07.02.1951
Sameinað þing: 39. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 377 í D-deild Alþingistíðinda. (4431)

909. mál, vínveitingaleyfi lögreglustjórans í Reykjavík

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Það er í tilefni af nokkrum ummælum hv. þm. Ísaf., að ég tek til máls.

Út af afgreiðslu allshn. á erindi frá stjórnarráðinu, sem nefndinni barst í des. s. l. viðvíkjandi bréfi, er ráðuneytinu hafði borizt frá flugmálastjórninni, dags. í nóv., þá vil ég leyfa mér að lesa upp svar n., svo að það liggi ljóst fyrir. Bréfið hljóðar svo:

„Nefndin hefur meðtekið heiðrað bréf hins háa ráðuneytis frá 5. des. f. á. varðandi tilmæli flugvallastjóra frá 11. nóv., en þar er farið fram á, að leyft verði að selja erlendum flugfarþegum, er fara um Keflavíkurflugvöll, áfengi til hressingar, eins og tíðkast alls staðar annars staðar.

Meiri hluti nefndarinnar (5 af 7) telur eðlilegt, að slík áfengissala verði leyfð með þeim takmörkunum, sem um getur í bréfi flugvallastjóra, en leggur engan dóm á það, hvort þetta sé heimilt eftir núgildandi lögum.

2 nefndarmenn greiddu atkvæði á móti framangreindri afgreiðslu, annar á þeim grundvelli, að lagaheimild vantaði.

Þetta viljum vér hér með tilkynna hinu háa ráðuneyti.“

Eins og fram kemur í þessu bréfi, þá eru 5 nefndarmenn þeirrar skoðunar, að rétt sé, þegar heimild sé til staðar, að leyfð verði áfengissala á hóteli flugvallarins til erlendra ferðamanna, eins og flugvallastjórinn fór fram á.

Það munu þykja undarlegir þjóðarhættir í landi, þar sem allt flóir í áfengi og ríkið rekur áfengissölu, að þar skuli vera óheimilt að selja erlendum ferðamönnum glas af áfengi sér til hressingar. Meðan stunduð er hér áfengissala, þá hygg ég, að eðlilegt væri, að þessum mönnum, sem eru vanir öðru hátterni í þessum málum heima hjá sér, væri heimilt að fá áfengi keypt. En það er ekki hægt að ætlast til þess, að allshn. eða einstakir þm. fari að flytja frv., sem heimili slíka áfengisveitingu, ef sú heimild er ekki til staðar. En rn. mun hafa fengið álit þessarar n. um, hvernig hún liti á þetta mál viðvíkjandi vínveitingaleyfum til samkomuhúsa. Og ég hygg, að það sé lítil ástæða fyrir hv. þm. Ísaf. að átelja meiri hl. n. fyrir eitthvert ósæmilegt framferði, þó að n. hafi svarað þessu eins og hún hefur gert. Ég veit ekki, hvort hreinleikinn í slíku svari er meiri en hjá meiri hl. n.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða um þetta frekar, en ég ætla, að það væri sæmilegra, eins og ástatt er um þessi mál, að heimildar væri aflað fyrir því, að hægt væri að veita útlendum mönnum, sem um nætursakir gista á Keflavíkurflugvelli, áfengi, ef þeir óska eftir því að fá slíkt keypt.