23.01.1951
Neðri deild: 54. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í C-deild Alþingistíðinda. (4474)

155. mál, raforkulög

Flm. (Ingólfur Jónason) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér frv. á þskj. 515 ásamt þrem öðrum þm. um breyt. á raforkul. Í raforkul. frá 1946 var gert ráð fyrir því, að 2 millj. kr. yrðu árlega lagðar í raforkusjóð, en síðan l. voru samþ. hefur stofnkostnaður orkuvera og veitna allt að því þrefaldazt, en tillag til sjóðsins að heita má staðið í stað. Þetta frv. er flutt til þess að reyna að leiðrétta þetta misræmi og til þess að koma í veg fyrir algera stöðvun á byggingu nýrra rafveitna. Og þegar það er athugað, hvernig fjárl. frá 1946 voru, þegar raforkul. voru samþ., og þau borin saman við fjárl. 1951, þá verður enn ljósara en jafnvel fyrr, hversu mikið framlagið til raforkusjóðs hefur raunverulega lækkað, miðað við gildi peninga 1946 og 1951. Hv. þm. Mýr. (BÁ) og hv. þm. Hafnf. (EmJ), sem báðir hafa verið raforkumálaráðh., eru flm. þessa frv. og hafa meiri kunnugleika á þessum málum én þm. almennt. Þeir urðu varir við það í sinni ráðherratíð, hversu raforkusjóði var sniðinn þröngur stakkur til þess að geta staðið undir þeim kröfum, sem gerðar voru til hans, en sjóðurinn hefur það hlutverk að lána fé til rafveitna og orkuvera, og það er vegna þess, að raforkusjóður var stofnaður, að þetta hefur þó þokazt áleiðis í raforkumálunum úti um byggðir landsins sem raun er á orðin, en þar sem hann hrökk hvergi nærri til, þegar hv. þm. Hafnf. var raforkumálaráðh., og því síður, eftir að hv. þm. Mýr. tók við því embætti, þá ætti mönnum að vera enn betur ljóst eftir gengislækkunina, þegar vitað er, að stofnkostnaður rafveitna hefur þrefaldazt síðan 1946, hve tillagið til raforkusjóðs er raunverulega lítið, miðað við það hlutverk, sem honum er ætlað að inna af hendi, og er þetta frv. því flutt af brýnni nauðsyn, til þess að ekki verði alger stöðvun í raforkumálunum.

— Nú mun kannske einhver spyrja, hvers vegna ekki sé farið fram á að þrefalda tillagið til raforkusjóðs til samræmis við þá hækkun, sem orðið hefur á stofnkostnaði rafveitna, en ástæðan fyrir því er einfaldlega sú, að við höfum ekki treyst okkur til þess, eins og fjárhag ríkisins er nú komið, að fara lengra að sinni í frv. en að leggja til, að framlag til raforkusjóðs verði tvöfaldað frá því, sem nú er, og teljum, að með því fáist nokkur leiðrétting á þessu máli. Við væntum þess fastlega, að frv. nái fram að ganga og verði að l. á þessu þingi, og leggjum til, að því verði vísað til 2. umr. og fjhn., og vonum, að hv. n. taki það fljótlega fyrir til athugunar og fyrirgreiðslu.