13.12.1950
Efri deild: 37. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í B-deild Alþingistíðinda. (544)

124. mál, lífeyrissjóður barnakennara

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Mér er sagt, að hv. frsm. hafi vikið að því í ræðu sinni, að full þörf væri á endurskoðun ákvæða þessara laga, bæði hvað iðgjaldagreiðslur sjóðsins og framlög úr ríkissjóði snertir. Svo er fyrir mælt í ákvæðum þessara laga, að 5. hvert ár skuli af sérfróðum mönnum reiknað út, hversu sjóðeignin samsvari þeim kröfum, sem til hennar eru gerðar. Þessi athugun á að fara fram á næsta ári, og liggur þá ljóst fyrir, hvort iðgjöld eru of há. Hygg ég rétt að láta allar fullyrðingar í þessu máli bíða, þar til þessi athugun liggur fyrir, en það verður væntanlega ekki síðar en næsta haust. Í sambandi við það, að sagt er, að iðgjöldin séu óþarflega há samanborið við greiðsluskuldbindingarnar, þá þykir mér rétt að minna á, að þegar l. um lífeyrissjóð embættismanna voru felld úr gildi 1944 og sett nýju l. um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, þá fjölgaði meðlimum sjóðsins um 3–400%. Tekjur sjóðsins jukust þá stórkostlega, en flest af þessu nýja fólki hafði ekki verið lengi við störf, þ.e.a.s. var á ungum aldri, svo þyngsli á sjóðinn af þessu fólki eru nær enginn komin fram enn. En þær skuldbindingar, sem sjóðurinn hefur tekið á sig, eru að áliti fróðra manna a.m.k. jafnmiklar og iðgjöldin benda til, svo ekki sé meira sagt.

Árið 1944 fengu allir meðlimir eldri sjóðsins hin sömu réttindi og tilskilið er með hinum nýju l. og eru þau stórum meiri en áður var. Til þess að mæta þessu var ákveðið, að iðgjaldahlutur ríkissjóðs yrði 6%, en þeirra, sem framlaga sjóðsins áttu að njóta, 4%. Þessi mismunur var hugsaður þannig, að hann skyldi mæta skuldbindingum vegna þeirra, sem þegar voru í sjóðnum, er eldri lögin voru felld úr gildi.