28.02.1951
Sameinað þing: 48. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1501 í B-deild Alþingistíðinda. (46)

Almennar stjórnmálaumræður (eldhúsdagsumræður)

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. Þegar núv. ríkisstj. var mynduð, fyrir tæpu ári síðan, naut hún stuðnings borgaraflokka landsins, Frams. og Sjálfstfl. Aðra þm. hafði hún þá þegar sér andvíga. En raunverulega og ef rétt er talið, er það aðeins einn stjórnmálaflokkur, Alþfl., sem staðið hefur í eindreginni og ákveðinni andstöðu við ríkisstj. í innanlandsmálum það tæpa ár, sem stj. hefur setið. Kommúnistar eru hvorki hér á landi né annars staðar stjórnmálaflokkur í þeirri merkingu, sem við á í löndum lýðræðisskipulags. Þeir eru samsærissamtök innan lýðræðisþjóðfélaganna, en stjórna með ofbeldi og einræði í lögregluríkjunum. Afstaða þeirra stjórnast eingöngu af hagsmunum og utanríkispólitík Ráðstjórnarríkjanna. Þess vegna miða þeir alla sína baráttu, hér á landi eins og alls staðar annars staðar, við það eitt að ganga erinda Ráðstjórnarríkjanna og berjast gegn hinum vestrænu lýðræðisríkjum, samtökum þeirra og samstarfi, og að grafa undan og veikja viðnámsþrótt þeirra, í því skyni að styðja og styrkja yfirráða- og útþenslupólitík Sovét-Rússlands. Barátta þeirra í innanlandsmálum mótast af þessu einu. Þess vegna hlýða þeir skilyrðislaust og í blindni hinum sveiflandi boðum og banni Kominform. Allar þeirra athafnir og öll þeirra barátta miðast við það eitt og ekkert annað. Alþfl. á hins vegar í höfuðatriðum samstöðu með hinum lýðræðisflokkunum í andstöðu við kommúnista. Sú utanríkismálastefna, sem ríkjandi er í dag, er hin sama og sú, sem fylgt var af þeirri ríkisstj., þar sem formaður Alþfl. hafði forsæti. Um hana þarf Alþfl. því ekki að deila við núv. ríkisstj., heldur telur hann þvert á móti sjálfsagt og nauðsynlegt, að allir lýðræðisflokkarnir standi þar saman í órofa heild. En þegar að innanlandsmálunum kemur, verður allt annað upp á teningnum. Þar hefur Alþfl. ærna og ríka ástæðu til þess að vera í harðri andstöðu við núverandi ríkisstjórn. —

Áður en vikið er að stefnu og starfsháttum hæstv. ríkisstj., verður ekki hjá því komizt að vekja með fáum orðum athygli á kenningum og loforðum þeim, sem haldið var á lofti af þeim stjórnmálaflokki, er hefur forsæti í ríkisstj., og hann hampaði bæði fyrir síðustu alþingiskosningar og eins áður en kom til myndunar núv. ríkisstj.

Vorið 1949 gerði Framsfl. skriflega, eftir að hann hafði að nokkru leyti staðið í andstöðu við þá ríkisstj., sem hann átti tvo ráðherra í, þessar kröfur um stjórnarstefnu:

1) Að tekin væri upp ný stefna í verzlunarmálum, sem tryggði neytendum og framleiðendum frjálsræði til að velja á milli verzlana og koma í veg fyrir okur og svartan markað.

2) Að búið væri vel að verksmiðjuiðnaðinum, svo að hann nýttist sem bezt til að lækka verð og spara gjaldeyri.

3 ) Að lagður yrði á hár stóríbúðaskattur, er rynni sem lán til bygginga samvinnu- og verkamannabústaða, og að lögboðin yrði lækkun á húsaleigu.

4) Að dregið yrði úr rekstrarútgjöldum ríkisins og ríkisstofnana.

5) Að aukið yrði eftirlit með skattaframtölum og ný löggjöf sett, þeim framkvæmdum til stuðnings.

6) Að hert yrði á verðlagseftirliti.

