07.02.1951
Sameinað þing: 39. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 364 í D-deild Alþingistíðinda. (4418)

908. mál, Metzner og aðstoðarmaður hans

Fyrirspyrjandi (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Þann 25. jan. 1949 var uppi fótur og fit hér á hæstv. Alþ. Þá var borið fram, á þskj. 284, frv. til l. um veitingu ríkisborgararéttar, flutt í Ed. þingsins af allshn. Þar er frv. þetta afgr. á þeim sama degi, og einnig í Nd. er það afgr. sem lög þann dag. Með þeim l. var tveim þýzkum mönnum ásamt konum þeirra og börnum, samtals 7 manns, veittur hér ríkisborgararéttur. Stutt grg. fylgdi þessu frv. frá allshn. Ed., sem ég vil leyfa mér að lesa, með leyfi hæstv. forseta. Hún hljóðar svo:

„Frv. þetta er flutt samkvæmt ósk fjármálaráðherra, og fylgdu því svo hljóðandi athugasemdir: Dr. Herbert Metzner er vel þekktur vísindamaður á sviði fiskiðnaðarins og hefur tekizt á hendur, ef hann fær til þess starfsskilyrði, að aðstoða íslenzk stjórnarvöld og einstaklinga í öllum málum, er snerta fiskiðnað vorn, þegar þess yrði óskað. Til þess að hægt verði að hafa hans full not í þessu efni, er talið nauðsynlegt að veita honum ríkisborgararétt ásamt aðstoðarmanni hans og fjölskyldum þeirra.“

Þegar þetta var, þá var Alþ. nýlega komið saman til framhaldsfunda eftir hlé um jól og áramót. Ég var ekki kominn til þings þann dag og fylgdist því ekki með umr. um þetta mál og tók ekki þátt í afgreiðslu þess, en ég hef kynnt mér nokkuð í þingtíðindum það, sem sagt var um frv. og afgreiðslu þess, eins og hún var frá þinginu, og með leyfi hæstv. forseta vil ég lesa upp nokkra kafla úr ræðu þáverandi fjmrh., en eins og áður er getið, þá er mál þetta flutt í þinginu eftir hans beiðni. Segir svo meðal annars í ræðu þáverandi fjmrh., með leyfi forseta:

„Ástæða þess, að dr. K. M. H. Metzner sé veittur ríkisborgararéttur, er sú, að ég hef öðlazt þá sannfæringu, að geti maður þessi óhindraður flutt sig, starfsemi sína og þekkingu til landsins, þá muni það verða fiskiðnaðinum í landinu sérstaklega til mikils framdráttar.“ Síðar: „Dr. Karl Metzner er mjög vel þekktur vísindamaður, og meðmæli Háskóla Íslands liggja fyrir til þess, að hann fái þau borgararéttindi, að hann geti starfað hérlendis. En ástæðan fyrir því, að þörf er á að hraða þessu, er sú, að hann þarf að fara utan fljótlega varðandi eignauppgjör og önnur fjármálefni sín og telur sig eigi geta horfið aftur til landsins, nema þetta form verði haft á. Ég endurtek það, að afskipti mín af þessu máli byggjast á þeirri sannfæringu minni, að við höfum þörf fyrir hæfileika dr. Karl Metzner og þekkingu, og í öðru lagi, að hér sé um valinkunnan mann að ræða, er reynast muni vel, og þjóðin komi til með að njóta góðs af hæfileikum hans.“ Síðan talar ráðh. um aðstoðamann dr. Metzners og segir um hann: „ ... sem mér er tjáð, að dr. Metzner hafi sagt, að væri sér ómissandi.“ Að lokum leggur ráðh. áherzlu á fullnaðarafgreiðslu málsins þá þegar, því að engan tíma megi missa.

Frv. var vísað til 2. umr. með 9 shlj. atkv., sama dag á öðrum fundi afgr. til 3. umr. með 9 shlj. atkv. og enn tekið til 3. umr. á nýjum fundi í Ed. og samþ., að viðhöfðu nafnakalli, með 9 shlj. atkv. 2 greiddu ekki atkv. og 6 þm. voru fjarverandi. — Sama dag var frv. tekið fyrir á fundi í Nd. með afbrigðum. Þáv. fjmrh. hafði framsögu í málinu. Segir hann þá meðal annars :

„Dr. Metzner hefur látið svo um mælt, að hann vilji flytja hingað til Íslands og vinna hér að íslenzkum hagsmunum, ef hann fengi íslenzkan ríkisborgararétt.“ Síðar: „Þessi maður er, eftir því sem hann sjálfur segir, talsvert efnaður, og hefur hann farið fram á, að hann fengi að flytja eigur sínar hingað til landsins, en það er annað atriði.“ Og enn segir ráðherra: „Loks liggur fyrir skrifleg og vottfest yfirlýsing frá dr. Metzner um það, að ef hann fengi ríkisborgararétt hér, skuldbindi hann sig til þess að hafa aðsetur hér á landi að minnsta kosti í 5 næstu ár, og sömuleiðis, að hann sé reiðubúinn, ef þess er óskað, að gerast ráðunautur íslenzku ríkisstj. í fiskiðnaðarmálum.“ Biður hann svo um afgreiðslu málsins að fullu þann sama dag.

Frv. var vísað til 2. umr. með 20 shlj. atkv., tekið til 2. umr. á nýjum fundi, strax að hinum loknum, og afgr. til 3. umr. með 19 shlj. atkv., umræðulaust, og strax á eftir tekið til 3. umr. á nýjum fundi og afgr. umræðulaust sem lög frá Alþingi með 19 shlj. atkv.

Af þessu, sem ég hef lesið, má draga þá ályktun, að hv. þm. hafi haldið, að þessir menn mundu flytja til Íslands. En nú hefur ekki orðið vart við þá hér að undanförnu, og leyfi ég mér því að bera fram þessa fyrirspurn.