07.02.1951
Sameinað þing: 39. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 388 í D-deild Alþingistíðinda. (4445)

910. mál, greiðsla á erfðafjárskatti með skuldabréfum

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Það væri þörf á því vegna hv. þm. V-Húnv., að þingsköpum yrði breytt þannig, að það væri leyfilegt að bera fram fyrirspurnir beint til þm., ef þeir hafa verið ráðherrar einhvern tíma. Hann kvartaði yfir því áðan, að honum hefði ekki verið leyfilegt að svara mér, er ég stóð upp áðan, og þykir mér það leitt.

Hv. þm. hefur nú heyrt greinargerðina fyrir því, hvers vegna þessir skattar voru inntir af hendi í bréfum. Búið átti að greiða 214555 kr., en hafði ekki í reiðufé nema 112705 kr.

Ég er ekki viss um, hvernig þetta mál hefði farið fyrir dómstólunum, en þetta fé fékkst án íhlutunar dómstólanna með því að taka um 100 þús. kr. í verðbréfum, og ég vil geta þess í sambandi við það, að þm. sagði, að þetta væru löng lán, að það er ekki rétt, því að þetta eru 10 ára lán í útvöldum húseignum hér í bæ, og engin hætta á því, að féð tapist.

Erfðafjárskattur þetta ár varð miklu meiri en áætlað var í fjárlögunum, svo að sýnilegt er, að ekkert hefur tapazt við þetta. Ég viðurkenni það, að ég hlustaði á till. skrifstofustjóra rn., því að þetta er tiltölulega lítið útfærsluatriði, heldur frekar aðallega administrativt mál. Við vitum, að til þess er ætlazt, að reikningar ríkisins séu réttir, og til þess eru yfirskoðarar ríkisreikninganna kosnir, að þeir leiti eftir villum og finni að skekkjum í þeim. En ég veit ekki til, að það hafi verið talið neitt ráðleysi af þessum yfirskoðunarmönnum, að ég tók tæpan helming þessa erfðafjárskatts í skuldabréfum.

En hv. þm. V-Húnv. virðist hafa verið að hnusa eftir einhverju, sem hann gæti fundið að. Annars virðist þessi hv. þm. hafa gengið með einhverja siðferðisuppþembu síðan um jól. Virðist svo sem honum hafi orðið nokkuð bumbult af veitingum síns ágæta gestgjafa um jólin. Ég vona bara, að hann hafi með þessum spurningum getað losnað við eitthvað af þeim vindstreng, sem hann hefur gengið með síðan.