02.03.1951
Sameinað þing: 48. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1497 í B-deild Alþingistíðinda. (45)

Almennar stjórnmálaumræður (eldhúsdagsumræður)

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Ég þarf fáum orðum að víkja að hæstv. utanrrh., Bjarna Benediktssyni. Ræða hans var af þeirri tegund, að hún dæmir sig sjálf. Öll var ræða hans geðtruflaður vaðall um heimskommúnismann, slúður um pappír Þjóðviljans, um að Brynjólfur hafi verið ferðafélagi Rakovskys og að Þóroddur hafi verið skólabróðir Gottwalds og annað af slíku tagi. Þessi ræða var þrátt fyrir allt táknræn fyrir utanríkisstefnu hæstv. ríkisstj. Geðofsaræður Bjarna Benediktssonar af þessu tagi sæma hans slæmu samvizku í sjálfstæðismálum landsins og undirlægjuhætti hans við bandarísku yfirboðarana. Um íslenzk mál hafði þessi sjálfstæðisforkólfur ekkert að segja, ekki eitt orð.

Ég vík þá að nokkru að því, sem kom fram í umræðunum á mánudagskvöldið.

Hæstv. forsrh. taldi, að höfuðvandamál ríkisstj. stöfuðu frá tíma nýsköpunarstjórnarinnar, sem fór með völd 1945 og 1946, eða fyrir 4–6 árum. Þetta er nú að verða nokkuð gömul og haldlítil framsóknarkenning. Eða heldur hæstv. ráðh., að nýsköpunartogararnir, sem framleiða gjaldeyrisverðmæti fyrir 150 millj. á ári, hafi skapað vandamál í íslenzku atvinnulífi? Dettur hæstv. ráðh. til hugar, að nýsköpunarfiskibátarnir séu orsök erfiðleikanna hjá vélbátaflotanum, hin nýju og fullkomnu atvinnutæki, sem keypt voru á nýsköpunarárunum fyrir eignir þjóðarinnar, en ekki með skuldasöfnun? En hæstv. forsrh. minntist einnig á, að drjúgur hluti erfiðleikanna, sem stjórn hans ætti nú við að glíma, stafaði frá tíma Alþýðuflokksstj., sem sat frá 1947 til 1950. Og Hermann Jónasson þóttist nú sanna, að þessi stjórn hefði siglt öllu í strand og gereyðilagt efnahag þjóðarinnar. Í þessari stjórn, sem vandræðunum olli, áttu báðir núverandi stjórnarflokkar sæti. Þeir réðu þar málum, engu síður en Alþfl., og sú var tíðin, að Eysteinn Jónsson og. Bjarni Ásgeirsson og aðrir forustumenn Framsóknar töldu þá stjórn góða, a. m. k. undu framsóknarmenn vel hag sínum í þessari stjórn í 3 ár. Hæstv. forsrh. og aðrir framsóknarmenn verða að þreifa á þeirri staðreynd, að flokkur þeirra hefur nú verið í ríkisstj. samfleytt í 4 ár og að á þeim árum hafa erfiðleikarnir myndazt og allt gengið aftur á bak.

Hver er arfurinn, sem stjórnarandstaðan skildi eftir sig? Þegar nýsköpunarstj. lét af völdum, var gjaldeyriseign bankanna samkvæmt opinberum skýrslum 223 millj. kr. Séu ábyrgðarskuldbindingar vegna nýju togaranna, 55 millj. kr., dregnar frá þessari upphæð, sýnir sig, að samt var hrein gjaldeyriseign þá um 168 millj. kr. Við þessu tók sú ríkisstj., sem framsóknarmenn áttu þátt í að koma saman 1947. Og hún tók við atvinnutækjum landsmanna endurnýjuðum og stórauknum og skuldum ríkisins minni en nokkru sinni. Þannig stóðu þessi mál, þegar Framsókn segist hafa verið kölluð til þess að bjarga þjóðinni með stjórnarþátttöku sinni. Og nú hefur Framsókn þreytt sítt björgunarsund með þjóðinni í 4 ár, og þá stöndum við hér.

