28.11.1950
Efri deild: 27. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í B-deild Alþingistíðinda. (559)

90. mál, sala Vatnsleysu í Viðvíkursveit

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég hafði hugsað mér að koma fram með brtt. við frv. á þskj. 152. Í mörg ár hefur hin forna prestssetursjörð Neðri-Gufudalur í Gufudalshreppi verið í ábúð, og bóndinn þar hefur gert ítrekaðar tilraunir til að fá leyfi til að kaupa jörðina, en það hefur ekki tekizt, vegna þess að kirkjan á jörðinni er ekki eign sóknarinnar í sveitinni, heldur ríkisins. Það hafa því verið sett þau skilyrði fyrir kaupunum, að hann keypti kirkjuna með og sæi um að halda henni við, en það er skiljanlega ekki hægt eða mjög erfitt fyrir bóndann. Ég leyfi mér hér, eftir ósk bóndans, að fara þess á leit, að ríkisstj. verði heimilað að selja þessa jörð til Bergsveins Finnssonar. Brtt. er á þá leið, að bætt verði inn í 1. gr. frv., svo að hún hljóði þannig: „Ríkisstjórninni er heimilt að selja Hólmjárni Jósefssyni Hólmjárn prestssetursjörðina Vatnsleysu í Viðvíkursveit, er prestssetur verður flutt þaðan, og Bergsveini Finnssyni, Neðri-Gufudal, jörðina Neðri-Gufudal í Gufudalshreppi fyrir það verð og með þeim greiðsluskilmálum, er um semur, enda verði jarðirnar gerðar að ættaróðali.“ Ég hefði óskað eftir því, að hæstv. ráðherra hefði verið viðstaddur, því að ef hann hefði viljað lýsa því yfir hér, að ríkisstj. væri fús til að selja jörðina eftir þeim lögum, sem nú gilda um slíkar sölur, þá hefði ég verið fús til að taka till. mína aftur. Og ég veit ekki nema það væri rétt að fresta umr, um málið, svo að n. gæfist tóm til að athuga brtt. í samráði við ráðherra. Ég legg þetta mál hér fram til athugunar.