08.01.1951
Sameinað þing: 29. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í D-deild Alþingistíðinda. (4456)

131. mál, viðbúnaður vegna ófriðarhættu

Flm. (Kristín Sigurðardóttir) :

Herra forseti. Það ætti að vera óþarft að fara mörgum orðum um þetta mál. Sú staðreynd er öllum ljós, að mikil ófriðarhætta grúfir nú yfir heiminum öllum, og þá engu síður yfir okkar landi. Og þó að menn vilji halda sem lengst í þá von, að takast megi að afstýra þeirri hættu og því ólýsanlegu böli, sem slíkur ófriður mundi leiða yfir mannkynið, þá er þessi geigvænlegi möguleiki eigi að síður fyrir hendi. Um þetta ræður okkar þjóð engu, og það er ekki á hennar valdi að afstýra ófriðarhættunni eða árás á land okkar. Það eina, sem við getum gert og ber að gera, er að búa okkur undir að vera fær um að mæta þessu böli með því að gera sjálfsagðar ráðstafanir til öryggis, og þá fyrst og fremst að tryggja það, að til séu í landinu nægar birgðir af lyfjum og hjúkrunargögnum og í annan stað af matvörum, sem nauðsynlegastar eru. Um hjúkrunarvörur er mér tjáð, að af þeim séu hverfandi litlar birgðir í landinu, og hvað matvörurnar snertir, þá nægir að vísa til þess, sem skömmtunarstjóri sagði um það mál í viðtali fyrir nokkru, að ef skipi seinkar, þótt ekki sé nema um nokkra daga, þá geti horft til stórvandræða.

Sýnilegt er hverjum manni, að við svo búið megum við ekki láta standa. Hættan, sem yfir vofir, er geigvænleg. Í öllum löndum er nú vígbúizt af kappi, og viðhorfin í alþjóðamálum eru ekki dregin björtum litum í ræðum forustumanna, sem þeim eru kunnugastir. Þannig mælti t. d. fulltrúi okkar hjá Sameinuðu þjóðunum, Thor Thors sendiherra, svo í ræðu 1. des., er síðan var birt á prenti — með leyfi hæstv. forseta: „Ástandið í alþjóðamálum hefur aldrei á friðartímum verið eins ískyggilegt og geigvænlegt og nú. Þetta verður íslenzka þjóðin að gera sér ljóst. Ekkert má lengur koma okkur að óvörum.“ Síðan þetta var talað hefur ástandið enn versnað og hættan aukizt. Og það er óhætt að segja, að almenningur ætlast til þess, að nauðsynlegar varúðarráðstafanir séu gerðar nú, enda væri annað algerlega óverjandi. Hæstv. ríkisstj. hefur tekið upp í fjárl. ½ millj. kr. í þessu skyni, og bæjarstjórn Rvíkur hefur einnig samþ. að leggja fram ½ millj. kr. En þá er eftir að gera ráðstafanirnar sjálfar og skipuleggja hjálparstarfið.

Ég vil leyfa mér að vænta þess, að málið fái fljóta afgreiðslu í þinginu, því að það er þess eðlis, að það þolir enga bið; og enn fremur vil ég leyfa mér að leggja til, að því verði vísað til hv. allshn. að lokinni umr.