Framsfl. rauf samvinnu um ríkisstjórn og gekk til kosninga með þessa róttæku stefnuskrá, og átti hún að innibinda svo nefndar hliðarráðstafanir flokksins, framkvæmdar á undan eða samtímis gengislækkun. Flokkurinn vann nokkuð á í kosningunum, þó að það væri að verulegu leyti í skjóli úreltrar kjördæmaskipunar.

Ekki verður annað sagt en að Framsfl. hafi efnt heit sín um gengislækkun, er hann tók höndum saman við Sjálfstfl. um myndun núv. ríkisstj. En hliðarráðstafanirnar hurfu burt með stjórnarblænum, og er þá rétt, þessu til skýringar, að athuga efndir hinna sex áður nefndu loforða flokksins.

1) Til þess að framkvæma loforð samvinnumanna um verzlunarmálin, var viðskiptamálaráðuneytið falið forsjá eins hins athafnasamasta og harðasta heildsala landsins. En umbótanna hefur ekki orðið vart, nema vera kynnu þær, að nú er fyrirhugað að afhenda til að braska með hart nær 1/5 af gjaldeyrinum og láta vörur þær, sem fyrir hann verða keyptar, vera óháðar öllu verðlagseftirliti. Frílistatilburðir ríkisstj. hafa til þessa að litlu liði komið, og þau loforð, sem nú eru gefin í þeim efnum, eru óviss hvað efndir snertir, nema tekið verði til viðbótar gjafafé stórt erlent gjaldeyrislán. Auk þess hefur stj. nú heppnazt að draga svo úr kaupgetu almennings, að hann mun eiga þess lítinn kost að kaupa vörur, þó að búðarhillurnar svigni undan þunga þeirra. Það verður skorturinn, er innleiðir nýja skömmtun.

2) Varðandi verksmiðjuiðnaðinn hefur það helzt gerzt, að margar verksmiðjur hafa orðið að hætta eða draga saman seglin vegna skorts á hráefnum. Þannig voru þau loforðin haldin.

3) Stóríbúðaskatturinn hefur ekki sézt, og fyrirferðarlitlar eru framkvæmdirnar um byggingu samvinnu- og verkamannabústaða. Húsnæðisleysið er vaxandi og allar líkur til, að stórlega dragi úr húsabyggingum; hömlur á húsaleigu eru gerðar að engu.

4) Ekki hefur enn mikið bólað á sparnaðinum.

5) Ekkert hefur verið gert til þess að bæta og auka eftirlit með skattaframtölum, og falla þau mál undir hæstv. fjmrh., Eystein Jónsson.

6) Gert er ráð fyrir að afnema sem mest allt verðlagseftirlit og þegar fyrirhugað að gera það á verulegum hluta innflutningsins. Þannig eru efndirnar um aukið og eflt verðlagseftirlit.

Stjórnarforustuflokkurinn hefur þannig bókstaflega vanefnt öll sín róttæku kosningaloforð. Berum svo þessar staðreyndir vanefndanna saman við hreystiyrði hæstv. landbrh., Hermanns Jónassonar, um stefnu og afrek flokks hans. Og út af ummælum hans um ástleitni Framsfl. við Alþfl. og hryggð hins smáða biðils er aðeins ástæða til að taka fram:

1. Framsfl. gekk til síðustu kosninga með gengislækkun á stefnuskrá sinni, algerlega andstætt við yfirlýsingar Alþfl.

2. Alþfl. og Framsfl. höfðu alls ekki meiri hluta til samans á Alþingi.

3. Það var aðeins til málamynda og fyrir siða sakir, að Framsfl. ræddi um stjórnarsamstarf við Alþfl. á haustþinginu 1949, enda mun þá þegar hafa verið ákveðið, að Framsfl. tæki höndum saman við Sjálfstfl, um ríkisstjórn til framkvæmda á gengislækkun.