Hæstv. fjmrh., Eysteinn Jónsson, talaði mjög fræðilega um erfiðleika atvinnu- og fjárhagslífsins. Hann sagði: „Það verður að taka fyrir rætur meinsins, og rætur meinsins eru í því, að of mikið fé er í umferð.“ Þetta er eflaust þrauthugsað mál af hæstv. ráðh. Það, sem að er, er, að það er of mikið fé í umferð, eða eins og hæstv. ráðh. hefur stundum orðað þetta: „Kaupmátturinn er of mikill.“ Og við þessa speki miðast svo öll úrræðin. Eru þarna fundnar rætur meinsins í atvinnu- og fjárhagsmálum þjóðarinnar? Er þetta orsök erfiðleikanna? Skyldi það ráð duga á allan vandann að senda nóg af vörum til Bíldudals, Ísafjarðar, Siglufjarðar og annarra staða úti um allt land? Ætli fullar búðir mundu leysa atvinnu- og fjárhagserfiðleika þessara staða? Heldur Eysteinn Jónsson virkilega, að of mikill kaupmáttur fólksins í þessum framleiðslubæjum sé ástæðan til atvinnuleysisins þar? Það er furðuleg skammsýni hjá hæstv. fjmrh. landsins að halda því fram, að höfuðvandinn í atvinnumálunum sé nú of mikið fé í umferð eða of mikill kaupmáttur. Aðalvandinn er einfaldlega sá, að þjóðin framleiðir of lítið. Framleiðslutækin eru ekki nema hálfnýtt. Það er verið að drepa framleiðsluna.

Þeir menn, sem búa í framleiðslubæjum landsins, búa við skarðastan hlut. Sá, sem stundar fiskveiðar, á ekkert öryggi fyrir kaupi sínu, og hv. Alþ. samþ. að svipta bátasjómenn sjóveðsréttinum. Öll útflutningsframleiðsla landsins berst í bökkum, og víðast er taprekstur. Ríkisvaldið sýnir fullkomið skilningsleysi á þessum staðreyndum og hagar stefnu sinni þannig, að til niðurdreps er fyrir atvinnuvegina, sem síðan orsakar atvinnuleysi. En ríkisstjórnir síðustu ára hafa haft annað sjónarmið ríkjandi, þegar í hlut hafa átt aðrir þegnar þjóðfélagsins en þeir, sem starfa við framleiðsluatvinnuvegina. Sífelldur vöxtur ríkisbáknsins hefur verið samþykktur með ánægju. Heildarútgjöld til embættisrekstrarins hafa hækkað um tugi milljóna. Braskaralýðurinn fékk óhindrað að græða á verðsveiflum gengisbreytingarinnar. Þegar fiskábyrgðin var felld niður, stóð eftir söluskatturinn, sem sérstaklega hafði verið á lagður til þess að standa undir fiskábyrgðargreiðslunum. Þessi tekjustofn nam 43 millj. kr. árið 1949. Hæstv. fjmrh., Eysteinn Jónsson, barðist af eldmóði fyrir því, að ríkið héldi áfram þessum skatti þrátt fyrir niðurfellingu fiskábyrgðarinnar. Á þennan hátt var hægt að fá rýmra olnbogarúm í eyðslu ríkisins, þegar búið var að hrista af sér þá óguðlegu ráðstöfun að greiða fé til öryggis framleiðslunni.

Hæstv. ráðh. tala nú af miklum fjálgleik um þá óheillaleið, sem fiskábyrgðin hafi verið, og í því efni er vitnað til skattborgaranna, sem þurftu að rísa undir óbærilegum gjöldum, til þess að hægt væri að greiða fé til aðalatvinnuvegs þjóðarinnar. Já, þvílíkur ósómi. En er þá ekki betra að hafa núgildandi hátt á þessu? Allir sömu skattar eru lagðir á þjóðina og áður, og þó drjúgum hækkaðir, en nú er bara ekkert af þessu fé greitt til framleiðslunnar. En hvert fer það? Nú fer það beint í eyðslu ríkisins, nú er hægt að bæta við embættismönnum, nú er hægt að bæta um hag þeirra, sem ekki vinna að framleiðslunni.

