07.02.1951
Sameinað þing: 39. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 361 í D-deild Alþingistíðinda. (4407)

162. mál, fiskideild hlutatryggingasjóðs bátaútvegsins

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að vekja athygli á því, að l. um hlutatryggingasjóð bátaútvegsins voru staðfest 25. maí 1949, þannig að það er liðið hátt á annað ár síðan l. komu. Það virðist því svo, að þeir aðilar, sem áttu að vinna að því að semja þessa reglugerð, hafi haft nokkurn tíma til þess að afla gagna í þessu sambandi, og ég tel tæplega viðunandi, að reglugerðin skuli ekki enn vera gerð. Það er hins vegar rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að þetta er vandaverk.

Samkvæmt þeim upplýsingum, sem hæstv. ráðh. gaf, þá virtist svo sem hinni almennu fiskideild hafi verið greiddar á árinu 1949 2.4 millj. kr. fyrir utan stofnféð, þar sem framlag ríkissjóðs er 1.2 millj. kr. Þetta virðist vera komið inn í almennu fiskideildina á árinu 1950. Þar við bætist stofnframlag til hlutatryggingasjóðs 5 millj. kr.; þar af ætti fiskideildin að hafa fengið 2½ millj. kr. Fiskideildin virðist því hafa fé til þess að starfa, og stendur þá ekki á öðru en að þessi reglugerð sé samin.