4. Reynslan af samstarfi við Framsfl. er ekki sérstaklega ginnandi.

Hinn 14. marz 1950 flutti hæstv. forsrh., Steingrímur Steinþórsson, stefnuyfirlýsingu stj., er hún settist í stólana. Hún var að vísu hvorki löng né viðamikil. En einstök atriði er rétt að festa í minni og athuga í ljósi reynslunnar og þeirra staðreynda, sem nefndar hafa verið. — Hæstv. forsrh., Steingrímur Steinþórsson, komst svo að orði í þessari ræðu sinni:

Ríkisstj. er fyrst og fremst mynduð til þess að koma á, eftir því sem unnt er, jafnvægi í viðskipta- og fjármálalífi þjóðarinnar. Í þessu skyni hafa stuðningsflokkar ríkisstj. samið um afgreiðslu á frv. því, sem nú liggur fyrir Alþingi um gengisskráningu.“

Síðar í sömu ræðu:

Ríkisstj. er það ljóst, að lífskjör almennings hér á landi eru ekki það rúm, að þeir, sem lágar tekjur hafa, megi vel við því að taka á sig auknar byrðar.... Ríkisstj. er því staðráðin í því að gera það, sem í hennar valdi stendur, að þær byrðar, sem almenningur kann að taka á sig vegna leiðréttingar á hinu skráða gengi krónunnar, verði sem minnstar, og óskar í því sambandi að hafa samráð og samstarf, svo sem verða má, við stéttarsamtök almennings og forustumenn þeirra.“

Svo mörg voru þessi orð. Og hvað sýnir reynslan? Í því efni get ég raunar að verulegu leyti vísað til þess, sem ég hef áður sagt, og til hinna greinargóðu og glöggu ræðna flokksbræðra minna, þeirra hv. 3. og 6. landsk., Gylfa Þ. Gíslasonar og Hannibals Valdimarssonar, sem þeir fluttu í fyrradag og nú í kvöld. Þeir hafa með glöggum rökum sýnt fram á, hversu nú er umhorfs í atvinnu-, fjárhags- og viðskiptalífi þjóðarinnar. Þar er vissulega um að ræða algeran skort á jafnvægi, og fer því víðs fjarri, að gengislækkunin hafi gert nokkuð í þá átt að skapa þar jafnvægi, nema síður sé.

Þannig hafa algerlega brugðizt fyrirheitin um jafnvægið.

Það verður vart séð, að hæstv. ríkisstj. sé það ljóst, þrátt fyrir hin fögru orð forsrh., að lífskjör almennings hér á landi séu ekki það rúm að þeir, sem lágar tekjur hafa, megi við það una að taka á sig auknar byrðar. Að minnsta kosti hefur ríkisstj. verið óspör á það, með hækkuðum tollum og viðsjárverðum verzlunarháttum, að þrengja beinlínis lífskjör almennings, og það í mjög stórum stíl. Og sízt af öllu hefur ríkisstj., þrátt fyrir gefin loforð hæstv. forsrh. í stefnuskrárræðunni, sýnt nándar nærri nógan skilning né vilja á því, að byrðar þær, sem gengislækkunin olli, yrðu sem minnstar. Þvert á móti voru þau loforð vanefnd, sem í gengisl. fólust upprunalega, að veitt yrði uppbót á laun manna á síðari hluta ársins 1951 til samræmis við hækkaða vísitölu. Og allra sízt má segja, að ríkisstj. hafi tekizt að hafa nokkurt vald á verðlagi í landinu. Er þar því enga afsökun að finna.

Það liggur nærri, að út yfir taki í loforðum stefnuyfirlýsingarinnar, er því var heitið að hafa samráð og samstarf við stéttarsamtök almennings og forustumenn þeirra. Í stað þess að efna það hefur ríkisstj. engu skeytt um mótmæli og aðvaranir verkalýðssamtakanna og beinlínis ögrað þeim til að leggja til orrustu og í kaupdeilur með öllu framferði sínu. Er það vissulega ríkisstjórnarinnar sök, ef til slíkra átaka kemur, og ekki munu hótanir hæstv. atvmrh., Ólafs Thors, þar neitt úr draga. Væntanlega verður hann kominn úr heimsókn sinni frá Franco-Spáni áður en líkaböng hringir yfir ósigri atvinnurekendavaldsins.

