (438)

Flugslys - samúðarávarp forseta

forseti (JPálm) :

Háttvirtu alþingismenn. Við komum hér saman í dag af óvenjulegu og sorglegu tilefni, sem öllum landsmönnum veldur sárri hryggð.

Þegar þau tíðindi bárust út á meðal fólksins í fyrrakvöld, að flugturninn á Reykjavíkurflugvelli hefði skyndilega misst samband við flugvélina Glitfaxa, sem var á heimleið úr Vestmannaeyjaför í miklu dimmviðri, þá sló ógn og kvíða á alla, sem fréttina fengu. Eitthvað óvanalegt hlaut að hafa komið fyrir, en allir vonuðu samt, að betur rættist úr en á horfðist.

Alla nóttina og fram eftir degi í gær voru ástvinir flugstjórnar vélarinnar og farþega og allur almenningur milli vonar og ótta. Hugsanlegt var, að ekki hefði annað bilað en senditæki vélarinnar, og hinum kjarkmikla og örugga flugstjóra hefði tekizt að lenda inni í landi, fjarri byggðum.

En öll vonarljós dofnuðu smám saman og hurfu loks með öllu um miðjan dag í gær, þegar sannað þótti með óyggjandi rökum, að flugvélin hefði fallið í sjóinn. Þá var það orðið víst, að okkar fámenna land var í einni svipan 20 mönnum fátækara en daginn áður. Tvær stúlkur og 18 karlmenn höfðu í hríðardimmu þorrans yfirgefið þessa veröld í einum hóp.

Í okkar misbrigðasama og harða veðurfari hefur um allar aldir verið hætta á ferðum. Á, sjó og landi, í ám og vötnum hafa margir Íslendingar beðið bana fyrr og síðar, en með auknum öryggisútbúnaði, brúm og vegum, símasambandi og loftskeytum, hafa menn vonað, að þessum háska væri þá og þegar að fullu bægt frá dyrum þjóðarinnar, og víst hefur mikið áunnizt í því efni. Loks hefur svo hámark íslenzkra samgöngubóta, flugtæknin, orðið óskadraumur þjóðarinnar og skapað bjartar vonir um bætt skilyrði, fljótari og öruggari ferðalög. En þegar slíkir atburðir gerast eins og nú hefur orðið, þá er það þungt áfall, ekki einasta fyrir ástvini þeirra, er farizt hafa, heldur fyrir óskir og vonir þjóðarinnar allrar. Slíkur atburður veldur þjóðarsorg.

Þjóðin horfir með sárri hryggð á eftir ágætum flugstjóra og góðu aðstoðarfólki, ásamt fjölmennum farþegahóp. En hér sem oftar er sá eldurinn heitastur, sem á sjálfum brennur. Nánustu ástvinir hinna látnu eru í bili eins og sá, er missir fótfestuna og veit um stund eigi, hvað við tekur. Skerandi sorgin er þeirra hlutskipti þessa dagana.

Það er því skylt og eðlilegt, að allir hugsandi menn láti þá vita um einlæga samúð og hluttekningu. Það viljum við alþingismenn gera allir sem einn, enda er nú nærri okkur höggvið.

Við hugsum til syrgjandi foreldra, sem misst hafa soninn sinn elskulega eða dótturina. Við hugsum til ekkna og barna, systkina og annarra nánustu ástvina. Við getum ekki bætt þeim missinn. Það getur enginn. En við viljum fullnægja þeirri sjálfsögðu skyldu að senda hlýja samúðarkveðju, ef orðið gæti einhver geisli í rökkurveröld sorgarinnar. Enginn ræður sínu banadægri, og við vitum aldrei, hvort betra er að fara yfir landamærin fyrr eða síðar, eða hvort betra muni að fara á þennan veg eða hinn. En hvernig sem gengur og hvað sem að höndum ber, þá er þó bjartasta ljósið og sterkasti geislinn í trúarbrögðum okkar kristinna manna.

Þar er aðalkjarninn orð meistarans þessi: „Ég lifi, og þér munuð lifa.“ Í þeim liggur mesta huggun allra syrgjenda. Ásamt björtum og fögrum minningum er þar að finna þá græðslu, sem öll sár getur með tímanum mýkt.

Við viljum allir sýna syrgjendunum samúð og hluttekningu, og við viljum allir heiðra minningu þeirra, sem fallið hafa á svo sorglegan hátt.

Blessun Drottins fylgi þeim öllum.

Ég vil biðja háttvirta alþingismenn að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]