06.12.1950
Sameinað þing: 23. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í D-deild Alþingistíðinda. (4385)

120. mál, virkjun Fossár í Fróðárhreppi

Fyrirspyrjandi (Sigurður Ágústsson):

Herra forseti. Með l. nr. 92 1947 hefur ríkisstj. heimild til: 1) að reisa 2400 ha. raforkuver við Fossá í Fróðárhreppi og leggja þaðan háspennulínu til Ólafsvíkur og Sands; 2) að reisa 1500 ha. raforkuver við Gönguskarðsá við Sauðárkrók; 3) að koma upp aðalspennistöð fyrir Voga og Vatnsleysuströnd á Reykjanesi. Annar og þriðji liður heimildarinnar, virkjun Gönguskarðsár og bygging aðalspennustöðvar fyrir Voga og Vatnsleysuströnd, hafa þegar verið framkvæmdir. Sama á ekki við um fyrsta lið, virkjun Fossár. 1949 bárust hreppsn. Ólafsvíkur og Hellissands bréf frá rafmagnsveitum ríkisins, þar sem skýrt var frá, að búið væri að gera pöntun véla og vonir stæðu til, að hafizt yrði handa um virkjun Fossár innan skamms. Oddvitar Ólafsvíkur og Hellissands áttu tal við raforkumálastjóra, og gaf hann frekar vonir um, að eitthvað yrði gert s. l. haust í sambandi við vegalagningu og jafnvel annað varðandi væntanlega virkjun Fossár. Ég hef frétt frá raforkumálastjóra, sem er það sama og stóð í áður nefndu bréfi, að þegar sé búið að gera pöntun á vélum til virkjunarinnar. Þessi fsp. til hæstv. ráðh. er fram komin vegna þeirrar deyfðar, sem ríkti um þessar framkvæmdir á s. l. hausti. Ég þarf ekki að lýsa því, hve mikil vonbrigði það eru íbúum Hellissands og Ólafsvíkur og öðrum þeim, sem væntanlegrar virkjunar eiga að njóta, að enn hefur ekkert verið gert í þessa átt, ekki sízt þegar gerðar eru sérstaklega miklar áætlanir um raforkuframkvæmdir, þar sem eru áætlanir um Sog og Laxá. — Ég hef ekki meira að segja um þetta mál, en vænti svars hæstv. ráðh.