05.12.1950
Efri deild: 31. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 140 í B-deild Alþingistíðinda. (567)

90. mál, sala Vatnsleysu í Viðvíkursveit

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Ég lofaði við 2. umr. að athuga till. frá hv. þm. Barð., sem þá lá fyrir, sem er um það, að Neðri-Gufudalur í Barðastrandarsýslu verði tekinn upp líka. Ég benti þá á, að þar sem þetta væri kirkjujörð, þá mundi verða að athuga málið í sambandi við sóknina, sem þangað ætti að sækja prestsþjónustu, og skyldi ég leita upplýsinga um það milli umr. Í tilefni af því var stjórnarráðið beðið um upplýsingar, sem ég skal leyfa mér að lesa upp; þar segir:

„Neðri-Gufudalur er kirkjujörð. Samkv. Vilchinsmáldaga 1397 átti kirkjan allt heimaland, enda Gufudalur prestssetur og beneficium til skamms tíma. Kirkjan þar var og er lénskirkja og var áður í umsjón sóknarprestsins á staðnum. Samkvæmt reikningi Gufudalskirkju árið 1949 er sjóður hennar í árslok: Innstæða í Alm. kirkiusjóði kr. 948.87. Hjá gjaldkera kr. 51.92. Samtals kr. 1000.79. Kirkjan er timburkirkja, reist árið 1908, talin í biskupsvísitazíu 1939 vera í góðu ástandi, vel við haldið og vel um gengin. Þó er talið nauðsynlegt að mála kirkjuna að utan og steypa undir ofnrör á stafni kirkjunnar. Ekki er mögulegt að losa jarðareiganda við umsjón kirkju, nema samningur takist við söfnuðinn um að gera hana að safnaðarkirkju, og má hiklaust búast við, að söfnuðurinn krefjist álags með kirkjunni. Eðlilegast er, að ríkisstj. gangi frá því máli og greiði söfnuði álag á kirkjuna, áður en sala jarðarinnar fer fram, þannig að kaupandi hafi engan veg né vanda af kirkjunni umfram þær kvaðir, er að sjálfsögðu halda áfram að hvíla á jörðinni sem kirkjustað.“

Eftir að hafa athugað þetta og með því að till. hv. þm. Barð. gerir ráð fyrir því, að jörðin sé gerð að ættaróðali um leið og hún er seld, þá gat meiri hl. landbn. fallizt á að leyfa sölu á þessari jörð, þó með því skilyrði, að áður en salan fer fram, taki söfnuðurinn við kirkjunni og sjái um hana framvegis, en vilji söfnuðurinn ekki taka við kirkjunni, þá yrði ekkert úr sölunni. Hins vegar er ég hræddur um, að kirkjan í Neðri-Gufudal hafi — kannske óviljandi — verið snuðuð, því að það var svo um flestar af þessum kirkjum, sem voru lénskirkjur, að þær áttu að fá afgjald af þeim jörðum, sem þær áttu. Í þessu tilfelli átti kirkjan jörðina í Neðri-Gufudal, en þar er sjóðurinn ekki meira en 1000 kr. frá 1908. Þó mætti segja mér, að afgjaldið af Gufudal hafi ekki runnið til kirkjunnar, heldur til almenna kirkjujarðasjóðsins, og þó að ríkið borgaði álagið, þá væri það ekki nema eðlileg skaðabót. En þetta fullyrði ég ekkert um. Hitt er aðalatriðið, að við í meiri hl. getum ekki mælt með sölunni, nema því aðeins að samkomulag sé um, að söfnuðurinn taki við kirkjunni. Það er rétt, að fyrirsögninni þarf að breyta og bæta inn í hana á eftir „Vatnsleysu í Viðvíkursveit“: og Neðri-Gufudal. Það er óaðgæzla hjá mér að hafa ekki tekið eftir því og komið með brtt. í þá átt. En það er enga stund verið að semja þetta eða taka málið af dagskrá, svo að brtt. liggi fyrir prentuð næst.