Hér á undan hafa verið dregin fram nokkur höfuðatriði varðandi loforð og yfirlýsingar hæstv. ríkisstj. og forustuflokks hennar og sýnt fram á, að þau loforð hafa verið gersamlega vanefnd, en það aftur leitt til þess, að kjör almennings hafa stórversnað. Þetta hefði verið hægt að lagfæra nokkuð með endurbættri og aukinni félagsmálalöggjöf. Er því rétt að athuga með örfáum orðum afskipti ríkisstj. af þessum mikilsverða löggjafarþætti. Er þar fljótt frá að segja. Ríkisstj. hefur þar sýnt fullkomna íhaldssemi, tregðu eða jafnvel beinan fjandskap. Og segja má, að það hafi komið í ljós á öllum sviðum félagsmálalöggjafarinnar. Skulu þess nú nefnd nokkur dæmi.

Fyrir tilstuðlan stjórnarflokkanna er öll húsaleigulöggjöf raunverulega að falla úr gildi, og ekkert kemur í staðinn. Sérstaklega í Reykjavík mun þetta valda því, að fjölda fátæks fólks verður varpað út á götuna um leið og leiga hækkar í þeim húsum, þar sem lögin áður héldu henni nokkuð niðri. Ríkisstj. hefur staðið gegn fram komnum endurbótatillögum á hinni stórmerku almannatryggingalöggjöf og hindrað framkvæmd hennar. — Ríkisstj. hefur lagt til, og mun væntanlega fá samþykki Alþingis fyrir því, að afnumið verði framtak ríkisins og fjárframlag til vinnumiðlunar, einmitt nú, þegar atvinnuleysið er stórlega að færast í aukana. — Ríkisstj. og flokkar hennar standa gegn því og hindra, að sett verði mjög merkileg og vel undirbúin löggjöf um öryggi á vinnustöðum.

Og þannig mætti áfram telja. Það er þeim mun ömurlegra að benda á þessar staðreyndir varðandi félagsmálalöggjöfina, að hæstv. fors.- og félmrh. landsins, Steingrímur Steinþórsson, er með réttu talinn einn af víðsýnustu og frjálslyndustu mönnum Framsfl. En þegar svo er um hið græna tréð, hvað mun þá vera um hina feysknu stofna?

Og yfir allri þessari andstöðu og fjandskap við umbótamálin standa íhaldsöflin í landinu glottandi og segja, líkt og H. C. Andersen lætur Stóra-Kláus hrópa til Litla-Kláusar í frægu ævintýri: „Hott, hott, allir mínir hestar.“

Það má með fullum rökum slá því föstu, að hæstv. ríkisstj. hafi í atvinnu- og fjármálum beinlínis lifað á og lítið eitt haldið í horfinu á svonefndu Marshallfé. Án þess hefði bændur skort útlendan áburð og fóðurbæti, iðnaður og útgerð stöðvazt og skortur orðið á brýnustu lífsnauðsynjum. Og á þessu ætlar ríkisstj. að byggja áframhaldandi tilvist sína til bráðabirgða. En þessi mikilsverða og allt að því lífsnauðsynlega aðstoð verður ekki til allrar frambúðar. Og hvað tekur þá við? Fyrir því mun hæstv. ríkisstj. gera sér litla grein.

En vert er að minnast á það, að ef kommúnistar hefðu ráðið og komið í veg fyrir þátttöku Íslands í Marshallskipulaginu, þá væri hér orðið algert hrun og atvinnuleysi. Og það, sem merkilegra er; ef formaður Framsfl., hæstv. landbrh., Hermann Jónasson, hefði ráðið og fylgt hefði verið hans ákveðnu skriflegu mótmælum gegn Marshallaðstoðinni, þá hefði mörgum smábændum orðið þungt fyrir dyrum.

Tími minn leyfir ekki, enda óþarft eftir ágætar og ýtarlegar ræður flokksbræðra minna, að rekja raunasögu hæstv. ríkisstj. nánar. Ég vil aðeins benda á, í nokkrum höfuðatriðum, hve ömurlegt ástand hefur skapazt í innanlandsmálum eftir eins árs setu ríkisstj.

