07.02.1951
Sameinað þing: 39. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 384 í D-deild Alþingistíðinda. (4438)

909. mál, vínveitingaleyfi lögreglustjórans í Reykjavík

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Út af ræðu hv. 2. þm. N-M. vil ég benda á, að mér virðist þetta mál, sem ég gerði að umræðuefni hér áðan, snerta meginkjarna þessa máls. Það lágu rök fyrir því, er þetta var rætt í nefndinni, að það mundi minnka sölu hjá áfengisverzluninni, og því þótti ekki rétt að afnema þennan afslátt. Þetta var ekki byggt á þeim rökum, að Hótel Borg ætti að græða, heldur á því, að það mundi draga úr áfengissölunni. Ég þarf ekki að svara hv. þm., hver tilgangur hv. þm. V-Húnv. hafi verið með þessari fyrirspurn sinni. Það sýndi hann bezt með sinni síðari ræðu. En tilgangur hans var einungis að klekkja á pólitískum andstæðingum, og það var meginatriðið í ræðu hans, en ekki til þess að draga úr víndrykkjunni. Þess vegna var þessi málsmeðferð hans honum til hins mesta ósóma og fyllilega vert að svara ræðu hans með fáeinum aths.

Annars er það sjáanlegt, að það er á valdi fjmrh. að stöðva innflutninginn á áfengi til landsins, og hann getur að óbreyttum lögum hvenær sem er stöðvað söluna á áfengi til hverra sem vera skal. En það er ekki þar með sagt, að víst sé, að hann vilji taka á sig þessa ábyrgð — með tilliti til tekjuöflunar í ríkissjóð.