12.12.1950
Efri deild: 35. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í B-deild Alþingistíðinda. (516)

123. mál, lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Í sambandi við þetta mál vildi ég gjarnan fá upplýsingar, en ég hef áður talað um það hér í þinginu. Hvers vegna hefur sjóður sá, sem hér um ræðir, vaxið svona ört? Annaðhvort hlýtur það að vera af því, að iðgjöldin eru of há, eða þá að eftirlaun eru of lág. Þetta frv., sem gengur út á það að ráðstafa sjóðnum, gefur tilefni til þess að inna eftir þessu og það því fremur, sem sæti á hér í d. sá maður, sem þessum sjóði á að vera kunnugastur og er yfirmaður trygginganna og hefur umsjón með þessum sjóði ásamt ríkisstj. Ég vildi ákveðið óska þess, þó það væri ekki nú, að athugað væri rækilega, hvort þörf er á því að hafa iðgjöld lífeyrissjóðs barnakennara, sem er næsta mál á dagskrá, og eins iðgjöld lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins eins há og þau eru, og ef þau eru höfð þetta há, hvort ekki er þá ástæða til að hafa útborganir eftirlaunanna hærri en þær eru. Mér finnst óeðlilegt, hvað sjóðurinn vex ört, og það getur ekki stafað af öðru en því, að ekki sé rétt hlutfall þarna á milli. Ég vil því enn á ný biðja um, að þetta sé athugað, því að ég hef tvívegis gert það áður hér í þinginu.