09.02.1951
Sameinað þing: 40. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í D-deild Alþingistíðinda. (4413)

169. mál, náttúrufriðun, verndun sögustaða o.fl.

Fyrirspyrjandi (Páll Þorsteinsson) :

Herra forseti. Fyrir nokkrum dögum var um það rætt hér á hæstv. Alþ., að íslenzk tunga væri arfur, sem íslenzku þjóðinni bæri að varðveita sem allra bezt. Þetta er vissulega rétt. En ef meta á arf íslenzku þjóðarinnar, þá hygg ég, að landið sjálft, sem fóstrað hefur þjóðina, frá því að hún varð til, komi næst á eftir tungunni. Saga þjóðarinnar er svo samtvinnuð landinu, að þetta tvennt verður trauðla aðskilið. „Eitt er landið, ein vor þjóð, auðnan sama beggja.“ Þegar á þetta er litið, virðist það ekki að ófyrirsynju, þótt löggjafarvaldið hlutist til um það með löggjöf, að staðir, sem eru sérstaklega merkir af sögu sinni eða náttúru, njóti verndar fyrir jarðraski. Oftar en einu sinni hefur því verið hreyft á Alþ. undanfarin ár, að nauðsyn beri til að setja sérstaka löggjöf um náttúruvernd. Í febrúar 1949 var samþ. í sameinuðu þingi svo hljóðandi ályktun: „Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta undirbúa löggjöf um verndun staða, sem eru sérstaklega merkir af náttúru sinni eða sögu.“ Í sambandi við þetta mál kom það fram í nál. hjá þingnefnd, sem um málið fjallaði, að þá þegar á öndverðu árinu 1949 var hafinn undirbúningur og n. skipuð til að endurskoða gildandi löggjöf um friðun fugla og eggja samkvæmt þátttöku Íslands í alþjóðasambandi um fuglavernd. Síðan þetta var samþ. hér á Alþ. eru liðin nærfellt 2 ár, og þing það, sem nú situr, mun væntanlega ljúka störfum áður en langt líður, en enn hefur ekkert komið fram frá ríkisstj. um þessi mál, sem hér um ræðir. Út af þessu hef ég leyft mér, ásamt hv. þm. V-Sk., að bera fram fyrirspurn um þetta efni, sem prentuð er á þskj. 591.