28.02.1951
Sameinað þing: 48. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 389 í D-deild Alþingistíðinda. (4450)

186. mál, launaflokkun opinberra starfsmanna o.fl.

Fyrirspyrjandi (Hannibal Valdimarsson) :

Herra forseti. Já, fsp. er í 3 liðum, en nú tilkynnir hæstv. forseti, að 2. liðurinn sé til umr., en ekki 1, og 3. Skil ég það ekki rétt? (Forseti: Já, það þurfa tveir ráðh. að svara þessari fsp., og er aðeins 2. liðurinn til umræðu nú.) Já, þessi 2. liður fsp. lýtur að því, hvort ákvæðum 36. gr. launal. hafi verið framfylgt hjá öllum ríkisstofnunum að því er opinbera starfsmenn snertir, því að lagagr., sem til er vitnað, gildir um alla opinbera starfsmenn ríkisins. — Fsp. sjálf er nægilega skýr, og þarf ég ekki að fjölyrða um hana, fyrr en þá ráðh. hefur gefið sitt svar, en lagagr. er tvímælalaus, svo hljóðandi:

„Við skipun í starfsflokka og flutning milli launaflokka skulu konur að öðru jöfnu hafa sama rétt og karlar.“

Ýmislegt, sem maður hefur heyrt, virðist benda í þá átt, að þessi ákvæði hafi ekki verið í heiðri höfð.