07.02.1951
Sameinað þing: 39. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í D-deild Alþingistíðinda. (4405)

162. mál, fiskideild hlutatryggingasjóðs bátaútvegsins

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Út af fyrirspurn á þskj. 554 og ræðu hv. 1. fyrirspyrjanda skal ég leyfa mér að lesa upp bréf það, sem formaður hlutatryggingasjóðs hefur skrifað mér í tilefni af því bréfi, sem atvmrn. sendi honum út af þessari fyrirspurn. Efnislega hljóðar það þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Frá því að lokið var að semja reglugerð fyrir síldveiðideild sjóðsins og annað í því sambandi, hefur verið unnið að undirbúningi reglugerðar hinnar almennu fiskideildar. Því verki er þó enn ekki lokið, og gera má ráð fyrir, að því verði ekki lokið fyrr en undir lok marzmánaðar. Valda því ýmsir ófyrirséðir erfiðleikar. Varðandi upplýsingar um tekjur hinnar almennu fiskideildar til 31. des. 1950 vísast til bréfs fjmrn. til atvmrn. í dag.

Virðingarfyllst, Davíð Ólafsson.“

Sjálfur hef ég ekki öðru við þetta að bæta en því, að eins og hv. flm. fyrirspurnarinnar er kunnugt og ég hygg, að ég hafi vakið athygli á í umr. þeim, sem fram fóru um það mál, sem hv. 1. flm. minntist á, þá er mjög örðugt að semja þessa reglugerð, svo að fullkomið réttlæti ríki. Það þarf að yfirvega mismunandi sjónarmið, og ég veit, að þeir menn, sem þar eru að verki, hafa ríka tilhneigingu til þess að ganga þannig frá málinu, að a. m. k. verði litið svo á, að þeir hafi bæði reynt að þjóna rödd sinnar samvizku og einnig að verulegu leyti tekizt það. En eins og ég sagði, þá er þetta vandamál, og ég hygg, að það verði allir sammála um það, að það sé skaðminna, þótt nokkurra vikna dráttur verði á þessu, heldur en ef höndum er kastað til samningar reglugerðarinnar.

Varðandi síðari lið fyrirspurnarinnar vil ég svo leyfa mér að lesa upp bréf það, sem fjmrn. hefur sent atvmrn. 30. jan. Það hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Út af fyrirspurn yðar um tekjur hinnar almennu fiskideildar til 31. des. 1950 tilkynnist hér með eftirfarandi: Ráðuneytið getur ekki gefið fullnægjandi upplýsingar um tekjur hlutatryggingasjóðs umrætt tímabil, sökum þess að endanleg reikningsskil hafa ekki borizt frá nokkrum innheimtumönnum. Hins vegar hefur ráðuneytið greitt í fiskideild hlutatryggingasjóðs:

Af innheimtum tekjum fyrri ára

kr. 1201862.22

Og sem framlag ríkissjóðs .

— 1200000.00

Samtals kr. 2401862.22”

Ég vænti þess, að hv. flm. telji þessar upplýsingar eftir atvíkum fullnægjandi.