Fyrst minnzt hefur verið hér á fiskábyrgðina, er rétt að geta nokkurra helztu staðreyndanna, sem liggja fyrir í sambandi við hana. — Þau 3 ár, sem fiskábyrgðin stóð, kostaði hún ríkissjóð rúmar 60 millj. kr., eða rétt um 20 millj. að meðaltali á ári. Þessi urðu útgjöldin, en árin 1948 og 1949 nam söluskatturinn, sem átti að standa undir fiskábyrgðinni, um 60 millj. kr. Atvinnuöryggi það, sem fiskábyrgðin skapaði, þótti of mikið að gjalda nokkuð fyrir, en þó að jafnmikið fé eða jafnvel meira sé lagt til óarðbærrar vinnu eða þýðingarlauss embættisrekstrar, þá er það góð pólitík að áliti stjórnarflokkanna. Til þess að halda uppi eyðslustefnu ríkisstj. var fiskábyrgðin felld niður og kostir framleiðslunnar þrengdir. Af sömu ástæðum hækka álögur á framleiðslunni jafnt og þétt og gera henni ófært að halda áfram störfum. Ég skal nefna nokkur dæmi sem sýnishorn af álögum hins opinbera á framleiðsluna.

Af einni venjulegri fiskibátavél, sem erlendis kostar um 185 þús. kr., eru skattar og tollar rúmar 30 þús. kr. og hefur hækkað á síðustu 3 árum um 20 þús. kr. — Nýlega flutti útvegsmaður hér í bæ inn efnivið til fiskverkunar, og kostaði efnið 114 þús. kr., en tollar og skattar til ríkissjóðs námu 45 þús. kr. — Af einni venjulegri málningu á nýsköpunartogara hérna í Slippnum þarf að greiða um 2000 kr. í toll af málningarefninu.

Þannig miðar stefna ríkisstj. að því að reyta allt af framleiðslunni, leggja sífellt á hana ný gjöld og neita henni svo um leyfi til frjálsrar afurðasölu. Og hvernig hefur hæstv. ríkisstj. haldið á afurðasölumálunum? Sama stefnan og síðustu 3 árin. Þýðingarmiklum mörkuðum glatað og fullkomið skilningsleysi ríkjandi, þegar þurft hefur fyrirgreiðslu ríkisvaldsins.

Hæstv. atvmrh., Ólafur Thors, hélt því fram í umræðunum á mánudagskvöldið, að við sósíalistar hefðum fengið Rússa og aðrar Austur-Evrópuþjóðir til þess að vilja ekki gera samninga við ríkisstj. um fiskkaup, en aftur á móti gætu sósíalistar sjálfir selt fisk þangað austur og væru þar af leiðandi áfjáðir í frjálsa möguleika til slíks í fjárgróðaskyni. Þetta er ný kenning, en býsna athyglisverð. Nú eru það ekki Rússar, sem skipa okkur fyrir verkum, heldur við, sem skipum þeim, og þeir hlýða skilmálalaust! Og svo er hitt. Ráðherrann segir, að sósíalistar geti selt fisk til Austur-Evrópu, en vandi hæstv. ríkisstj. sé sá, að sósíalistar kunni að hafa hagnað af viðskiptunum. Ætli þessi orð beri ekki að skilja svo, að ríkisstj. sýnist, að ekki sé mögulegt að koma þessum viðskiptum þannig fyrir, að gæðingar hennar geti fengið öll umboðs- og sölulaun af þessum viðskiptum eins og öðrum? En sem sagt, hæstv. ráðh. virðist hafa tekið eftir því, að það muni vera hægt að selja fisk til Austur-Evrópu. Nú liggi fyrir tölur, sem sýna söluverð á frosnum fiski s.l. ár bæði til Austur-Evrópulanda og eins til Vestur-Evrópu og Ameríku. Þessar tölur sýna, að fiskverðið í Póllandi, Tékkóslóvakíu og Ungverjalandi er 12 til 14% yfir fullu framleiðsluverði, ef miðað er við þorsk, eða verðið hjá þessum þjóðum hefði staðið undir nærri 1,00 kr. fiskverði. En aftur á móti hefur fiskverðið til Bandaríkjanna, Englands og Hollands verið 70 til 90% af fullu framleiðsluverði. Það hefur því verið stórtap á þorsksölu til Bandaríkjanna.

