07.02.1951
Sameinað þing: 39. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í D-deild Alþingistíðinda. (4436)

909. mál, vínveitingaleyfi lögreglustjórans í Reykjavík

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Að gefnu tilefni hv. 1. þm. N-M. vil ég segja það, að hann virtist skilja orð mín svo, að ég teldi það réttlátt að fylgja ekki lögum og reglum. Það kom nokkuð sérstakur skilningur fram hjá öðrum hv. þm. um þetta. En ég vil undirstrika það, sem ég hélt fram í minni ræðu, að það hvíldi meiri skylda á hv. þm. en öðrum, ef lög og reglur að þeirra dómi væru ranglát, að fá þeim breytt og leiðrétta þær reglur, — því að það er á þeirra valdi að gera það, — heldur en að láta vera, að framkvæmd séu l., sem þeir álíta að séu ranglát. — En út af því, sem hv. 6. landsk. þm. sagði, að ég talaði í þessu máli frá sjónarmiði eins veitingahúss, þá er það tilefnislaus framsetning hjá honum. Og það er síður ástæða til þess, að þeir menn geti talað um þessi mál, sem ekki hafa um veitingamálin fjallað, því að í þessu máli liggja menn undir því, að reynt er að gera þá tortryggilega. En ég hef áður bent á, að af fenginni reynslu í Sjálfstæðishúsinu er vafasamt, hvort það sé nú til bóta að afnema algerlega vínveitingarnar. Og það hefur ekki verið vísasta leiðin til þess að halda þar góðar samkomur, að banna þar vínveitingar með öllu. En þó hefur Sjálfstæðishúsið átt viðskipti við skóla og ýmis félög, án þess að hafðar væru vínveitingar um hönd, t. d. nær alla framhaldsskólana, og hafa þær skemmtanir verið góðar. Og ég vil taka það fram í þessu sambandi, að framhaldsskólarnir hafa ekki haft áfengi um hönd á árshátíðum sínum. En svo er það á öðrum samkomum, þar sem vínveitingar eru ekki leyfðar, að ástandið er þannig, að þeim, sem því hafa kynnzt, hrýs hugur við því, að leiðin út úr ógöngunum sé einungis sú að taka fyrir allar vínveitingar. En ég ætla ekki að nefna nein nöfn í þessu sambandi. En þetta er reynslan, bæði í Sjálfstæðishúsinu og annars staðar.

Í sambandi við endurskoðunina á þessu máli vil ég beina því til þeirra, sem að henni munu vinna, — og það sama kom líka fram hjá hv. þm. Ísaf., — að þeir kynni sér, hvað það er í raun og veru, sem leitt hefur íþróttafélögin út á þá braut að hafa vínveitingar um hönd á sínum skemmtunum, en það eru hinir háu skemmtanaskattar. Stúkan borgar ekki skatt af sínum samkomum, og ég mundi gjarnan vilja fá upplýst, hvað þessir aðilar hafa hagnazt, án þess að borga veitingaskatt og án þess að borga skemmtanaskatt, og hvað þeir hefðu hagnazt ef þeir hefðu borgað hina háu skatta, eins og heimtað er af íþróttafélögunum, að þau geri.

Ég tek undir það, að það er óæskilegt, að íþróttafélög hafa horfið að þessu ráði, en vil þó segja það, að þau hafa margt sér til afsökunar.