13.12.1950
Sameinað þing: 25. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 358 í D-deild Alþingistíðinda. (4399)

129. mál, störf Grænlandsnefndar

Fyrirspyrjandi (Pétur Ottesen):

Það getur vel verið, að störfum þessara manna sé þannig háttað, að það taki óratíma að rannsaka þessi efni, sem þeim hefur verið falið að rannsaka. Með tilliti til þess leyfi ég mér að mælast til þess við hæstv. ríkisstj., að hún bæti aðstöðu þessara manna til þeirra starfa, sem um er að ræðu, þannig að embættisstörf þeirra valdi þeim ekki óeðlilegum drætti, sem gæti orðið skaðlegur vegna þess, að þannig er haldið á málum. Úr því að farið er inn á þá braut, sem ég taldi ekki ástæðu til á þeim tíma, sem það var gert, tel ég rétt og æskilegt, að þessu starfi verði brátt lokið. Mælist ég til þess við hæstv. ríkisstj., að hún stuðli að því, að aðstæður þeirra verði bættar og létt af þeim öðrum störfum, svo að þeim vinnist betri tími til að vinna að rannsókn þessa máls.

Hins vegar stendur svo á um þetta mál, að vel er búið í haginn fyrir slíka rannsókn með verkum dr. Jóns Dúasonar á þessu sviði. Ætla ég, að þar sé búið að draga saman í eitt öll gögn, sem að gagni geta komið í þessu sambandi. Tel ég nú mun auðveldara að rannsaka þetta mál ofan í kjölinn en ef það hefði átt að ganga að því verki án þess að svo hefði verið búið í haginn.

Vil ég nú mælast til þess við hæstv. ríkisstj., að hún stuðli að því, að þessir menn geti lokið starfinu á næsta ári. Einnig þætti mér gott að heyra, hvort hæstv. dómsmrh. getur ekki líka stuðlað að, að svo geti orðið. Annars sé ég mig knúinn til að leita til hæstv. Alþingi, um að reyna að fá um þetta ályktun, svo að þetta mál dragist ekki óeðlilega á langinn.