07.02.1951
Sameinað þing: 39. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 361 í D-deild Alþingistíðinda. (4408)

162. mál, fiskideild hlutatryggingasjóðs bátaútvegsins

Finnur Jónsson:

Það er að heyra, að bráðum sé von á reglugerð fyrir fiskideild hlutatryggingasjóðs, og eins, að það muni verða mjög vandað til þeirrar reglugerðar. En í þessu sambandi væri gott að fá upplýsingar hjá hæstv. ráðh. um það, hvort hann beri ekki neinn kvíðboga fyrir því, að þessi sjóður muni hrökkva nokkuð skammt til uppbóta. Það er kunnugt, að stofnfé síldveiðideildar aflatryggingasjóðs mun ekki hrökkva líkt því til þess að inna af hendi þær greiðslur, sem reglugerðin ætlast til. Það er líka kunnugt, að það hefur verið nokkur aflabrestur á þorskveiðum bæði austanlands og norðan, enn fremur, að það hefur verið alger aflabrestur á Vestfjörðum á s. l. haustvertíð, og sömuleiðis, að það er aflabrestur þar nú, svo að það liggur við, að útgerð muni þar algerlega stöðvast. Þess vegna vildi ég óska eftir því, ef hæstv. ráðh. er undir það búinn, að hann gæfi nokkrar upplýsingar um það, hvort líkur muni vera fyrir því, ef gefin verður út reglugerð um þorskveiðideildina, að niðurstaðan verði sú sama og um síldveiðideildina, að hún þurfi að éta upp allan höfuðstól aflatryggingasjóðs, án þess að nokkuð komi í staðinn. Það er kunnugt, að fyrir þessari hv. d. liggur frv., flutt af tveim þm., um að auka allverulega tekjur aflatryggingasjóðs, en þetta frv. hefur verið tekið af dagskrá í Nd. líklega 10–20 sinnum. Væri gott að vita, hvort hæstv. ríkisstj. mundi mæla með því, að tekjur aflatryggingasjóðs yrðu auknar á þann hátt, sem mælt er fyrir í því frv., eða hvort hún hefði einhverjar aðrar till. í því efni, því að núverandi ástand með þennan sjóð virðist vera óviðunandi.