07.03.1951
Sameinað þing: 50. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1566 í B-deild Alþingistíðinda. (478)

Þinglausnir

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson) :

Herra forseti. Svo sem þingheimi er kunnugt, hefur forseti Íslands, herra Sveinn Björnsson, verið sjúkur um skeið. Að sögn læknis hans er forseti nú á góðum batavegi og hefur nokkra fótavist. En þar sem sjúkleiki forseta var mjög alvarlegur, er gert ráð fyrir, að hann verði alllengi að ná sér.

Forseti mun því eigi sjálfur slíta Alþingi að þessu sinni, en hefur veitt mér sem forsætisráðherra umboð til þess í bréfi, er hann gaf út að Bessastöðum í gær. Jafnframt fól forseti mér að bera yður, háttvirtir alþingismenn, kveðju sína og árnaðaróskir.

Fyrrgreint forsetabréf um þinglausnir hljóðar þannig:

„Forseti Íslands gerir kunnugt: Að ég veiti hér með forsætisráðherra, Steingrími Steinþórssyni, umboð til þess að slíta Alþingi, 70. löggjafarþingi, er það hefur lokið störfum.

Gert að Bessastöðum 6. marz 1951.

Sveinn Björnsson

(L.S.) Steingrímur Steinþórsson.“

Störfum Alþingis er lokið að þessu sinni. Samkvæmt umboði því, er ég hef lesið, segi ég Alþingi slitið.

Ég vil biðja háttvirta alþingismenn að minnast forseta Íslands og fósturjarðarinnar með því að rísa úr sætum.

Þingheimur stóð upp, og forsætisráðherra mælti: „Lifi Ísland.“

Tók þingheimur undir þau orð með ferföldu húrrahrópi.

Var síðan af þingi gengið.