13.12.1950
Sameinað þing: 25. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 357 í D-deild Alþingistíðinda. (4398)

129. mál, störf Grænlandsnefndar

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson) :

Herra forseti. Eins og kunnugt er, voru þrír menn skipaðir í n. til að athuga málið, sem er til umræðu. Þeir hafa nú þegar viðað að sér miklum gögnum, sumum fyrirferðarmiklum, og eru sum ritin þannig, að það þarf að brjótast í gegnum mörg þúsund bls. af erfiðu og óaðgengilegu efni. Sum af þeim gögnum, sem nauðsynleg eru við þessa rannsókn, hafa ekki fengizt, því að þau virðast algerlega ófáanleg. Þeir fræðimenn, sem hlut eiga að máli, hafa enn ekki átt kost á að hafa þau undir höndum. — Eins og kunnugt er, þá eru allir þessir menn bundnir embættisstörfum, sumum afar tímafrekum. Allt hefur þetta orðið til þess, að starfinu er ekki lokið.

Á þessu stigi málsins er ekki hægt að segja, hvenær því verði lokið. En að sjálfsögðu munu nm. nú haga verkum sínum í þessu efni eftir því, sem þeir treysta sér til.