07.02.1951
Sameinað þing: 39. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 368 í D-deild Alþingistíðinda. (4425)

909. mál, vínveitingaleyfi lögreglustjórans í Reykjavík

Fyrirspyrjandi (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Viðvíkjandi þessari fyrirspurn um vínveitingaleyfi lögreglustjórans í Reykjavík vil ég, með leyfi forseta, lesa upp 2. mgr. 17. gr. laga nr. 33 frá 9. jan. 1935:

„Ekkert félag manna má hafa um hönd í félagsskap áfengisveitingar né heldur má áfengisnautn fara fram í félagsherbergjum, hvort sem þau eru í húsi félagsins eða annarra, nema leyfi lögreglustjóra komi til.“

Um sölu og veitingu áfengis er til reglugerð nr. 126 frá 7. ágúst 1945, og vil ég þessu næst, með leyfi forseta, lesa upp 16. gr. þessarar reglugerðar. Hún hljóðar svo:

„Lögreglustjórar geta ekki neytt heimildar þeirrar til að leyfa, að áfengi sé um hönd haft í félagsskap, sem um ræðir í 17. gr. 2. mgr. áfengislaganna, nema í veizlum, samsætum og öðrum slíkum samkvæmum, þar sem sýnt er, að félagsskapurinn í heild eða einstakir þátttakendur í honum hafa ekki fjárhagslegan hagnað af. Slík leyfi má ekki veita skemmtifélögum.

Ekki má heldur veita slík leyfi til vínnautnar í samkvæmum, sem haldin eru á veitingastöðum, ef ætla má, að til þeirra sé stofnað í tekjuskyni fyrir veitingahúsið.

Leyfi samkvæmt 17. gr. 2. mgr. áfengislaganna skulu vera skrifleg, og skal þess getið í þeim, hvert tilefni leyfisins sé og hvar samkvæmið verði haldið. Samrit af leyfinu skal hlutaðeigandi lögreglustjóri tafarlaust senda til fjármálaráðuneytisins.“

Síðan á næstliðnu hausti hefur mikið verið rætt og ritað um vínveitingaleyfi. Meðal annars hefur áfengisvarnanefndin kvartað yfir framkvæmd þessara mála. Hef ég kynnt mér málið, og virðist mér, að um brot á fyrirmælum reglugerðarinnar sé að ræða.

Lögreglustjóri hefur veitt mörgum félögum, m. a. íþróttafélögum o. fl., vínveitingaleyfi. Tala vínveitingaleyfa í janúar er eitthvað í kringum 100, og ég hef fengið þær upplýsingar, að frá 6. des. 1950 til 7. jan. 1951 hafi íþróttafélögin í Reykjavík fengið samtals 26 vínveitingaleyfi. En frá 8. jan. til 31. jan. s. l. hafa 5 íþróttafélög fengið samtals 24 slík leyfi. Þessi félög halda síðan samkomur í samkomuhúsum bæjarins, og hver sem þangað kemur getur fengið keypt áfengi, og rennur þá ágóðinn annaðhvort til veitingahúsanna eða félaganna. Er ljóst, að slíkt er ekki í samræmi við þessar lagasetningar, sem ég las. Einnig má geta þess, að skemmtifélög, t. d. Bláa stjarnan, hafa fengið vínveitingaleyfi, þótt beinlínis sé tekið fram í reglugerðinni, að slík leyfi má ekki veita skemmtifélögum.

Óska ég að fá vitneskju um ráðstafanir hæstv. dómsmrh. til þess að fyrirmælunum verði framfylgt og hvort hann hefur falið dómstólum rannsókn málsins.