28.11.1950
Efri deild: 27. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í B-deild Alþingistíðinda. (558)

90. mál, sala Vatnsleysu í Viðvíkursveit

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Ég hef raunar ekki annað um þetta mál að segja hér en það, sem kemur fram í nál. Það var þegar nýr prestur kom þarna í sveitina og til að losna við að byggja upp á Viðvík, að ríkissjóður keypti jörðina Vatnsleysu af fyrrverandi eiganda hennar, Jósef J. Björnssyni. Jörðin var keypt fyrir 37500 kr. og síðan gert við nýlega byggt steinhús, sem var þá á henni, fyrir rúml. 6 þús. kr., svo að jörðin hefur kostað í allt um 44 þús. kr. Frá þessu er skýrt í nál., en upplýsingar hefur nefndin fengið frá skrifstofustjóra kirkjumrn., Gústaf Jónassyni. — Nú var sú ákvörðun tekin af ríkisstj. í sumar, er turninn var vígður á Hólum, að framtíðarprestur í þessu prestakalli skyldi verða búsettur á Hólum. Það, sem frv. fer fram á, er, að syni Jósefs, H. J. Hólmjárn, verði seld jörðin. Landbn. hefur orðið sammála um að mæla með, að þetta frv. verði samþ., enda þótt sumir nefndarmanna séu því mótfallnir, að opinberar jarðir séu seldar, en hún mælir þó með þessu frv., því að þarna á í hlut sonur fyrri eiganda jarðarinnar, og þar sem það er líka tekið fram í frv., að jörðin verði gerð að ættaróðali, og er með því fyrirbyggt, að hún lendi í braski — eins og maður getur sagt á góðri íslenzku — á milli manna. Því hefur nefndin lagt til, að frv. verði samþ., en þó með því skilyrði, að ríkissjóður skaðist ekki á sölunni og að hann fái sínar 44 þús. fyrir hana. Nefndin treystir því, að svo verði, en það kom ekki fram í frv., hvort ríkisstj. hygðist selja hana hærra verði vegna breytts gengis frá því er var, er jörðin var keypt. Það er sett í vald viðkomandi ráðherra að ákveða verð jarðarinnar, og ég tel rétt, að það komi strax fram, á hvað ríkisstj. ætlar að selja hana, en það kemur auðvitað ekki til mála að selja hana neðan við það verð, sem ríkissjóður hefur þegar lagt út fyrir hana.