09.02.1951
Sameinað þing: 40. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 363 í D-deild Alþingistíðinda. (4414)

169. mál, náttúrufriðun, verndun sögustaða o.fl.

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Þann 25. febr. 1949 var samþ. till. á Alþ. um undirbúning löggjafar um náttúrufriðun og verndun sögustaða. 11. nóv. sama ár var forstöðumanni náttúrugripasafnsins falið að gera lagafrv. um þessi efni. 22. sept. 1950 ritaði ráðuneytið forstöðumanni náttúrugripasafnsins á ný og óskaði þess, að málinu yrði hraðað, svo að það gæti komið fyrir það Alþ., sem þá átti að koma saman. Ríkisstj. hefur ekki borizt þetta frv. enn þá þrátt fyrir þessa ítrekun, og telur dr. Finnur Guðmundsson, að því valdi fjarvera dr. Sigurðar Þórarinssonar, sem dvalið hefur í Svíþjóð frá því á s. l. hausti. Þetta er að því er varðar fyrri fyrirspurnina um undirbúning löggjafar um verndun staða, sem eru sérstaklega merkir af náttúru sinni eða sögu. Ég vil taka það fram, að rn. mun ganga eftir því, að þetta verði gert, og fá þeim hindrunum rutt úr vegi, sem því eru til fyrirstöðu, að þeir menn, sem bezta þekkingu hafa á þessum málum, gangi frá frv., sem hér um ræðir.

Að því er varðar síðari fyrirspurnina, um endurskoðun laga nr. 59 1913, um friðun fugla og eggja, þá fól menntmrn. 29. apríl 1948 nefnd manna undir forustu dr. Finns Guðmundssonar að endurskoða gildandi ákvæði um friðun fugla og eggja og lagði fyrir hana að skila til rn. till. í frumvarpsformi svo snemma, að unnt væri að leggja málið fyrir Alþ. haustið 1948. Síðan hefur rn. rekið á eftir málinu, síðast bréflega 6. marz 1950, þar sem n. er falið að skila frv, svo snemma, að það þing, sem nú situr, geti um það fjallað. Samkvæmt upplýsingum dr. Finns Guðmundssonar munu till. um þetta væntanlegar í lok þessa mánaðar.