Fiskverðið til Tékkóslóvakíu hefur verið um 40% hærra en til Bandaríkjanna og þorsksalan til Bandaríkjanna hefur aðeins verið möguleg með verðjöfnun á þeim fiski, sem fór til Austur-Evrópu. Þetta er ekkert nýtt fyrirbrigði. Stærstu fúlgur fiskábyrgðargreiðslnanna voru greiddar með þorski, sem seldur var fyrir lágt verð til Bandaríkjanna.

Það er sannarlega alvarlegt mál fyrir framleiðsluna, ef pólitískir fordómar og þjösnaskapur eyðileggja beztu markaðsmöguleika þjóðarinnar.

Ég skal þá að síðustu víkja með nokkrum orðum að þeim tillögum, sem hæstv. ríkisstj. nú leggur fram til aðstoðar bátaútveginum. Þessar till. líkjast mjög gengislækkunartill. ríkisstj. Fyrir bátaútveginn er þetta í rauninni hvorki fugl né fiskur. Allt er á huldu um það, hvað þessi ímynduðu hlunnindi munu í reyndinni færa bátaútgerðinni. Þegar gengislækkunin var samþ., var talað líklega um 93 aura fiskverð. Nú er á sama hátt talað um 96 aura verð, eða jafnvel 1,06. Nú, eins og þá, má ekki lögbinda þetta verð og ekki heldur gefa út stjórnarauglýsingu um það sem skilyrði fyrir hlunnindunum. Nei, bezt er að hafa allt óákveðið. Þannig er Landssamband útvegsmanna aðeins látið mæla með því víð útvegsmenn, að þeir greiði sjómönnum kaup úr 96 aura fiskverði. Þegar auglýsing Landssambandsins hafði staðið í heilan mánuð og enginn greitt 96 aura verðið, þá fær ríkisstj. stjórn Landssambandsins og verðlagsráð sjávarafurða til þess að lýsa yfir, að þessir aðilar telji, að verðlagsgrundvöllur hafi nú myndazt. Allt er þetta sami loddaraskapurinn. Sá verðlagsgrundvöllur, sem frystihúsin og Landssambandið hafa komið sér saman um, er í fyrsta lagi, að frystihúsin greiði 75 aura fiskverð og þá eigi bátarnir fríðindin, og í öðru lagi, að greiði frystihúsin 90 aura, þá eigi þau 55% af fríðindunum, en bátarnir 45%. Allir aðrir samningar geta og komið til greina. En eftir sem áður stendur sú staðreynd, að enginn er kaupandi að fiskinum fyrir 96 aura, sem greiðast út, og þýðir það þá raunverulega enga fiskverðshækkun, enda er augljóst mál, að frystihúsin geta ekki greitt hærra verð en verið hefur, fyrr en þessi áætluðu hlunnindi eru orðin að fjármunum hjá þeim, en á því hlýtur að verða dráttur í 8–12 mánuði, og margt hefur gerzt á skemmri tíma. Þessi veiði er sýnd, en ekki gefin fyrir bátaútvegsmenn almennt, og það er ekki mikið sagt, þó að dregið sé í efa, að hin meintu hlunnindi komi nokkurn tíma til skila til rétts aðila.

Skottulækningar núv. ríkisstj. í atvinnu- og fjárhagslífi þjóðarinnar koma að litlu gagni, því að meginstefna ríkisstj. er röng, framleiðsluatvinnuvegunum fjandsamleg og til árása á vinnandi alþýðu í landinu. Áframhald þeirrar stefnu leiðir aukið atvinnuleysi og hörmungar yfir þjóðina. Þegar alþýða manna og þeir, sem ættu að skilja bezt aðstöðu framleiðsluatvinnuveganna, skilja hvert stefnir og hrista af sér þá forustu, sem nú fer með umboð þeirra í ríkisstj., þá fyrst má búast við stefnubreytingu til úrbóta í atvinnumálum landsins.