07.02.1951
Sameinað þing: 39. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í D-deild Alþingistíðinda. (4435)

909. mál, vínveitingaleyfi lögreglustjórans í Reykjavík

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Það má vel vera rétt hjá hæstv. dómsmrh. og ég skal ekki rengja það, að það muni hafa verið einhver dæmi þess frá eldri tímum, að leyfi hafi verið veitt til vínveitinga, þar sem seldur hefur verið aðgangur. Þó hygg ég, að það hafi verið fyrst á seinni tímum, sem þetta hefur komizt á. Það var algengt að halda átthagaskemmtanir, þannig að félög héldu árshátíðir og fengu þá leyfi fyrir vínveitingum. Og sjálfsagt hafa inn á þessar skemmtanir slæðzt ýmsir menn, sem ef til vill hafa ekki átt fæðingarhrepp í átthögum þess félags, sem skemmtunina hélt, en almenna reglan var sú, að það voru ekki leyfðar vínveitingar á almennum dansskemmtunum, nema þá í einhverju öðru formi, eins og t. d. því, sem ég nefndi. Það má vera, að þetta sé ekki ákaflega óskylt, en þó hefur þetta orðið til þess að auka mikið vínneyzlu í samkvæmum í bænum. Nú er að sjálfsögðu rétt, að það kemur fyrir, að það séu nokkrar óeirðir, þó að jafnvel sé ekki leyfð vínsala á skemmtunum, og koma menn þá með pelann í vasanum. En ég hygg þó, að algengara sé, að menn séu reglusamir þar, sem vín er ekki veitt, heldur en þar, sem vín er veitt. Ég hef verið á skemmtunum í hinum ágætu veitingahúsum, bæði þar, sem vín var veitt og menn gerðust nokkuð góðglaðir, þegar leið á kvöldið, og einnig þar, sem vín var ekki veitt og ekki sá vín á nokkrum manni allt kvöldið. — En mér finnst, að á meðan verið er að athuga þetta mál, þá væri æskilegt, að reynt væri að draga sem mest úr þessum vínveitingum og koma því í það form, sem meinlausara er en það, sem nú er.

Hv. 1. þm. Árn. vék sér hvatskeytlega að mér út af þeim ummælum, sem ég hafði um meiri hl. allshn. fyrir það, þegar allshn. er spurð að því, hvort hún teldi rétt að veita vín til útlendinga, sem koma á Keflavíkurflugvöll. Þá mæltu aðeins 5 af 7 nm. með því. Ég fyrir mitt leyti taldi, að þingn. ætti ekki að senda hæstv. ríkisstj. slíka umsögn, þegar af þeirri ástæðu, að til þess brysti lagaheimild. Svo fer þessi ágæti og margreyndi þm. að skýra það fyrir Alþ., að þingn. eigi í einhverju máli að telja sér rétt að gefa ríkisstj. undir fótinn (JörB: Um að afla sér heimildar.) — um það er ekkert í umsögninni — um að hafa vínsölu, án þess að til þess sé lagaheimild.