28.02.1951
Sameinað þing: 48. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 389 í D-deild Alþingistíðinda. (4453)

186. mál, launaflokkun opinberra starfsmanna o.fl.

Viðskmrh. (Björn Ólafsson) :

Herra forseti. Hér er um þrjár fsp. að ræða, sem raunar ættu allar að vera í samhengi, og hefur hæstv. fjmrh. svarað tveimur þeirra. En að því er snertir fyrstu spurninguna, um það, hvaða reglur gildi hjá landssímanum um færslu milli launaflokka, þá er því til að svara, að yfirleitt er farið eftir þjónustualdri. En þegar valið er í hæstu stöður hjá pósti og síma, er ekki farið eftir starfsaldri eingöngu, heldur fyrst og fremst eftir hæfni, og ráða þá mestu um tillögur hlutaðeigandi deildarstjóra, og gildir þetta jafnt um konur sem karla. Annars ræður þjónustualdur og hvaða störfum starfsmaðurinn hefur gegnt. Þegar hins vegar velja skal nýjan starfsmann, er starfið auglýst, og er þá venjulega farið eftir því, hvernig hann reynist í starfinu, nema starfið fái annar starfsmaður, sem reyndur er í sams konar eða svipuðu starfi. Er alltaf reynt að velja sem bezta og hæfasta starfsmenn, svo að starf þeirra komi að sem mestu gagni fyrir stofnunina.

Skilst mér þá, að öllum þessum þremur spurningum hafi verið svarað, þar sem búið var að svara hinum áður.