05.12.1950
Efri deild: 31. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í B-deild Alþingistíðinda. (568)

90. mál, sala Vatnsleysu í Viðvíkursveit

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Það er rétt að ég lýsi því yfir við hæstv. forseta, að ég er tilbúinn að taka till. aftur vegna óska hæstv. ráðh: um að tefja ekki þetta mál og blanda ekki í það öðru máli. Ég vil leyfa mér að þakka hv. landbn. fyrir þá brtt., sem hún ber fram, og fyrir þann skilning, sem hún hefur á þessu máli; því að mér er ljóst nú, að þessi till. mín verður ekki samþ. nema við hana bætist sú till., sem fram er komin frá landbn. og hér liggur fyrir, sem setur það að skilyrði fyrir sölunni, að söfnuðurinn taki að sér kirkjuna. En þegar svo er komið, er engin þörf á að samþ. þessa till., því að það hefur ekki verið deilt um neitt annað í sambandi við þetta mál en það, að ábúandinn krafðist að fá jörðina keypta samkvæmt gildandi l. um sölu jarða, og ríkisstj. svaraði því sama og hér er svarað til, að hún vilji ekki selja jörðina, nema söfnuðurinn taki að sér kirkjuna, og það var þess vegna, sem þetta mál var borið hér fram. Eftir þessa yfirlýsingu frá landbn. sé ég enga ástæðu til að láta málið ganga fram þannig, með því að lagafyrirmæli eru nú til um, að það sé leyfilegt og heimilt að selja þessa jörð, eins og seldar eru aðrar jarðir ríkisins til ábúðar. En þegar þetta er sett að skilyrði, þá sé ég enga ástæðu til, að málið gangi fram eins og ætlazt er til með till. hv. landbn. Ég tek því brtt. 232 aftur, og er þá að sjálfsögðu fallin viðaukatill. við hana á þskj. 260.