Gengið á íslenzku krónunni hefur verið lækkað um 42,6%. Eftir sem áður er haldið við þeim sköttum og tollum, sem áður voru á lagðir til þess að komast hjá gengislækkun og standa straum af ábyrgðarverði á bátafiski og til niðurgreiðslu á nauðsynjavörum. Ekki er heldur látið við það sitja. Söluskatturinn hefur veríð hækkaður og ákveðið að leyfa ótakmarkaða álagningu á vissa innflutta vöruflokka, er mun hækka þessar vörur um 50–60 millj. kr. og með þeim þunga leggjast á þjóðina. Verðlag í landinu hefur hækkað á þessu eina stjórnarári um 30–40% og mun halda áfram að stórhækka og skapa þannig meiri dýrtíð og verðþenslu en nokkru sinni fyrr. Neyzluvöruskortur er mjög tilfinnanlegur og svartamarkaðsbrask í algleymingi. Alvarlegt og almennt atvinnuleysi er nú orðið um land allt og útlit hið uggvænlegasta. Dregið hefur verið úr félagsmálalöggjöf landsins og staðið gegn breytingum til bóta og aukningu hennar. Þessu hefur stjórnarstefnan áorkað á einu ári, að skapa öngþveiti, kjararýrnun, atvinnuleysi og með því vaxandi eymd alþýðunnar í landinu.

Margir kannast við hið sígilda leikrit Ibsens, Pétur Gaut, sem til er í afbragðsþýðingu Einars Benediktssonar. Þegar Pétur Gautur kemur heim, eftir ömurleg ævintýraferðalög erlendis, hittir hann hnappasmiðinn á vegamótum, sem krefst að fá hann til þess að bræða í hnappasteypu sinni. Pétur Gautur færist undan og biður um frest til þess að fá vitni og vottorð. Eftir þrábeiðni gefur hnappasmiðurinn honum frest til næstu vegamóta.

Aftur hittast þeir við gatnamót. Hnappasmiðurinn krefur Pétur Gaut um vottorðið, en hann hefur ekki aflað þess og biður aftur um frest. Hnappasmiðurinn minnir hann á, að ef hann fái vottorðið, þurfi hann ekki að hræðast, því að þá verði hann ekki settur í uppsteypuna til að bræðast. Pétur Gautur þrábiður enn um frest, og honum er veittur hann til næstu vegamóta, en lengur ekki. Að lokum hittast þeir á síðustu krossgötunum, og enn vantar Pétur Gaut vottorðið, en flýr þess í stað inn til hinnar umburðarlyndu Sólveigar, sem svæfir hann eins og barn við þýðan vöggusöng.

Þegar Alþingi lauk í maí 1950, hafði ríkisstj. lagt út í ævintýraferðalag gengislækkunarinnar. Eins og Pétur Gautur var ríkisstj. í upphafi þessa Alþingis stödd á vegamótum. Hún átti þá á hættu að lenda í hnappadeiglunni og bað um frest til þess að fá vottorð og vitni bátaútvegs- og kaupsýslumanna. Við lok þessa Alþingis er ríkisstj. aftur stödd á vegamótum og sárbiður, eins og Pétur Gautur, um framhaldsfrest. Hæstv. ríkisstj. ætlar sér að útvega sér vitni og vottorð. Við eigum að bíða eftir enn frekari áhrifum gengislækkunarinnar, frekari frílistum og frjálsum gjaldeyri bátaútvegsins. Enn er beðið um frest, frest til hausts, frest til næsta árs. Fresturinn verður veittur. Þjóðin er umburðarlynd. En að því kemur þó fyrr eða síðar, að við hittum hæstv. ríkisstj. á krossgötum kosninganna. Það er síðasti fresturinn. Og þá verður það engin Sólveig, sem stendur í dyrunum og bjargar ríkisstj. Nei, hún mun þá lenda í deiglunni, það er víst og áreiðanlegt, og verður þá brædd upp í aumasta frakkahnapp og ekkert annað. Miskunnarlaust mun Alþfl. gera skyldu sína á krossgötum kosninganna. Við hittumst þar að lokum, og því fyrr, því betra fyrir þjóðina.